Hoppa yfir valmynd

FST leggur kvaðir á Mílu á heimtauga- og bitastraumsmörkuðum til bráðabirgða

Fréttasafn
15. september 2023

FST leggur kvaðir á Mílu á heimtauga- og bitastraumsmörkuðum til bráðabirgða

Í dag birti Fjarskiptastofa (FST) drög að markaðsgreiningu á heimtauga- og bitastraumsmörkuðum og er hagaðilum gefinn kostur á því að veita umsögn um drögin. Í drögunum er að finna umfangsmikla landfræðilega greiningu á samkeppnisaðstæðum á viðkomandi mörkuðum sem tekur til landsins alls og er brotin niður eftir sveitarfélögum. Á grundvelli frumniðurstöðu þessarar markaðsgreiningar þykir FST rétt að fella niður kvaðir á Mílu hf. á umræddum mörkuðum í þeim sveitarfélögum sem búa við virka samkeppni að mati stofnunarinnar. Aflétting kvaðanna kemur til framkvæmdar á því tímamarki sem FST kveður á um í ákvörðun sinni um endanlega niðurstöðu markaðsgreiningarinnar.

Hins vegar telur FST nauðsynlegt að viðhalda kvöðum á Mílu hf. að öðru leyti og til bráðabirgða þar til lokaákvörðun um markaðsgreiningu liggur fyrir. Um er að ræða sömu kvaðir og lagðar voru á Mílu hf. með ákvörðun  úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frá 29. desember 2021, en í ákvörðuninni var kvöðunum markaður gildistími til dagsins í dag, 15. september 2023. Tilgangur bráðabirgðaákvörðunarinnar er að eyða óvissu um það réttarástand sem ríkja mun á heimtauga- og bitastraumsmörkuðum nú þegar úrskurður úrskurðarnefndar er að renna sitt skeið.

Bráðabirgðaákvörðun FST nr. 9/2023