Hoppa yfir valmynd

Lína.Net hf. og Fjarski ehf. fá leyfi til að reka þráðlaus net

Fréttasafn
11. janúar 2002

Lína.Net hf. og Fjarski ehf. fá leyfi til að reka þráðlaus net

Fréttatilkynning um úthlutun leyfa fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út tvö leyfi til reksturs þráðlausra notendakerfa á örbylgju. Leyfin voru veitt fyrirtækjunum Línu.Net hf. og Fjarska ehf.

Auglýst var eftir umsóknum um leyfi til reksturs notendakerfa á 3,5 GHz og 10 GHz sviði í júní árið 2001. Tvær umsóknir bárust. Báðum umsækjendum var veitt leyfi til að reka notendakerfi og veita tal- og gagnaflutningsþjónustu á kerfunum. Lína.Net hf. fær heimild til að nota tíðnir á bilinu 3,400-3,450 / 3,500-3,550 GHz og nær leyfið til 5 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu auk Akureyrar. Fjarski ehf. fær heimild til að nota tíðnir á bilinu 3,473-3,500 GHz / 3,573-3,600 GHz og nær leyfið til 24 sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Heimildir til tíðninotkunar og þjónustusvæði eru ákveðin í samræmi við umsóknir fyrirtækjanna.

Fyrir útgáfu leyfanna eru greidd leyfisgjöld skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs og gjald vegna kostnaðar við úthlutun, samtals kr. 420.000,- fyrir hvort leyfi.