Hoppa yfir valmynd

Frétt

Fréttasafn

Frétt

05. júní 2000

Halló Frjáls Fjarskipti hf og Íslandssími fá leyfi til að reka farsímanet

Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag veitt tvö ný leyfi fyrir rekstur farsímaneta og þjónustu í DCS 1800 tíðnisviðinu. Leyfin eru veitt fyrirtækjunum Halló Frjáls Fjarskipti hf. og Íslandssíma GSM hf.
Vegna umsóknar Íslandssíma um úthlutun á farsímaleyfi ákvað Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við 10. gr. laga um fjarskipti að auglýsa eftir umsóknum um leyfi í 1800 Megaherz tíðnisviðinu. Fimm umsóknir bárust en ein þeirra var seinna dregin tilbaka. Umsækjendur voru auk Frjálsra Fjarskipta og Íslandssíma fyrirtækin Lína.net og International Mobile Communications Inc. (IMC) í Maryland, Bandaríkjunum. Landssími Íslands hf. og Tal hf. hafa áður fengið leyfi fyrir DCS 1800 farsímaþjónustu.
Eins og fyrr segir eru nú veitt tvö leyfi en umsóknir Línu.nets og IMC eru enn í vinnslu. Íslandssíma GSM hf. eru úthlutuð 15 Megaherz en Frjálsum fjarskiptum 7,4 Megaherz. Mælikvarði Póst- og fjarskiptastofnunar við úthlutun tíðnisviðs er stærð þjónustusvæðisins sem umsækjendur ætla að þjóna og fjöldi íbúa á viðkomandi svæðum. Íbúar á svæðum sem Íslandssími GSM ætlar að þjóna eru um 275 þús. en 220 þús. á svæðum sem Frjáls Fjarskipti ráðgerir að þjóna. Frjáls Fjarskipti gerir hins vegar ráð fyrir minni notendafjölda en Íslandssími GSM.
Póst- og fjarskiptastofnun ráðgerir að afgreiða hinar tvær umsóknirnar á næstu vikum. Leyfishafar munu greiða leyfisgjöld og að auki kostnað við úthlutunina skv. 11. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Búist er við að kostnaður við úthlutunina nemi á aðra milljón króna og verður honum skipt milli þeirra sem leyfin hljóta.
5. juní 2000