Frétt
Nýjar reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu
Fjarskiptastofa hefur gefið út reglur nr. 1244/2022 um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu. Stofnunin birti til samráðs drög að reglunum þann 6. okt. sl. á vefsíðu sinni. Þar var hagaðilum gefinn kostur á því að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum við regludrögin en engar athugasemdir bárust.
Reglurnar taka til fjarskiptaþjónustu sem boðin er almenningi og eru settar með stoð í 70. grein laga um fjarskipti, nr. 70/2022 sem tóku nýverið gildi. Með lögunum er Fjarskiptastofu veitt heimild til að framkvæma verðsamanburð eða að fela óháðum aðila að útbúa slíkan samanburð.
Markmið reglnanna er að auka gagnsæi á verði fjarskiptaþjónustu til neytenda og mynda ramma um opinbera birtingu verðsamanburðar, þar sem heildstæð samantekt á verðskrám er birt. Reglurnar eiga að vera til hagsbóta fyrir neytendur og þeim er ætlað að stuðla að bættri neytendavernd og aukinni verðvitund almennings.
Hér má finna reglurnar á vef Stjórnartíðinda.