Hoppa yfir valmynd

Leiðbeiningar ESA um ríkisstyrki til uppbyggingar á háhraðanetum

Fréttasafn
15. febrúar 2023

Leiðbeiningar ESA um ríkisstyrki til uppbyggingar á háhraðanetum

Þann 8. febrúar s.l. gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) út endurskoðaðar leiðbeiningar um ríkisstyrki til uppbyggingar á háhraðanetum. Um er að ræða innleiðingu á leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sama efnis frá 12. desember 2022.  

Gott aðgengi að háhraðanetum er nauðsynlegt jafnt fyrir atvinnulífið og hinn almenna borgara í tæknivæddu samfélagi nútímans. Því kann að vera nauðsynlegt að styðja við uppbyggingu á háhraðanetum á þeim stöðum landsins þar sem hún getur ekki farið fram á samkeppnis- og markaðsforsendum. Því er almennt gert ráð fyrir því að ríkisstuðningur til uppbyggingar á slíkum fjarskiptainnviðum geti staðist reglur EES-réttar um ríkisaðstoð, að vissum skilyrðum uppfylltum.

Leiðbeiningum ESA er ætlað að auðvelda aðildarríkjum EFTA að skipuleggja og framkvæma aðgerðir til ríkisstuðnings á þessu sviði sem standast kröfur EES-réttar um lögmæta ríkisaðstoð. Taka leiðbeiningarnar m.a. til þess hvernig standa eigi að því skilgreina og afmarka markaðsbrestssvæði svo forða megi því að ríkisstuðningur hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Leiðbeint er um hvernig úthlutun á ríkisstyrkjum eigi að fara fram í opnu og gagnsæju stjórnsýsluferli þar sem tryggt er að jafnræði aðila sé gætt. Fjallað er um þær kvaðir sem eigendur ríkisstyrktra fjarskiptainnviða þurfa að hlíta og hvaða eftirlitshlutverki fjarskiptaeftirlitsstjórnvöld hafa að gegna, s.s. varðandi opinn heildsöluaðgang að slíkum innviðum og verðlagningu fyrir hann.

Leiðbeiningarnar gilda fyrir alla opinbera aðila, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög.

Leiðbeiningar ESA.