Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa kallar eftir aukasamráði um breytingar á drögum að ákvörðun varðandi heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að afriðlabúnaði

Fréttasafn
07. júlí 2022

Fjarskiptastofa kallar eftir aukasamráði um breytingar á drögum að ákvörðun varðandi heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að afriðlabúnaði

Frumdrög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að afriðlabúnaði fór í innanlandssamráð sem stóð frá 10. febrúar til 3. mars 2022. Engar athugasemdir bárust í samráðinu.

Í því samráði höfðu hagsmunaaðilar tækifæri til að tjá sig um aðferðafræði við greiningu og skiptingu á kostnaði í kostnaðarlíkani Mílu sem og uppbyggingu gjaldskrárinnar. Í óformlegu samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kom stofnunin hins vegar með ábendingar varðandi notkun áhættulausra raunvaxta við ákvörðun á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar (WACC) í ljósi þess að fjárfestingarstofninn í kostnaðarlíkaninu byggir á endurstofnverði. ESA taldi að taka ætti mið af væntri verðbólgu með því að nota vegið meðaltal fjármagnkostnaðar sem byggir á áhættulausum nafnvöxtum. Að mati Fjarskiptastofu er þessi breyting að nota áhættulausa nafnvexti í stað raunvexti í ávöxtunarkröfunni grundvallarbreyting á forsendum í kostnaðargreiningunni og því gefst nú hagsmunaaðilum tækifæri til að tjá sig um þá breytingu.

Þar sem hagsmunaaðilar hafa þegar haft tækifæri til að tjá sig um aðferðafræði kostnaðargreiningar Mílu og uppbyggingu á gjaldskrá takmarkast þetta samráð við þá breytingu að nota WACC sem byggir á áhættulausum nafnvöxtum í stað þess að það byggist á áhættulausum raunvöxtum.

Þá gerði ESA einnig athugasemd við það að kostnaðarlíkan Mílu byggði á kostnaðargrunni frá árinu 2019 en ekki síðastliðnu fjárhagsári. Því fór Fjarskiptastofa fram á að Míla myndi uppfæra kostnaðarlíkanið miðað við kostnað ársins 2021 og byggir fyrirhuguð niðurstaða Fjarskiptastofu á þeim gögnum.

Meðfylgjandi eru uppfærð drög að ákvörðun miðað við þessar forsendubreytingar. Fjarskiptastofa vísar sérstaklega í kafla 5.2. um vegið meðaltal fjármagnskostnaðar. Í viðauka I er lýsing á því hvernig vegið meðaltal fjármagnskostnaðar er ákvarðað.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir við þessa tilteknu breytingu á ákvörðunardrögum Fjarskiptastofu, sbr. 24. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar Fjarskiptastofa hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun Fjarskiptastofa senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 28. júlí nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)fjarskiptastofa.is).

Drög að ákvörðun

Viðauki - WACC 2021