Hoppa yfir valmynd

PFS sækir um aðild að ETSI-staðlastofnuninni

Fréttasafn
13. ágúst 2001

PFS sækir um aðild að ETSI-staðlastofnuninni

Tilkynning frá Póst- og fjarskiptastofnun vegna aðildar að ETSI

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tilkynnir hér með að stofnunin hefur sótt um og öðlast fulla aðild að ETSI-staðlastofnuninni (European Telecommunications Standards Institute). Meginmarkmið ETSI er að útbúa og fá samþykkta staðla fyrir búnað sem framleiddur er til notkunar á fjarskiptamarkaðinum í Evrópu. Ástæða þess að PFS sótti um aðild að ETSI er sú að það gefur stofnuninni aukna möguleika á að fylgjast með stefnu og þróun fjarskiptamarkaðarins í Evrópu, en ETSI-staðlar gefa góða hugmynd um fjarskiptabúnað nánustu framtíðar. Samkvæmt fjarskiptalögum er eitt af hlutverkum PFS að vera stjórnvöldum ráðgefandi á sviði fjarskiptamála. Til þess að öðlast fulla aðild að ETSI þurfa stofnanir og fyrirtæki að vera „persónur að lögum" og vera staðsett í Evrópu. Meðlimir ETSI eru um 780 frá 52 löndum.

Full aðild að ETSI veitir rétt til þátttöku í staðlastarfinu og hafa aðilar þar með rétt á að taka fullan þátt í aðalfundum, sérnefndum og undirnefndum ETSI og öllum atkvæðagreiðslum þar. Skrifstofur ETSI eru staðsettar í Sophia Antipolis í Frakklandi og er starfsemin ekki rekin í hagnaðarskyni heldur fjármögnuð með aðildargjöldum, og aðilar taka jafnframt stóran þátt í vinnunni.

Sú vinna sem PFS tekur að sér sem aðili í ETSI nú í upphafi er að fylgjast með þeim upplýsingum um staðlavinnu sem ETSI sendir frá sér, taka þátt í staðlavinnu þegar þörf er fyrir og réttlætanlegt er og greiða atkvæði eftir að hafa ráðfært sig við hagsmunaaðila eða aðra eftir því sem við á. Þessi vinna fer fram á Netinu og hefur PFS aðgangsorð að gagnabanka ETSI.

Á vefsíðu ETSI má sjá hvernig innleiðingu staðlanna í aðildarríkjunum miðar (http://www.etsi.org). Aðgangur að ETSI stöðlunum er öllum opinn sem og sá hluti vefsíðunnar sem sýnir hvaða staðall hefur verið innleiddur á hverjum stað. Það er síðan hlutverk opinberrar staðlastofnunnar í hverju landi fyrir sig að kynna staðlana og setja niðurstöður um hvaða staðlar hafa verið innleiddir í viðkomandi landi inn á vefsíðu ETSI.

Nánari upplýsingar veitir Hörður Halldórsson (hordur@pfs.is), forstöðumaður stefnumótunar og alþjóðamála hjá Póst- og fjarskiptastofnun.