Hoppa yfir valmynd

Heimilað að hækka leigugjald fyrir heimtaug um 9%

Fréttasafn
28. nóvember 2002

Heimilað að hækka leigugjald fyrir heimtaug um 9%

Fréttatilkynning vegna hækkunar Landssíma Íslands hf. á gjaldi fyrir leigu á heimtaugum

Eftir ítarlega skoðun gagna sem Landssími Íslands hf. hefur lagt fram undanfarna 3 mánuði er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að heimila 9% hækkun á heimtaugaleigu.

Samhliða er heimiluð samsvarandi hækkun á fastagjaldi fyrir heimilissíma og atvinnusíma.

Við ákvörðunina voru metnir ýmsir þættir sem samanlagt mynda kostnaðargrundvöll vegna leigu heimtauga. Þau gögn sem Landssími Íslands hf. hefur lagt fram spanna alla þætti heimtaugakerfisins. Ljóst er að nauðsynlegt er að halda áfram vinnu við að greina kostnað í fjarskiptakerfi Landssímans með það að markmiði að fá fram sem réttast verð á helstu grunnþáttum í þjónustu Landssímans.

Forsaga þessarar verðhækkunar er sú að Landssími Íslands hf. tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðar breytingar á taxta fyrir ýmsa þjónustu í júlí sl. Stofnunin taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessar breytingar, að undanskilinni hækkun á heimtaugarleigu. Tilkynning Landssímans um fyrirhugaða hækkun nam rúmum 16%. Í þeim gögnum sem framvísað var, kom fram að Landssíminn mat hækkunarþörf sína í heimtaugarkerfinu yfir 20%. Eftir skoðun Póst og fjarskiptastofnunar á ofangreindum gögnum í ágúst ákvað hún að fresta ákvörðun um verðbreytingar á  heimtaugaleigu fram til 1.desember og vinna enn frekar að kostnaðargreiningu.

Póst og fjarskiptastofnun telur að rétt verð á leigu heimtauga sé lykilatriði í samkeppni á fjarskiptamarkaði, því heimtaugarleiga er í raun heildsöluverð Landssímans til keppinauta sem selja ýmsa virðisaukandi þjónustu sem tengist heimtauginni svo sem ADSL.

Vinna við kostnaðargreininguna hefur verið unnin samhliða vinnu við gerð viðmiðunartilboðs fyrir heimtaugaleigu. Viðmiðunartilboðið verður sent út til kynningar fyrir árslok.

 

Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst og fjarskiptastofnunar.