Hoppa yfir valmynd

Laus störf

Sérfræðingur í net- og upplýsingaöryggi 

Ert þú sérfræðingur á sviði net- og upplýsingaöryggis og hefur brennandi áhuga á að taka þátt í að tryggja öryggi mikilvægra innviða hér á landi? Þá býðst þér tækifæri til að nýta þekkingu þína og hæfni í framkvæmd eftirlits og tilstuðlan umbóta á þessu sviði.

Fjarskiptastofa leitar að sérfræðingi til að styrkja teymi sitt við framkvæmd eftirlits á fyrirbyggjandi netöryggisráðstöfunum og stjórnkerfi netöryggis, þar sem áhersla er lögð á áhættumiðaða nálgun og framþróun í takt við hraða þróun stafrænnar tækni. Ef þú vilt taka þátt í að tryggja öryggi samfélagsins og verða hluti af öflugu teymi sem hefur áhrif á framtíð netöryggis á Íslandi, þá er þetta starf fyrir þig.

Um er að ræða spennandi starf í öflugum og vaxandi málaflokki innan stofnunarinnar sem nær til netöryggis mikilvægra innviða hér á landi. Starfið heyrir undir sviðsstjóra.

Leitað er að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á net- og upplýsingaöryggismálum, býr yfir ríkum umbótavilja, sterkri áhættuvitund og samskiptahæfni til að taka þátt í að efla netöryggi mikilvægra innviða hér á landi.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Framkvæmd úttekta og prófana á sviði net- og upplýsingaöryggis mikilvægra innviða, sér í lagi fjarskiptafyrirtækja og stafrænna grunnvirkja.
  • Stjórnsýsluskoðanir á alvarlegum öryggisatvikum á sviði netöryggis og/eða netárása hjá fjarskiptafyrirtækjum og mikilvægum innviðum er heyra undir eftirlit stofnunarinnar.
  • Framkvæmd almennra og sértækra áhættumata á sviði fjarskipta- og netöryggis.
  • Þátttaka í innlendu og alþjóðlegu samstarfi á sviði net- og upplýsingaöryggis eftir því sem við á.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði.
  • Reynsla af framkvæmd úttekta, ráðgjafar eða innleiðingu gæðaskipulags á sviði net- og upplýsingaöryggis.
  • Vottun eða þekking á stöðlum á sviði stjórnskipulags upplýsingaöryggis, t.a.m. ISO 27001, er kostur.
  • Færni í að greina og meta upplýsingar er varða stafrænt öryggi.
  • Samstarfs- og samskiptahæfileikar, jákvæðni, framsækni og heilindi.
  • Góð íslensku- og enskukunnátta í ræðu og riti.

Umsóknarfrestur er til og með 22. apríl nk.

Um er að ræða 100% starf. Byrjunartími er samkomulagsatriði. Launakjör eru samkeppnishæf og byggja á kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra við viðkomandi stéttarfélag.

Við hvetjum þau sem eru áhugasöm  til að sækja um, óháð kyni og uppruna.

Sótt er um starfið á vef VInnvInn eða á Starfatorgi.

Umsókn skal fylgja ferilskrá og ítarlegt kynningarbréf á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og settur fram rökstuðningur um færni viðkomandi til að gegna starfinu.

Forsenda fyrir starfi hjá Fjarskiptastofu er að viðkomandi standist og viðhaldi öryggisvottun ríkislögreglustjóra.

Tekið skal fram að umsóknir geta gilt í sex mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019.

Umsjón með starfinu hefur Jensína Kristín Böðvarsdóttir (jensina@vinnvinn.is) og Garðar Óli Ágústsson (gardar@vinnvinn.is).

Frekari upplýsingar veitir Unnur Kristín Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri stafræns öryggis hjá Fjarskiptastofu (unnur@fjarskiptastofa.is)

Fjarskiptastofa gegnir mikilvægu hlutverki sem samhæfingarstjórnvald á sviði netöryggis hér á landi. Stofnunin hefur einnig eftirlit með netöryggi fjarskiptafyrirtækja, stafrænna grunnvirkja og veitenda stafrænnar þjónustu. Fjarskiptastofa er einnig virkur þátttakandi í þeim alþjóðlegu verkefnum sem tengjast þróun og framkvæmd netöryggis innan Evrópu.

Það er markmið stofnunarinnar að stuðla að öryggi almennings, fyrirtækja og samfélagsins alls á sviði fjarskipta og netöryggis og er fyrirséð að hlutverk Fjarskiptastofu muni áfram þróast í takt við hraða framþróun stafrænnar tækni og aukna áherslu á netöryggismál.

Á stofnuninni starfar öflugur hópur sérfræðinga á sviði netöryggis, fjarskiptatækni og traustþjónustu, sem vinna saman í skipulagðri teymisvinnu þar sem hver og einn hefur skilgreinda ábyrgð og tækifæri til að hafa áhrif á verkefnin sem unnið er að. Fjarskiptastofa er fjölskylduvænn og skemmtilegur vinnustaður þar sem mikil áhersla er lögð á vellíðan starfsfólks og góðan starfsanda.