Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa áformar að aflétta kvöðum af Mílu á svæðum þar sem um 80% landsmanna búa

Fréttasafn
15. september 2023

Fjarskiptastofa áformar að aflétta kvöðum af Mílu á svæðum þar sem um 80% landsmanna búa

Kemur þetta fram í drögum að ákvörðun sem Fjarskiptastofa birtir til samráðs í dag. Við greiningu á markaðsaðstæðum í öllum 64 sveitarfélögum landsins telur Fjarskiptastofa virka samkeppni ríkja í mörgum sveitarfélögum um aðgang að undirliggjandi innviðum, heimtaugum og gagnaflutningskerfum, sem internet- og sjónvarpsþjónusta til heimila og almennra fyrirtækja byggir á. Fjarskiptastofa hyggst því m.a. létta kvöðum af þeim gagnaflutningskerfum Mílu í 31 sveitarfélagi þar sem um 80% landsmanna býr.

Þeir innviðir sem hér um ræðir, og kvaðir hafa hvílt á, eru heimtaugar úr ljósleiðara eða koparlínum sem liggja frá tengipunktum inn til heimila og fyrirtækja og þau gagnaflutningskerfi Mílu sem tengd eru við heimtaugarnar, sem eru fyrst og fremst Ljósnet Mílu (VDSL) á koparlínum og GPON þjónusta á ljósleiðara.

Útbreiðsla heimtauga og gagnaflutningskerfa í eigu annarra aðila en Mílu hefur aukist mjög á síðustu árum. Með því hefur samkeppni um viðskipti þjónustufyrirtækja vaxið. Þá rofnuðu bein eignatengsl Símans og Mílu eftir sölu Símans á Mílu til fjárfestingafélagsins Ardian. Með því breyttust hagsmunir Mílu þar sem fyrirtækið hefur nú ekki lengur sama hag af því að gæta stöðu fyrrum eiganda síns, Símans, við hagnýtingu innviða Mílu í samkeppni Símans við aðra smásöluaðila. 

Staða útbreiðslu innviða annarra en Mílu, s.s. Ljósleiðarans, Tengis, Snerpu og fjölda smærri sveitaneta, er þó mjög mismunandi, og eftir atvikum takmörkuð, eftir landshlutum. Því telur Fjarskiptastofa nauðsynlegt að leggja viðeigandi kvaðir á Mílu í þeim fjölmörgu sveitarfélögum þar sem félagið er með umtalsverðan markaðsstyrk.

Í markaðsgreiningu Fjarskiptastofu er rökstutt að greina megi einkenni lóðréttrar samþættingar milli Mílu og Símans sökum umfangsmikils langtímasamnings sem fylgdi sölu Símans á Mílu til Ardian. Með þeim samningi skuldbindur Síminn sig til að leigja af Mílu verulegan hluta þessara innviða sem Síminn byggir internet- og sjónvarpsþjónustu sína á, sem  takmarkar um leið leigu Símans á innviðum frá samkeppnisaðilum Mílu. Getur það skert möguleika samkeppnisaðila Mílu til að ná fótfestu á markaði og styrkir stöðu Mílu í samkeppninni á tilteknum svæðum.

Heimtaugar og gagnaflutningskerfi þessi, hvort sem er Mílu eða annarra fyrirtækja, eru það sem internet- og sjónvarpsþjónustuaðilar þurfa á að halda til að veita framangreinda þjónustu til viðskiptavina, heimila og fyrirtækja landsins.

Þjónustufyrirtækin á smásölumarkaði fá aðgang leigðan að þessum innviðum og telst það vera heildsöluþjónusta innviðafyrirtækjanna við smásölufyrirtækin.

Heildsölumarkaður heimtauga er nefndur markaður 3a samkvæmt tölusetningu markaða í viðkomandi leiðbeiningum ESA um markaðsgreiningu en heildsölumarkaður gagnaflutningskerfanna er tölusettur sem markaður 3b.

Hagsmunaaðilum eru nú gefnir 30 dagar til að skila athugasemdum sínum um frumdrögin til Fjarskiptastofu vegna þessara fyrirætlana.