Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa hefur ákvarðað heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum fyrir árið 2022

Fréttasafn
29. október 2021

Fjarskiptastofa hefur ákvarðað heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum fyrir árið 2022

Mynd með frétt

Fjarskiptastofa hefur birt ákvarðanir sínar nr. 6/2021 um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 1/2016) og nr. 7/2021 um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum (markaður 2/2016). Í ákvörðunum er kveðið á um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarksverða fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum á árinu 2022.

Samkvæmt niðurstöðu Fjarskiptastofu sem birtar eru í þessum ákvörðunum mun verðið fyrir lúkningu í fastanetum lækka um 17% en verðið fyrir lúkningu í farsímanetum lækkar um 27%.

Ákvörðun nr. 6/2021 - Heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum

Ákvörðun þessi byggir á ákvörðun PFS nr. 22/2016, dags. 23. desember 2016, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Kveðið er á um í hinni nýju ákvörðun að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum skuli vera að hámarki 0,10 kr./mín. fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Núverandi lúkningarverð, 0,12 kr. á mínútu, mun gilda áfram óbreytt til og með 31. desember 2021.

Ákvörðun nr. 7/2021 - Heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum

Ákvörðun þessi byggir á ákvörðun PFS nr. 20/2015, dags. 31. júlí 2015, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Kveðið er á um í hinni nýju ákvörðun að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum skuli vera að hámarki 0,74 kr./mín. fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Núverandi lúkningarverð, 1,01 kr. á mínútu, mun gilda áfram óbreytt til og með 31. desember 2021.

Á tímabilinu 10. ágúst til 31. ágúst sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á heildsöluverði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum. Engar athugasemdir bárust vegna hámarksverða fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Athugasemdir bárust hins vegar frá Sýn hf. vegna hámarksverða fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og er fjallað um athugasemdir Sýnar í kafla 2 í ákvörðun nr. 7/2021. Þá voru drög að ofangreindum ákvörðunum send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 29. september sl. Álit ESA barst stofnuninni 12. október sl. og gerði stofnunin ekki athugasemdir við ákvörðunardrög Fjarskiptastofu.
Álit ESA fylgir í viðauka við ofangreindar ákvarðanir.

Breytingar framundan við ákvörðun lúkningarverða

Fyrirhugaðar eru breytingar á því hvernig hámarksverð fyrir lúkningu símtala á Evrópska efnahagssvæðinu eru ákvörðuð. Evrópusambandið hefur þegar gefið út gerð sem ákvarðar lúkningarverð fyrir símtöl í Evrópusambandinu. Ákvæði gerðarinnar hafa ekki tekið gildi hér á landi en þar sem verðsamanburðurinn tekur mið af lúkningarverðum á EES-svæðinu hefur niðurstaða gerðarinnar áhrif á verðsamanburðinn sem Fjarskiptastofa hefur nú framkvæmt. Í frumvarpi til laga um fjarskipti sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi var gert ráð fyrir að ráðherra setti reglugerð um hámarksverð fyrir lúkningu símtala, það frumvarp náði hins vegar ekki fram að ganga. Þar til annað hefur verið ákveðið með lögum eða reglugerð hér á landi skulu lúkningarverð fjarskiptafyrirtækja vera í samræmi við ofangreindar ákvarðanir.