Hoppa yfir valmynd

Frétt

Fréttasafn

Frétt

10. nóvember 2003

Landssíma Íslands gert að veita Og Fjarskiptum reiki

Póst og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að Landssími Íslands haldi áfram að veita Og fjarskiptum (Og Vodafone) aðgang að farsímastöðvum sínum á landsbyggðinni með svokölluðu reiki.

Þetta þýðir að viðskiptavinir Og fjarskipta geta áfram nýtt sér GSM þjónustu á þeim svæðum sem Og Fjarskipti hefur ekki enn byggt upp eigið farsímanet. Jafnframt bætast við nokkrir nýir staðir eins og Grímsey, Blöndusvæðið og Kárahnjúkasvæðið.

Einnig skal Landssími Íslands hf. veita GPRS reiki, en með GPRS þjónustu geta GSM notendur m.a. flutt aukið gagnamagn um farsíma.

Stofnunin vísaði frá kröfu Og fjarskipta um að ákvarða verð fyrir reikiþjónustu.

Farsímafélögin vísuðu fyrr á árinu ágreiningi sínum vegna reikiþjónustu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Ágreiningur félaganna var um reikisvæði, þ.e. hvar GSM notendur Og fjarskipta geta notað dreifikerfi Landssíma Íslands en einnig um ýmis önnur mál tengd reiki eins og möguleika á notkun GPRS þjónustu.

Áframhaldandi reikisamningur á milli félaganna kemur íslenskum farsímanotendum til góða, þar sem þeir munu áfram geta valið milli farsímafyrirtækjanna á þessum svæðum sem stuðlar þannig að aukinni samkeppni.