Fyrsta skrefið tekið að númeraflutningi
Fyrsta skrefið tekið að númeraflutningi
06.desember .1999- Fréttatilkynning
Númeraflutningur
Möguleiki símnotenda að flytja með sér símanúmer sín þegar þeir skipta um þjónustuveitanda er talinn lykilatriði fyrir samkeppnismarkað í fjarskiptum. Póst- og fjarskiptastofnun og rekstrarleyfishafarnir Íslandssími hf., Landssími Íslands hf. og Tal hf. hafa komist að samkomulagi um fyrsta skrefið í númeraflutningi. Notendur sem hafa stofntengingu, þ.e. 2 Megabit/s heimtaug og 100 númera röð eða meira, geta flutt með sér númer sín ef þeir flytja sig frá einu símafyrirtæki til annars. Sömuleiðis geta þeir tekið með sér símanúmer sem byrja á 800 og 901-908.
Símnotendum sem óska eftir númeraflutningi ber að senda umsókn þar að lútandi til símafyrirtækisins sem þeir vilja flytja sig til. Gert er ráð fyrir að um 2 vikur líði frá því að umsókn berst þangað til að númeraflutningur er framkvæmdur.
Samgönguráðherra fól Póst- og fjarskiptastofnun í lok ágúst að setja reglur um númeraflutning eins skjótt og það væri tæknilega öruggt og mögulegt . Stofnunin óskaði eftir því að símafyrirtæki sem fá úthlutað símanúmerum til afnota fyrir símnotendur sína tækju þátt í vinnuhóp til þess að skoða möguleika á númeraflutningi í símakerfum fyrirtækjanna og hefur komist að niðurstöðu um bráðabirgðafyrirkomulag eins og að framan er lýst. Vinnuhópurinn mun næst kanna hversu fljótt hægt er að innleiða númeraflutning fyrir alla símnotendur en vonast er til að hægt sé að flýta því í samræmi við þróunina í nágrannalöndunum