Hoppa yfir valmynd

Landssíma Íslands gert að lækka heildsölugjald inn í farsímanet sitt

Fréttasafn
23. apríl 2003

Landssíma Íslands gert að lækka heildsölugjald inn í farsímanet sitt

Landssíma Íslands gert að lækka heildsölugjald inn í farsímanet sitt 

Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag, með ákvörðun, gert Landssíma Íslands hf að lækka heildsöluverð inn í GSM farsímanet sitt um 15% að meðaltali frá og með 1. júní nk. Heildsöluverð hjá Landssímanum lækki því úr  11 krónum á  dagtaxta  og úr 10 krónum á næturtaxta  í eitt verð 8,92 krónur.

Lækkun þessi gefur fjarskiptafyrirtækjunum svigrúm til þess að lækka verð til neytenda á símaþjónustu sem tengist farsímakerfi Landssíma Íslands.

Heildsöluverð (lúkningarverð) í GSM netum er það verð sem fjarskiptafyrirtæki greiða til að viðskiptavinir þeirra geti hringt í notendur annarra GSM farsímakerfa.

Sambærileg heildsöluverð hjá Og Vodafone (áður Íslandsími) eru nú 13,50 krónur og er verðmunur á heildsöluverði félaganna því 2,50 krónur á dagtaxta fyrir ákvörðun þessa.

Þróun heildsöluverðs erlendis er með svipuðum hætti.  Í Noregi og Svíþjóð hafa systurstofnanir Póst- og fjarskiptastofnunar gert farsímafyrirtækjum með umtalsverða markaðshlutdeild að lækka heildsöluverð.  Sambærilegt verð í Noregi og  Svíþjóð eru um ISK 8, en það er lægsta heildsöluverð í Evrópu nú. Í Bretlandi er heildsöluverð á dagtaxta um 15 krónur og mun lækka í um 9 krónur árið 2005 í þremur 15% skrefum.

 

Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldi af ákvörðun þessari kanna markaðsstöðu Og Vodafone í þeim tilgangi að kanna hvort fyrirtækið hafi umtalsverða markaðshlutdeild í skilningi fjarskiptalaga.  Reynist svo vera getur Póst- og fjarskiptastofnun m.a. lagt þá kvöð á fyrirtækið að það verði að bjóða heildsöluverð inn í net sitt á kostnaðargrundvelli eins og Landssíma Íslands er skylt að gera samkvæmt ákvörðun þessari.