Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun FST í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta Votta Jehóva á Íslandi

Fréttasafn
03. janúar 2023

Ákvörðun FST í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta Votta Jehóva á Íslandi

Fjarskiptastofa (FST) hefur birt ákvörðun sína nr. 13/2022 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta trúfélagsins Votta Jehóva á Íslandi (hér eftir trúfélagið). Stofnuninni bárust tvær kvartanir vegna óumbeðinna fjarskipta í formi símtala en báðir þeir einstaklingar sem kvörtuðu voru bannmerktir í símaskrá.

Trúfélagið taldi að umrædd símtöl gætu ekki fallið undir hugtakið ,,bein markaðssetning“ samkvæmt 46. gr.  laga um fjarskipti nr. 81/2003 en það afmarkar gildissvið ákvæðisins. Að mati FST geta fjarskipti, í þeim tilgangi að koma á framfæri og kynna hlutverk, hugmyndir og starfsemi aðila, fallið undir það að vera bein markaðssetning. Þá var mat FST að umrædd símtöl fólu í sér kynningu á trúarlegum skoðunum og starfsemi trúfélagsins og teljist þannig vera bein markaðssetning í skilningi 5. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga. Það var því niðurstaða stofnunarinnar að trúfélagið hafi brotið gegn ákvæðinu.

Ákvörðun FST nr. 13/2022