Hoppa yfir valmynd

Stofnaður hefur verið samráðshópur um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga

Fréttasafn
02. júlí 2021

Stofnaður hefur verið samráðshópur um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga

Mynd með frétt


Vegna fyrirhugaðra kosninga til Alþingis þann 25. september 2021 hafa Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa og netöryggissveitin (CERT-IS), landskjörstjórn og Persónuvernd, stofnað samráðshóp um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga. Meginmarkmið samráðshópsins er að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fái viðeigandi upplýsingar um atriði sem geri þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið er, ef metið er að uppi séu aðstæður sem viðeigandi stjórnvöld þurfi að bregðast við. Hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi. 

Tillögu að stofnun samráðshópsins má rekja til bréfs Persónuverndar, dags. 18. janúar 2019, til forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, þar sem óskað var eftir stofnun samráðsvettvangs um vernd einstaklinga í tengslum við kosningar. Bréf Persónuverndar var sent í kjölfar s.k. Cambridge Analytica máls þar sem í ljós kom að fyrirtæki og stjórnmálasamtök höfðu reynt að hafa áhrif á stjórnmálaafstöðu einstaklinga undir annarlegum formerkjum, m.a. með því að nota persónusnið á ógagnsæjan og nærgöngulan hátt. 
Í kjölfar bréfsins fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við Netöryggisráð að fjallað yrði um erindið á vettvangi ráðsins og unnið að þeim ráðstöfunum sem líklegastar væru til árangurs í því augnamiði að tryggja örugga framkvæmd kosninga að þessu leyti. 

Af hálfu Netöryggisráðs var ákveðið að stofnaður skyldi undirhópur sem samanstæði af fulltrúum helstu stjórnvalda sem hefðu aðkomu að kosningum. Þá var einnig ákveðið að bjóða stjórnvöldum, sem standa utan Netöryggisráðs, aðkomu að hópnum. 

Fulltrúar í samráðshópi stjórnvalda um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga 
Eins og fyrr greinir eru þau stjórnvöld sem eiga fulltrúa í samráðshópnum Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa og netöryggissveitin, landskjörstjórn og Persónuvernd.
Við sérstakar aðstæður er rétt að samráðshópurinn veki athygli viðeigandi ráðuneyta eða stjórnvalda á þeim eftir því sem við á og eftir atvikum ritara þjóðaröryggisráðs. 

Hlutverk 
Hlutverk samráðshópsins er að auðvelda upplýsingaskipti milli viðeigandi stjórnvalda í aðdraganda kosninga. Hópnum er ekki ætlað að taka ákvarðanir. 
Upplýsingaskipti er lúta að nafngreindum einstaklingum eða fyrirtækjum eru óheimil, nema slíkt sé heimilt lögum samkvæmt. 
Þeir fulltrúar stjórnvalda sem sæti eiga í samráðshópnum eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. 

Markmið 
Tækniþróun síðustu ára hefur skapað aðstæður sem geta leitt af sér nýjar ógnir við lýðræði sem aftur geta leitt af sér að reynt verði að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöður kosninga í lýðræðisríkjum. Samtal þeirra aðila sem hér eru undir er talið henta best til að geta komið í veg fyrir að slíkar ógnir raungerist. 
Meginmarkmið samráðshópsins er því að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fái viðeigandi upplýsingar um atriði sem geri þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið er. Hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi.