Hoppa yfir valmynd

Leiðbeiningar Fjarskiptastofu vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga

Fréttasafn
07. september 2021

Leiðbeiningar Fjarskiptastofu vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga

Mynd með frétt

Í aðdraganda fyrirhugaðra þingkosninga sem fara fram 25. september nk. telur Fjarskiptastofa (FST) rétt að minna á það að stjórnmálasamtökum eða einstaka framboðum ber að fara að ákvæðum laga um fjarskipta sem setja skorður við óumbeðnum fjarskiptum í formi beinnar markaðssetningar. Stofnunin vill því koma á framfæri helstu reglum sem gilda um  óumbeðin fjarskipti og hvernig slíkum kvörtunarmálum er jafnan háttað hjá stofnuninni.  

Fyrst ber að nefna að í 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 (fjarskiptalög) er að finna ákvæði sem ætlað er að vernda notendur fyrir svokölluðum óumbeðnum fjarskiptasendingum í markaðslegum tilgangi. Ákvæðið skiptist í fimm málsgreinar og eiga fyrstu fjórar málsgreinarnar einkum við þegar um er að ræða svokölluð sjálfvirk uppkallskerfi, símbréf, tölvupóst og hvers konar rafræn skilaboð, líkt og SMS og MMS skilaboð. Fimmta málsgreinin varðar síðan bannmerkingu áskrifenda í símaskrá og rétt þeirra til að fá að vita hvaðan upplýsingarnar koma sem liggja úthringingu til grundvallar. 

Meginregla ákvæðisins er sú að óheimilt er að senda tölvupóstsendingar eða önnur óumbeðin fjarskipti í markaðslegum tilgangi nema viðtakandi hafi gefið fyrirfram samþykki sitt fyrir að móttaka slíkar sendingar. Það er aftur á móti óundanþæg skylda þeirra sem stunda beina markaðssetningu að virða bannmerkingu í símaskrá. Bannmerkingu í símaskrá þarf að skrá sérstaklega hjá fjarskiptafyrirtækjunum eða hjá þeim aðila sem að veitir símaskrárupplýsingar (t.a.m. ja.is eða 1819.is). Þar með er aðilum sem stunda beina markaðssetningu óleyfilegt að ónáða viðkomandi áskrifanda. 

Bannmerking í símaskrá gildir einungis um símtöl. Því skal þess getið að hjá Þjóðskrá Íslands geta einstaklingar undanþegið sig því að vera á úrtakslistum úr þjóðskrá vegna markaðsstarfsemi með því að óska eftir að vera skráð á svokallaða bannskrá í þjóðskrá. Með markaðssetningarstarfsemi er t.d. átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts en nánari skilgreiningu er að finna í reglum nr. 36/2005 um skráningu einstaklinga. Rannsóknir sem falla undir vísindarannsóknir eru undanskildar.  

Þegar einstaklingar eru skráðir á bannskrá hjá Þjóðskrá færist sú skráning ekki sjálfkrafa yfir á úrtakslista sem þegar eru í notkun hjá öðrum og veitt hefur verið heimild til að nota í markaðssetningarskyni. Þess vegna er mikilvægt að þeir aðilar sem nota slíka lista til markaðssetningar uppfæri þá reglulega til að koma í veg fyrir að haft sé samband við aðila sem eru bannmerktir, hvort heldur sem er í símaskrá eða bannskrá. 

Fjarskiptastofa hefur gefið út leiðbeiningar varðandi óumbeðin fjarskipti og beina markaðssetningu. (Uppfærðar 2023)
Má einnig benda á nokkrar ákvarðanir sem eru leiðbeinandi um slík samskipti stjórnmálaflokka eða einstaka framboða við kjósendur en þær eru:

9/2018 - Óumbeðin fjarskipti Sjálfstæðisflokksins - 12. júní 2018
29/2017 - Kvörtunarmál vegna óumbeðinna fjarskipta af hálfu Flokks fólksins - 29. desember 2017
28/2017 - Kvörtunarmál vegna óumbeðinna fjarskipta af hálfu Miðflokksins - 29. desember 2017
13/2015 - um óumbeðin fjarskipti Sjálfstæðisflokksins - 25. júní 2015

Hvað varðar málsmeðferð kvartana af þessu tagi þá er um hana fjallað  í 22. gr. reglna nr. 710/2020 um málsmeðferð stjórnsýslumála hjá stofnuninni. Þar kemur fram að afskipti Fjarskiptastofu af svona málum felast almennt í því að fræða viðkomandi aðila sem stendur fyrir fjarskiptunum um þær reglur sem gilda um slík fjarskipti. Ef aðilinn sem kvartað er undan gengst við fjarskiptunum og ekki er uppi ágreiningur um að þau hafi verið óumbeðin þá lýkur málinu yfirleitt þar með. Aftur á móti ef um er að ræða ítrekuð brot eða Fjarskiptastofu berst mikill fjöldi kvartana gegn sama aðila og/eða af svörum hans má ráða að ágreiningur sé um hvort samskiptin hafi verið óumbeðin þá tekur stofnunin kvartanirnar til efnislegrar úrlausnar. Ef að brotið er gegn ákvæðum 46. gr. fjarskiptalaga þá gilda tiltekin ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, um málsmeðferð og heimildir stofnunarinnar. Því getur Fjarskiptastofa mögulega lagt sektir á aðila vegna óumbeðinna fjarskipta ef brot eru mikil eða ítrekuð.