Hoppa yfir valmynd

Netið í brennidepli á alþjóðlegum fjarskiptadegi

Fréttasafn
17. maí 2001

Netið í brennidepli á alþjóðlegum fjarskiptadegi

Alþjóðlegi fjarskiptadagurinn 2001

Hinn 17. maí er alþjóðlegi fjarskiptadagurinn. Til hans hefur verið efnt árlega að frumkvæði Alþjóðafjarskiptasambandsins (International Telecommunication Union) og er þema ársins 2001  "Netið: áskorun, tækifæri og framtíðarhorfur". 

Hlutverk ITU, sem er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna, er fyrst og fremst að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að ákveðinni grunnþjónustu í fjarskiptum og samhæfa tækniþróun á því sviði. Samhæfing og samtenging fjarskiptakerfa heimsins, sem er augljós forsenda þess að hvers konar fjarskipti geti átt sér stað milli landa, hefur frá upphafi verið meginhlutverk ITU. Öll ríki heims eiga aðild að samtökunum og er Póst- og fjarskiptastofnun formlegur aðili Íslands í þeim. Landssími Íslands hf. er aðili að sérdeildum samtakanna en búast má við að hin fjölmörgu nýju fjarskiptafyrirtæki hér á landi muni í framtíðinni nýta sér þá möguleika sem þátttaka í ITU gefur.

Þema ársins var valið vegna hinna miklu áhrifa sem Netið hefur á þjóðfélög heimsins þar sem mörgum hefðbundnum aðferðum og vinnubrögðum hefur verið ýtt til hliðar og kallar sú þróun á nýjar reglur í síbreytilegu umhverfi fjarskiptanna. Í tilefni dagsins hvetur ITU til almennra umræðna um eftirfarandi málefni:
Hvernig getur Netið stuðlað að aukinni þróun og hvað er hægt að gera til að hlúa að þróun Netsins? Hvaða vandamál getur það skapað?
Hvernig er hægt að efla notkun Netsins hvarvetna í samfélaginu ?
Hvernig má nýta Netið í ákveðinni grunnþjónustu, svo sem innan heilsugæslunnar og í menntamálum?
Stuðla lög og reglugerðir að sambærilegum aðgangi að Netinu um allt land?
Hvernig er hægt að ryðja úr vegi hindrunum sem hefta útbreiðslu og notkun Netsins og takast jafnframt á við þær áskoranir og möguleika sem stofnanir og fyrirtæki standa andspænis á þessum vettvangi.

Umræðan og áherslan er að sjálfsögðu mjög misjöfn í hinum ýmsu löndum en hvað Ísland snertir þá hafa nýlegar skoðanakannanir sýnt að Íslendingar nota Netið hlutfallslega mest allra þjóða. Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að hvetja til notkunar og má nefna að í nýjum fjarskiptalögum er ákvæði sem ætlað er að tryggja öllum landsmönnum aðgang að lágmarks bandbreidd en stöðugur þrýstingur er og verður á að auka burðargetu fjarskiptakerfanna.

Það sem gerir Netið flóknara en margar aðrar nýjungar sem fram hafa komið er hvað notkun þess spannar yfir mörg svið.  Það veitir ótal nýja möguleika sem breyta hefðbundnum aðferðum í viðskiptum, námi, hverskonar fjölmiðlun og í fjarskiptum þar sem mikill tæknilegur samruni hefur átt sér stað, t.d. með svokallaðri IP tækni sem gerir notendum kleift að nota Netið til hefðbundinnar talsímaþjónustu.

Hér á heimasíðunni má finna nánari upplýsingar um Alþjóðafjarskiptasambandið. Á heimasíðu ITU http://www.itu.int er einnig að finna fjölbreytilegt efni í tilefni fjarskiptadagsins. Þar getur t.d. að líta efnisflokka með yfirskriftinni "Netið og heilsufar: er læknir þarna??", "Netið og menntun: sýndar-kennslustofa fyrir alla" og "Netið og rafræn viðskipti".