Hoppa yfir valmynd

Um stafrænt pósthólf á ísland.is

Fjarskiptastofa tekur í notkun Stafrænt pósthólf á island.is

Frá og með 1. janúar 2025 mun Fjarskiptastofa birta viðskiptavinum sínum opinber erindi í Stafrænu pósthólfi á island.is.

Samkvæmt þriggja ára áætlun og lögum um Stafrænt pósthólf er öllum opinberum aðilum skylt að bjóða uppá stafrænar birtingar eigi síðar en 1. janúar 2025. Með lögunum er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum Stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Stafrænt pósthólf er lokað svæði á Ísland.is. Þar eru birtar og geymdar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Markmið með Stafrænu pósthólfi eru að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga, lögaðila og stofnana. Opinberum aðilum, þ.e. ríki, sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum er skylt að birta gögn í Stafræna pósthólfinu.

Kostir Stafræns pósthólfs eru ótvíræðir fyrir notendur. Allir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með íslenska kennitölu eiga sitt eigið pósthólf, ekki þarf að sækja um það sérstaklega. Þar eru öll gögn sem þú átt hjá stofnunum aðgengileg á einum stað. – allt í öruggri geymslu sem þú þarft ekki að leita að á mörgum stöðum.

Hvernig opnar fyrirtæki sitt stafræna pósthólf?

Prókúruhafar fyrirtækja opna pósthólfið með sínum persónulegu rafrænu skilríkjum og skipta yfir á fyrirtækið á Mínum síðum inni á www.island.is. Prókúruhafi getur veitt öðrum í fyrirtækinu aðgang að pósthólfinu. Skatturinn sér um skráningu á prókúruhöfum.

Hnipp

Hnipp er þjónusta sem sendendum stendur til boða til að láta viðtakendur vita með tölvupósti að nýtt skjal bíði þeirra í pósthólfi. Viðtakendur geta tekið afstöðu til hnipps í stillingum efst í hægra horni á mínum síðum/pósthólfi. Hnippt er með tölvupósti:

  • Ef sendandi óskar
  • Og viðtakandi hefur ekki afþakkað hnipp

Tegundir gagna

Í stafrænu pósthólfi birtast hvers konar gögn, jafnt í rituðu sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurðir, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar.

Opinberum aðilum er heimilt að birta í stafrænu pósthólfi bæði almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar einstaklinga eins og þær eru skilgreindar í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Réttaráhrif birtingar

Gagn í stafrænu pósthólfi telst birt þegar það er orðið aðgengilegt í stafrænu pósthólfi viðtakanda.

Sjá frekari upplýsingar og leiðbeiningar um notkun á Stafrænu pósthólfi á island.is