Hoppa yfir valmynd

Almennar samkeppnisreglur gilda um eignatengsl fjarskiptafyrirtækja

Fréttasafn
07. júní 2002

Almennar samkeppnisreglur gilda um eignatengsl fjarskiptafyrirtækja

Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag svarað erindi sem Ragnar Aðalsteinsson hrl. sendi stofnuninni f.h. Tals hf. varðandi meint eignatengsl milli Landssíma Íslands hf. og Íslandssíma hf.

Því var haldið fram af hálfu Tals hf. að eignatengsl væru komin á milli Landssíma Íslands hf. og Íslandssíma hf. með því að Landsbanki Íslands hf. væri nú stærsti hluthafinn í Íslandssíma hf. og Landsbanki Íslands hf. væri í meirihlutaeigu íslenska ríkisins sem ætti Landssíma Íslands hf. að stærstum hluta. Þetta taldi Tal hf. í andstöðu við ákvæði leyfisbréfa félaganna og fór fram á að Póst- og fjarskiptastofnun gerði viðeigandi ráðstafanir.

Póst- og fjarskiptastofnun leitaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá viðkomandi leyfishöfum. Það var staðfest með upplýsingum frá Íslandssíma hf. að Landsbanki Íslands hf. er stærsti hluthafinn í félaginu.

Bæði Landssími Íslands hf. og Íslandssími hf. mótmæltu því að Póst- og fjarskiptastofnun væri heimilt að beita fjarskiptafélög viðurlögum vegna athafna eigenda þeirra, sem fjarskiptafélögin sjálf gætu ekki haft áhrif á.

Skilyrði leyfisbréfa um eignatengsl voru fyrst sett í leyfisbréf á árinu 1997. Á þeim tíma var talið að það þjónaði best samkeppnismarkmiðum fjarskiptalaga að búa svo um hnúta að eignatengsl væru bönnuð milli leyfishafa sem fengju úthlutun úr takmörkuðum tíðnisviðum. Leyfishafar hafa hingað til ekki véfengt heimildir stofnunarinnar til þess að setja skilyrði með þessum hætti. Nú þegar ný sjónarmið leyfishafa varðandi skilyrðin koma fram var ákveðið að skoða lagagrundvöll þeirra að nýju. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að heimildir sem stofnuninni eru fengnar í lögum um fjarskipti nr. 107/1999 væru ekki eins skýrar og ákjósanlegt væri hvað varðar afskipti af eigendum fjarskiptafyrirtækja.

Jafnframt var litið til þess að þróun fjarskiptalöggjafar í Evrópu er í þá átt að afskipti eftirlitsstofnana á fjarskiptasviði af samkeppnismálum á fjarskiptamarkaði munu felast í markaðsgreiningu og mati á stöðu félaganna á markaði með tilliti til markaðsráðandi stöðu og verða lagðar sérstakar kvaðir á þá aðila sem metnir eru með markaðráðandi stöðu. Hvað varðar eignatengsl milli fjarskiptafyrirtækja, þá munu almennar samkeppnisreglur eiga við. Samkeppnisyfirvöld hér á landi geta í mörgum tilvikum gripið inn í ef bein eða óbein tengsl milli leyfishafa verða of sterk, sbr. t.d. 10. og 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Skv. nýrri tilskipun ESB um heimildir til fjarskiptareksturs, sem taka á gildi á næsta ári, er ekki gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækjum séu sett skilyrði í rekstrarleyfum varðandi eignaraðild.

Það er því álit Póst- og fjarskiptastofnunar að nú, þegar sér fyrir endann á afskiptum stofnunarinnar af eignartengslum fjarskiptafyrirtækja sé ekki ástæða til þess að grípa til aðgerða vegna aðstæðna sem ráðast af aðgerðum hluthafa en ekki af aðgerðum leyfishafans sjálfs, enda hafa leyfishafar nú mótmælt lögmæti slíkra aðgerða og lagastoð þeirra er óskýr í núgildandi lögum. Því mun stofnunin breyta þeim ákvæðum rekstrarleyfa sem snerta eignaraðild, þannig að framvegis snúi þau aðeins að leyfishafanum sjálfum en ekki að eigendum hans.

Póst- og fjarskiptastofnun 7. júní 2002