Hoppa yfir valmynd

Analysys veitir ráðgjöf vegna kostnaðarútreikninga á heildsöluverði

Fréttasafn
23. apríl 2003

Analysys veitir ráðgjöf vegna kostnaðarútreikninga á heildsöluverði

Ráðgjafarfyrirtækið Analysys hefur verið ráðið til að annast ráðgjöf vegna kostnaðarútreikninga heildsöluverðs fjarskiptafyrirtækja á Íslandi.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert samning við ráðgjafarfyrirtækið Analysys um ráðgjöf vegna skipulagningar kostnaðarútreikninga á heildsöluverði fjarskiptafyrirtækja.

Markmið kostnaðargreiningarinnar er að leiða í ljós raunverulegan kostnað við að veita tiltekna grunnþjónustu. Markaðsráðandi fyrirtæki, í dag Landssíma Íslands, er skylt að selja keppinautum sínum téða þjónustu á kostnaðarverði auk hæfilegrar álagningar. Fram til þessa hefur kostnaðargreining hérlendis verið nánast eingöngu byggð á sögulegum kostnaði úr bókhaldi Landssíma Íslands og krafa um hagræðingu í rekstri fjarskiptafyrirtækja ekki verið ráðandi þáttur í vali á aðferðarfræði við kostnaðarútreikninginn. Þrátt fyrir þetta hefur heildsöluverð á Íslandi verið með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Þróunin í nágrannalöndunum er sú að rík áhersla er lögð á hagræðingu í rekstri fjarskiptafyrirtækjanna í útfærslu kostnaðargreiningar með notkun þróaðra kostnaðarlíkana. Notkun slíkra kostnaðarlíkana hefur víða leitt til lækkunar á fjarskiptaþjónustu til neytenda.

Ráðgert er að kostnaðargreina heildsöluverðverð fyrir eftirfarandi þjónustu:
Lúkningu símtala í fastanetum
Leigu heimtaugar
Leigulínur
Lúkningu símtala í farsímanetum (GSM) 
 
Heildsöluverð er síðan notað í viðskiptum við keppinauta eða sem grunneining í þjónustupakka sem fjarskiptafyrirtækin setja saman og  bjóða viðskiptavinum sínum í smásölu.

Ráðgjafarfyrirtækið Analysys (www.analysys.com) er leiðandi á sviði ráðgjafar í fjarskiptageiranum. Fyrirtækið hefur langa reynslu af gerð og útfærslu kostnaðarlíkana vegna heildsöluþjónustu fjarskiptafyrirtækja.