Hoppa yfir valmynd

Útgáfa tíðniheimilda til 20 ára með skilyrðum um háhraðafarnetsþjónustu í byggð og á stofnvegum.

Fréttasafn
21. mars 2023

Útgáfa tíðniheimilda til 20 ára með skilyrðum um háhraðafarnetsþjónustu í byggð og á stofnvegum.

Mynd með frétt

Fjarskiptastofa hefur í dag gefið út endurnýjaðar tíðniheimildir fyrir háhraða farnet, til fyrirtækjanna Nova hf., Símans hf. og Sýnar hf.  Fyrirtækjunum er heimiluð áframhaldandi notkun tiltekinna tíðna á 800, 900, 1800, 2100 og 3600 MHz tíðnisviðunum, til næstu 20 ára. 

Í tíðniheimildunum eru sett skilyrði sem stuðla eiga að því að háhraða farnetsþjónusta verði aðgengileg fyrir alla landsmenn og á stofnvegum landsins verði þjónustan slitlaus eftir því sem tæknilega er gerlegt. Hraða og útbreiðslukröfur eru stigvaxandi á næstu árum, en endanlegar lágmarkskröfur eru að a.m.k. 99% heimila og vinnustaða hafi aðgang að háhraðaþjónustu um farnet og þar af nái a.m.k. 97% þjónustu með 1 Gb/s hraða að lágmarki. 

Byggja á upp aðstöðu og þjónustu á stofnvegum landsins og tilteknum hálendisvegum, þannig að a.m.k. 30 Mb/s hraði náist á öllum stofnvegum innan fárra ára og 150 Mb/s í byrjun næsta áratugar ef þörf verður fyrir slíkan hraða á vegunum. Á hálendinu er gert ráð fyrir 10 Mb/s hraða á Uxahryggjum, Kjalvegi, Sprengisandi og Fjallabaksleið nyrðri fyrir árslok 2031.  

Tíðnirétthöfum er heimilað að vinna saman að uppbyggingu á stofnvegum og á hálendi. Kostnaður vegna uppbyggingar á að skiptast jafnt milli farnetsfyrirtækjanna og Öryggisfjarskipta ehf. sem fengu tíðniheimild með slíkum skilyrðum árið 2022. Fjarskiptastofa hefur sett ramma utan um samskipti fyrirtækjanna vegna þessa verkefnis, sem tryggja á að samstarfið raski ekki samkeppni. Sameiginleg uppbygging og notkun, skv. umræddum heimildum, á aðeins að vera á svæðum þar sem markaðsbrestur telst vera fyrir hendi skv. ákveðnum viðmiðum og öll samvinna fyrirtækjanna fer eftir sérstökum reglum um hátterni og samskipti, sem Fjarskiptastofa setti árið 2022 þegar viðræður um samstarf hófust. 

Fyrir endurnýjun tíðniheimildanna greiða fyrirtækin gjald skv. bráðabirgðaákvæði III í lögum um fjarskipti nr. 70/2022. Gert ráð fyrir því að gjaldtaka samkvæmt ákvæðinu geti skilað 750 millj. kr. í tekjur fyrir ríkið. 

Undirbúningur þessa verkefnis hófst með almennu samráði um tíðnimál árið 2021. Opið samráð um nánari útfærslu tíðniheimildanna hófst 9. desember 2022 og eru niðurstöður þess samráðs nú birt samhliða útgáfu tíðniheimildanna. 

Sjá nánar: 

Niðurstaða samráðs 
Tíðniheimild Nova hf.
Tíðniheimild Síminn hf.
Tíðniheimild Sýn hf.
Hátternis og samskiptareglur
Verkáætlun
Skýrsla Mannvits