Hoppa yfir valmynd

Landssíminn með verulega markaðshlutdeild

Fréttasafn
30. júlí 1998

Landssíminn með verulega markaðshlutdeild

 30.07.1998 Í samræmi við fjarskiptalög og lög um Póst- og fjarskiptastofnun hefur Póst- og fjarskiptastofnun gefið út í dag rekstrarleyfi til Landssíma Íslands hf.

Í leyfinu er skilgreint hvaða fjarskiptaþjónustu og hvaða fjarskiptanet Landssímanum sé heimilt að starfrækja. Samkvæmt leyfinu er Landssíminn skilgreindur sem rekstrarleyfishafi sem hefur verulega markaðshlutdeild en í því felst, samkvæmt skilgreiningu ESB, að leyfishafi hefur a.m.k. 25% af fjarskiptamarkaðinum á tilteknu landssvæði. Rekstrarleyfishafi sem er skilgreindur með fyrrgreindum hætti verður að lúta strangari skilyrðum að ýmsu leyti en aðrir leyfishafar.

Eitt af þeim meginverkefnum sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið er að huga að eru samkeppnismál á fjarskiptamarkaðinum. Í samræmi við það og til að stuðla að því að virk samkeppni geti orðið á fjarskiptamarkaðinum hefur stofnunin sett skilyrði í leyfið sem auðvelda á nýjum aðilum að starfa á fjarskiptamarkaðinum. Skilyrðin eru í samræmi við það sem gildir á hinu Evrópska efnahagssvæði og fjalla m.a. um samtengingu neta og aðgang að þeim.

Þá er Landssímanum gert að annast alþjónustu og jafngildir það kröfu um að veita öllum landsmönnum talsímaþjónustu á viðráðanlegum kjörum.