Númeraflutningur milli farsímaneta frestast
Númeraflutningur milli farsímaneta frestast
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun um að fresta gildistöku númeraflutnings milli farsímaneta til 1. júlí 2003. Númeraflutningur gefur áskrifendum talsíma möguleika á því að flytja með sér símanúmer sitt þegar þeir flytja sig milli fjarskiptafyrirtækja, milli landssvæða eða skipta um þjónustu. Númeraflutningur er talinn vera mikilvægur þáttur í því að auðvelda notendum að skipta um þjónustuveitanda og til þess að koma á virkri samkeppni.
Póst- og fjarskiptastofnun setti 24. ágúst 2000 reglur um númeraflutning og eru helstu atriði þeirra eftirfarandi:
1. Frá 15. september 2000 er mögulegt fyrir símanotendur í fastanetum að flytja með sér símanúmer sín þegar þeir færa viðskipti sín frá einu símafyrirtæki til annars.
2. Frá 15. febrúar 2001 hafa notendur átt þess kost að flytja númer sín milli númerasvæða. Sama á að gilda skipti notandi um þjónustu hjá símafyrirtæki t.d. úr venjulegum talsíma í fastaneti í samnet.
3. Frá 1. júní 2001 áttu notendur í farsímanetum að eiga þess kost að flytja með sér númer sín þegar þeir skipta um þjónustuveitanda.
Síðastliðið vor fékk Póst- og fjarskiptastofnun ábendingar frá farsímafyrirtækjum um að þau yrðu ekki tilbúin til þess að innleiða númeraflutning í farsímanetum í samræmi við fyrrnefnda dagsetningu. Að þessu tilefni var tæknihópi sem skipaður er fulltrúum starfandi farsímafyrirtækja falið að kanna mismunandi tæknilegar lausnir og hver væri raunhæf dagsetning fyrir númeraflutning milli farsímaneta. Í skýrslu hópsins sem samin var í september 2001 og rædd var á fundi Póst- og fjarskiptastofnunar með farsímafyrirtækjunum í byrjun þessa mánaðar kemur fram að framleiðendur símstöðva sem notaðar eru í farsímanetum hér á landi eru mislangt á veg komnir með hugbúnaðarlausnir fyrir númeraflutning. Auk þess eru vandamál í sambandi við fyrirfram greidd kort óleyst. Upplýsingar sem farsímafyrirtækin hafa aflað sér frá framleiðendum símstöðva benda til þess að endanlegar lausnir verði ekki fáanlegar fyrr en á 1. ársfjórðungi 2003 en þá er eftir að setja búnaðinn upp og prófa hann.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur kynnt sér stöðu númeraflutnings milli farsímaneta í öðrum löndum og hefur komist að raun um að slíkur flutningur er nú mögulegur í mörgum löndum Evrópu og fleiri munu slást í hópinn á þessu ári og hinu næsta. Í Bandaríkjunum var ákveðið að númeraflutningur milli farsímaneta skyldi hefjast í árslok 1998 en honum hefur tvívegis verið frestað, í seinna skiptið þangað til í nóvember 2002.
Póst- og fjarskiptastofnun harmar að íslenskum farsímanotendum muni ekki gefast kostur á númeraflutningi milli farsímaneta að svo stöddu. Stofnunin mun reyna að tryggja að farsímafyrirtækin geri ráðstafanir svo að hægt verði að standa við hina nýju dagsetningu.