Framlenging á alþjónustukvöð Mílu afturkölluð
Framlenging á alþjónustukvöð Mílu afturkölluð
Með ákvörðun Fjarskiptastofu (áður Póst- og fjarskiptastofnun) nr. 31/2017 var lögð á Mílu ehf. alþjónustukvöð um að útvega heimilum og vinnustöðum landsins tengingu við hið almenna fjarskiptanet. Gildistími kvaðarinnar var ákveðinn til 31. desember 2020, með áskilnaði um heimild stofnunarinnar að geta framlengt gildistíma kvaðarinnar um tvö ár eða til 31. desember 2022 með tilkynningu til Mílu ehf. þar að lútandi.
Tilgangurinn með að skilyrða gildistíma kvaðarinnar með þessum hætti var fyrst og fremst hugsaður til að gæta meðalhófs gagnvart Mílu ehf., þ.e. að um miðbik gildistíma kvaðarinnar myndi stofnunin meta hvort að þörf væri á því að viðhalda kvöðinni gagnvart félaginu eða ekki. Þegar umrædd ákvörðun var tekin um útnefningu Mílu ehf. sem alþjónustuveitanda kærði félagið hana ekki, hvorki þennan lið ákvörðunarinnar um gildistíma kvaðarinnar, né aðra þætti hennar. Þetta verklag um að tvískipta gildistíma kvaðarinnar hafði reyndar viðgengist í stjórnsýsluframkvæmd innan alþjónustu um margra ára bil athugasemdalaust af hálfu Mílu ehf.
Í samræmi við áskilnað í fyrrnefndri ákvörðun var Mílu ehf. tilkynnt með bréfi Fjarskiptastofu þann 31. ágúst 2020 að það væri mat stofnunarinnar að þörf væri á því að framlengja gildistímann á alþjónustukvöðinni um þessi tvö viðbótarár eða til 31. desember 2022. Þá brá svo við að Míla ehf. kærði þessa ráðstöfun á þeim grundvelli að um væri að ræða nýja og sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun sem ekki hafi lotið reglum málsmeðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum, m.a. um andmælarétt.
Kæruferlið hófst fyrst fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sem vísaði kærunni frá. Síðan fór málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur sem féllst ekki á sjónarmið og kröfugerð Mílu ehf. Í síðustu viku féll hins vegar dómur Landsréttar í málinu þar sem dómi héraðsdóms var snúið við. Var það niðurstaða Landsréttar að fyrrnefnd tilkynning Fjarskiptastofu um framlengdan gildistíma alþjónustukvaðarinnar hefði verið ný og sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun, en ekki hluti af framkvæmd eldri ákvörðunar. Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er umrædd ákvörðun Fjarskiptastofu því ógildanleg í skilningi stjórnsýsluréttar.
Síðast liðið sumar efndi Fjarskiptastofa til almenns og opins samráðs við hagsmunaaðila um hvort þörf væri á því að endurnýja fyrrnefnda alþjónustukvöð Mílu ehf. og um stöðu alþjónustu almennt. Niðurstaða samráðsins var á þann veg að ekki væri þörf á að endurnýja alþjónustukvöð Mílu ehf. við lok gildistímans um næstu áramót, m.a. vegna mikillar almennrar útbreiðslu á fjarskiptaþjónustu sem þjónaði þörfum alþjónustu og sérstakra ráðstafana sem væru fyrir hendi til að tryggja fjarskiptasamband heimila og vinnustaða í sérstökum undantekningartilvikum. Því var Mílu ehf. tilkynnt með bréfi, dags. 18. ágúst 2022, að Fjarskiptastofa hefði ákveðið að endurnýja ekki alþjónustukvöð Mílu ehf. nú um áramótin.
Þótt skammt sé í það að alþjónustukvöð Mílu ehf. renni sitt skeið þykir Fjarskiptastofu engu að síður rétt, í ljósi niðurstöðu dóms Landsréttar, að eiga frumkvæði að því að afturkalla framlengingu á kvöðinni, sem stofnunin tilkynnti félaginu um með bréfi þann 31. ágúst 2020. Hefur Fjarskiptastofa þegar sent Mílu ehf. bréf þessa efnis.