Hoppa yfir valmynd

Halló Frjáls Fjarskipti hf og Íslandssími fá leyfi til að reka farsímanet

Fréttasafn
05. júní 2000

Halló Frjáls Fjarskipti hf og Íslandssími fá leyfi til að reka farsímanet

Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag veitt tvö ný leyfi fyrir rekstur farsímaneta og þjónustu í DCS 1800 tíðnisviðinu. Leyfin eru veitt fyrirtækjunum Halló Frjáls Fjarskipti hf. og Íslandssíma GSM hf.
Vegna umsóknar Íslandssíma um úthlutun á farsímaleyfi ákvað Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við 10. gr. laga um fjarskipti að auglýsa eftir umsóknum um leyfi í 1800 Megaherz tíðnisviðinu. Fimm umsóknir bárust en ein þeirra var seinna dregin tilbaka. Umsækjendur voru auk Frjálsra Fjarskipta og Íslandssíma fyrirtækin Lína.net og International Mobile Communications Inc. (IMC) í Maryland, Bandaríkjunum. Landssími Íslands hf. og Tal hf. hafa áður fengið leyfi fyrir DCS 1800 farsímaþjónustu.
Eins og fyrr segir eru nú veitt tvö leyfi en umsóknir Línu.nets og IMC eru enn í vinnslu. Íslandssíma GSM hf. eru úthlutuð 15 Megaherz en Frjálsum fjarskiptum 7,4 Megaherz. Mælikvarði Póst- og fjarskiptastofnunar við úthlutun tíðnisviðs er stærð þjónustusvæðisins sem umsækjendur ætla að þjóna og fjöldi íbúa á viðkomandi svæðum. Íbúar á svæðum sem Íslandssími GSM ætlar að þjóna eru um 275 þús. en 220 þús. á svæðum sem Frjáls Fjarskipti ráðgerir að þjóna. Frjáls Fjarskipti gerir hins vegar ráð fyrir minni notendafjölda en Íslandssími GSM.
Póst- og fjarskiptastofnun ráðgerir að afgreiða hinar tvær umsóknirnar á næstu vikum. Leyfishafar munu greiða leyfisgjöld og að auki kostnað við úthlutunina skv. 11. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Búist er við að kostnaður við úthlutunina nemi á aðra milljón króna og verður honum skipt milli þeirra sem leyfin hljóta.
5. juní 2000