Réttur Ljósleiðarans til aðgangs að landi í Þykkvabæ staðfestur
Réttur Ljósleiðarans til aðgangs að landi í Þykkvabæ staðfestur
Ljósleiðarinn ehf. stendur nú að framkvæmdum við að leggja ljósleiðarastreng frá Þorlákshöfn að Landeyjasandi. Fyrirhuguð lega strengsins liggur m.a. um jarðir í Þykkvabænum. Framkvæmdin hefur mætt andstöðu nokkurra landeigenda á svæðinu sem eru ósáttir með samráðsleysi Ljósleiðarans við þá um framkvæmdina, val fyrirtækisins á lagnaleið og töldu þeir í einhverjum tilvikum að bætur eða leiga þyrfti að koma fyrir afnotarétt Ljósleiðarans ehf. af landi þeirra.
Í júlí á síðasta ári barst Fjarskiptastofu (FST) erindi frá Ljósleiðaranum ehf. þar sem krafist var viðurkenningar á rétti félagsins til aðgangs að því landi og þeim jörðum í Rangárþingi ytra sem þyrfti til þess að leggja ljósleiðarastrenginn í samræmi við fyrirhugaða lagnaleið samkvæmt lagaheimild í 69. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.
Með ákvörðun FST nr. 8/2022 frá 22. september 2022 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir tiltekna hnökra á framkvæmd samráðs af hálfu Ljósleiðarans ehf. við landeigendur að þá uppfyllti það kröfur laga um samráð fjarskiptafyrirtækja við landeigendur um val á lagnaleið. Að þessu skilyrði uppfylltu var það niðurstaða FST að Ljósleiðarinn ehf. ætti bótalaust rétt til aðgangs að jörðum í Þykkvabænum til lagningar á ljósleiðarastreng samkvæmt hnitsettri lagnaleið sem tilgreind var í viðauka við ákvörðunina.
Niðurstaða FST samkvæmt ákvörðun nr. 8/2022 var kærð til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála (ÚFP) með bréfi eins landeigenda, dags. 18. október 2022, en jafnframt fyrir hönd tiltekins hóps landeigenda. Fallist var á kröfu landeigenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. úrskurð í kærumáli nr. 5/2022 frá 25. nóvember 2022. Í efnislegri niðurstöðu kærumálsins þann 20. desember s.l. tók ÚFP undir með FST að þótt að hnökrar hefðu verið á framkvæmd samráðs Ljósleiðarans ehf. við landeigendur að þá uppfyllti það skilyrði laga. Niðurstaða FST var síðan efnislega staðfest en þó á aðeins breyttum forsendum. Annars vegar taldi ÚFP að kveða hefði átt á um aðgangsréttinn á grundvelli 34. gr. nýrra laga um fjarskipti nr. 70/2022 í stað 69. gr. eldri fjarskiptalaga laga nr. 81/2003 sem voru í gildi þegar ágreiningur Ljósleiðarans ehf. og landeigenda kom upp og þegar kvörtunin barst og var tekin til meðfarðar af hálfu Fjarskiptastofu. Inntak ákvæði eldri og nýrra laga er þó efnislega hið sama. Hins vegar taldi ÚFP að FST væri ekki bært stjórnvald til að taka afstöðu til mögulegra bóta og fjárhæð þeirra. Slíkt væri í höndum matsnefndar eignarnámsbóta. Voru ákvörðunarorð hinnar kærðu ákvörðunar breytt til samræmis við þessar forsendur.
Úrskurður nr. 5 2022 - Kæra á ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 8/2022, aðgangur að landi í Þykkvabæ.