Hoppa yfir valmynd

Nýtt ákvæði um pakkatilboð (vöndla) í nýjum fjarskiptalögum

Fréttasafn
20. september 2022

Nýtt ákvæði um pakkatilboð (vöndla) í nýjum fjarskiptalögum

Mynd með frétt

Fjarskiptastofa vill vekja athygli neytenda á nýju ákvæði 77. gr. laga nr. 70/2022 um fjarskipti sem fjallar um pakkatilboð.

Á undanförnum árum hafa þjónustupakkar orðið æ algengari og margir neytendur kaupa ýmiss konar þjónustu sem hluta af slíkum pökkum. Þjónustupakkarnir geta haft í för með sér ávinning fyrir neytendur en að sama skapi geta þeir gert það erfitt og kostnaðarsamt að skipta um þjónustuveitendur og þjónustuleiðir. Með ákvæðinu er leitast við að takmarka þessa erfiðleika og koma í veg fyrir samningsbundna ,,innilokun“ neytenda.

Litið er svo á að þjónustupakki sé fyrir hendi þegar þættir hans eru veittir eða seldir af sama þjónustuveitanda samkvæmt sama, náskyldum eða tengdum samningi. Þegar mismunandi þjónusta og endabúnaður innan þjónustupakka er háð ólíkum reglum um uppsögn samnings, skipti eða um samningsbundnar skuldbindingar varðandi kaup á endabúnaði, er réttur neytenda til að skipta yfir í samkeppnishæf tilboð fyrir allan pakkann eða hluta hans í raun hindraður.

Af þessum sökum var sett ákvæði í fjarskiptalög sem kveður á um að í samningi við neytanda um þjónustupakka, sem inniheldur a.m.k. síma- eða netaðgangsþjónustu, með eða án endabúnaðar, skulu eftirfarandi kröfur gilda um alla þætti pakkans: 

  • upplýsingakröfur vegna samninga skv. 69. gr.
  • kröfur um gildistíma, breytingar á og uppsögn samninga skv. 72. gr. 
  • og kröfur um númeraflutning og flutning netaðgangsþjónustu milli þjónustuveitenda skv. 76. gr.

 

Með ákvæðinu er neytendum einnig tryggður uppsagnaréttur á öllum þáttum þjónustupakka vegna vanefnda eða afhendingarskorts að því er varðar tiltekinn þátt þjónustupakkans, ef slíkur réttur er til staðar fyrir lok samningstíma. 

Þegar neytandi bætir við nýrri áskrift að viðbótarþjónustu eða endabúnaði er ekki heimilt að breyta gildistíma fyrri samnings neytanda við fjarskiptafyrirtæki um síma- eða netaðgangsþjónustu, að því er þá þjónustu varðar, nema neytandi samþykki slíka breytingu sérstaklega. Tilgangurinn með þessu er að viðhalda því að neytendur geti skipt um þjónustuaðila með auðveldum hætti og verða ekki ,,innilokaðir“ hjá þjónustuveitanda.