Hoppa yfir valmynd

FST kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang og miðlægan aðgang með fasttengingu

Fréttasafn
15. september 2023

FST kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang og miðlægan aðgang með fasttengingu

Fjarskiptastofa (FST) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur. Um er að ræða markaði 3a og 3b í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2016. Greiningunni og fyrirhugaðri ákvörðun um kvaðir er ætlað að leysa af hólmi greiningu og ákvörðun FST nr. 5/2021, dags. 19. október.

Frumdrög þau sem nú eru lögð fram til samráðs innihalda greiningu á viðkomandi þjónustumörkuðum, ítarlega landfræðilega greiningu á þeim, skiptingu landsins í landfræðilega markaði og útnefningu aðila með umtalsverðan markaðsstyrk ef það á við á viðkomandi landfræðilegum markaði. Drög að viðeigandi kvöðum sem lagðar verða á þau fyrirtæki sem hljóta slíka útnefningu verða lögð fram til samráðs innan fáeinna vikna.

Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu.

Samráðsskjalið eru aðgengilegt á PDF formi neðst í þessari frétt.

Frá því að síðasta ákvörðun var tekin hefur útbreiðsla annarra aðila en Mílu á ljósleiðurum til heimila og fyrirtækja haldið áfram að aukast og með því samkeppni um aðgang þjónustuaðila að slíkum netum. Með því hafa möguleikar þjónustuaðila um val á bitastraumsveitendum vaxið. Þá er þjónusta sem farnetsfyrirtæki veita um straumfædda farnetsbeina sem eru á föstum notkunarstað nú talin veita fastlínuþjónustu staðgöngu á bæði smásölumarkaði internetþjónustu og heildsölumarkaði miðlægs aðgangs með fasttengingu (3b).  Sömuleiðis rofnuðu bein eignatengsl Símans og Mílu eftir sölu Símans á Mílu til fjárfestingafélagsins Ardian.

Staða útbreiðslu innviða annarra en Mílu, s.s. Ljósleiðarans, Tengis, Snerpu og fjölda smærri neta, er þó mjög mismunandi, og eftir atvikum takmörkuð, eftir landshlutum. Því telur FST nauðsynlegt að leggja viðeigandi kvaðir á Mílu í þeim fjölmörgu sveitarfélögum þar sem félagið er enn með umtalsverðan markaðsstyrk.

Í markaðsgreiningu FST er rökstutt að greina megi einkenni lóðréttrar samþættingar milli Mílu og Símans sökum umfangsmikils langtímasamnings sem fylgdi sölu Símans á Mílu til Ardian. Með þeim samningi skuldbindur Síminn sig til að leigja af Mílu verulegan hluta þessara innviða sem Síminn byggir þjónustu sína á sem takmarkar um leið leigu Símans á innviðum frá samkeppnisaðilum Mílu. Getur það skert möguleika samkeppnisaðila Mílu til að ná fótfestu á markaði og styrkir stöðu Mílu í samkeppninni á tilteknum svæðum.

Markaður 3a, heildsölumarkaður fyrir staðaraðgang með fasttengingu

Samkvæmt skilgreiningu á þessum markaði samanstendur hann af aðgangsnetum (heimtaugum) á fastlínu, bæði kopar og ljósleiðara, og tengdri aðstöðu, ásamt sýndarlausnum sem uppfylla sömu þarfir og heimtaugaleiga (VULA). Með ákvörðun FST nr. 5/2021 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

FST framkvæmdi ítarlega landfræðilega greiningu á umræddum markaði í öllum 64 sveitarfélögum landsins og komst að þeirri niðurstöðu aflétta bæri kvöðum í 28 sveitarfélögum því þar væri komin á virk samkeppni á viðkomandi markaði eða stefni í virka samkeppni á líftíma greiningarinnar. FST útnefnir Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í 28 sveitarfélögum, Tengi í 7 sveitarfélögum og Ljósleiðarann í 1 sveitarfélagi.

Mynd 1 - Fyrirhuguð kvaðasett og ókvaðasett svæði á markaði 3a 

Markaður 3b, heildsölumarkaður fyrir miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur

Markaður þessi samanstendur af ýmsum bitastraumslausnum sem veita tengingu milli endanotanda og aðgangspunkts sem er miðlægur í fjarskiptaneti og notaðar eru til að veita hefðbundinn internetaðgang ásamt tengdri þjónustu. Með ákvörðun FST nr. 5/2021 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

FST framkvæmdi ítarlega landfræðilega greiningu á umræddum markaði í öllum 64 sveitarfélögum landsins og komst að þeirri niðurstöðu aflétta bæri kvöðum í 30 sveitarfélögum því þar væri komin á virk samkeppni á viðkomandi markaði eða stefni í virka samkeppni á líftíma greiningarinnar. FST útnefnir Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í 33 sveitarfélögum og Ljósleiðarann í 1 sveitarfélagi.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um drög að markaðsgreiningu sem hér eru lögð fram er til og með mánudagsins 16. október nk.  

Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal til þeirra liða sem um ræðir.

Mynd 2 - Fyrirhuguð kvaðasett og ókvaðasett svæði á markaði 3b 


Beinir FST því sérstaklega til hagsmunaaðila að fara skal eftir leiðbeinandi tilmælum um umsagnir við markaðsgreiningar.
Sjá leiðbeinandi tilmæli um umsagnir hagaðila í tengslum við markaðsgreiningar.

Nánari upplýsingar veitir Guðmann Bragi Birgisson, netfang: gudmann@fjarskiptastofa.is 

FST mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal: Frumdrög til samráðs