- Fjarskiptastofa
- Um Fjarskiptastofu
- Laus störf
Laus störf
Sviðsstjóri innviðasviðs
Við leitum að öflugum og metnaðarfullum leiðtoga til að stýra innviðasviði Fjarskiptastofu – lykileiningu sem mótar tæknilega innviði samfélagsins.
Innviðasvið er eining innan Fjarskiptastofu (FST) sem hefur það hlutverk að stuðla að þróun fjarskiptainnviða, sjá um stjórnsýslu tíðnisviðsins, númeramál, hafa yfirsýn yfir fjarskiptainnviði, samræma aðgerðir við atvikum í fjarskiptakerfum. Starfsemin fer fram á grundvelli fjarskiptalaga, laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða (NIS-lög) og laga um Fjarskiptastofu.
Helstu verkefni og ábyrgð:
- Stuðla að uppbyggingu, virkni, nýsköpun og vöruframboði fjarskipta- og netkerfa.
- Stjórnsýsla tíðni- og númeramála.
- Stuðla að áfallaþoli fjarskipta.
- Að stuðla að því að markaðsaðilar fylgi reglum og stöðlum er lúta að öryggi og tæknilegri virkni á starfssviði FST.
- Skipulag samhæfingar fjarskiptafyrirtækja þegar áföll steðja að.
- Samskipti við markaðsaðila..
- Þátttaka í alþjóðlegu starfi.
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Háskólapróf í verkfræði eða af raungreinasviði. Framhaldsnám er kostur.
- Leiðtogahæfileikar og framúrskarandi samskiptahæfni.
- Reynsla af breytingastjórnun.
- Drifkraftur, frumkvæði, jákvæðni og metnaður til að ná árangri í starfi.
- Hæfni til að vinna í hópi og leiða samvinnu og breytingar þar sem sjónarmið tækni, lögfræði og hagfræði mynda saman lausn.
- Farsæl stjórnunarreynsla.
- Góð tungumálakunnátta, bæði í rituðu og mæltu máli á íslensku og ensku.
Viðkomandi þarf að hafa hreint sakavottorð og forsenda ráðningar er að viðkomandi standist öryggisvottun á grundvelli varnamálalaga.
Um er að ræða 100% starf. Byrjunartími er samkomulagsatriði. Launakjör eru samkeppnishæf og byggja á kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra við viðkomandi stéttarfélag.
Nánar um ferlið:
Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá (hámark 2 bls.) ásamt kynningarbréfi (hámark 1 bls.), á íslensku. Þar skal gera grein fyrir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við hæfniskröfurnar í auglýsingunni.
Umsóknir á erlendum tungumálum, án kynningarbréfa eða án ferilskráa verða ekki teknar til greina. Við ákvörðun um boðun í starfsviðtal verður sérstaklega horft til gæða umsóknargagna.
Gert er ráð fyrir að viðtöl fari fram í viku 33 og 34. Við ákvörðun um ráðningu verður, auk framangreindra hæfnisviðmiða, tekið mið af frammistöðu í starfsviðtali og umsagna sem aflað er.
Við hvetjum þau sem eru áhugasöm til að sækja um starfið, óháð kyni og uppruna.
Tekið skal fram að umsóknir geta gilt í sex mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019.
Umsóknarfrestur er til og með 11. ágúst n.k.
Sótt er um starfið á www.vinnvinn.is
Nánari upplýsingar um starfið veita Jensína Kristin Böðvardóttir (jensina@vinnvinn.is) og Auður Bjarnadóttir (audur@vinnvinn.is). Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni.
Fjarskiptastofa gegnir mikilvægu hlutverki sem samhæfingarstjórnvald á sviði netöryggis hér á landi. Stofnunin hefur einnig eftirlit með netöryggi fjarskiptafyrirtækja, stafrænna grunnvirkja og veitenda stafrænnar þjónustu. Fjarskiptastofa er einnig virkur þátttakandi í þeim alþjóðlegu verkefnum sem tengjast þróun og framkvæmd netöryggis innan Evrópu.
Hlutverk Fjarskiptastofu er að stuðla að hagkvæmri, öruggri og aðgengilegri fjarskiptaþjónustu og efla virka samkeppni á markaði.
Það er markmið stofnunarinnar að stuðla að öryggi almennings, fyrirtækja og samfélagsins alls á sviði fjarskipta og netöryggis og er fyrirséð að hlutverk Fjarskiptastofu muni áfram þróast í takt við hraða framþróun stafrænnar tækni og aukna áherslu á netöryggismál.
Fjarskiptastofa starfar í síbreytilegu alþjóðlegu umhverfi og hvílir starfsemin annars vegar á alþjóðlegri þróun í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi og hins vegar á lagagrundvelli EES svæðisins. Flestir starfsmenn FST taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.
Á stofnuninni starfar öflugur hópur sérfræðinga á sviði netöryggis, fjarskiptatækni og traustþjónustu, sem vinna saman í skipulagðri teymisvinnu þar sem hver og einn hefur skilgreinda ábyrgð og tækifæri til að hafa áhrif á verkefnin sem unnið er að. Fjarskiptastofa er fjölskylduvænn og skemmtilegur vinnustaður þar sem mikil áhersla er lögð á vellíðan starfsfólks og góðan starfsanda.