Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa samþykkir heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum og tengigrindum

Fréttasafn
03. maí 2023

Fjarskiptastofa samþykkir heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum og tengigrindum

Mynd með frétt

Með ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 3/2023 samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu hf. á heildsöluaðgangi að koparheimtaugum og tengigrindum Mílu hf.

Samkvæmt niðurstöðu í kostnaðargreiningu Mílu hf. sem Fjarskiptastofa hefur nú samþykkt mun gjald fyrir aðgang að koparheimtaugum verða 1.978 kr. á mánuði án vsk. og 1.553 kr. án vsk. á mánuði fyrir hverja 100 línu tengihausa í tengigrind. Þá falla niður stofngjöld vegna koparheimtauga. Um er að ræða 27% hækkun frá núverandi gjaldskrá fyrir mánaðargjöld, sem tók gildi 1. júní 2019. Hluti af þessari hækkun kemur til vegna þess að stofngjöldin voru lögð niður. Í kafla 5.8.2 og 5.9 í meðfylgjandi ákvörðun má finna umfjöllun Fjarskiptastofu um niðurstöðu kostnaðargreiningarinnar þar sem m.a. er horft til þróun vísitölu og mánaðarverða ljósleiðaraheimtauga.

Í meðfylgjandi ákvörðun er forsendum og aðferðum við greiningu á kostnaði lýst nánar. Í Viðauka I er lýsing á því hvernig vegið meðaltal fjármagnskostnaðar fyrir árið 2021 er ákvarðað. Hin nýja heildsölugjaldskrá Mílu hf. tekur gildi þann 1. júní næstkomandi en Míla hf. hefur þegar sent út tilkynningu um gildistökuna með tilskildum fyrirvara.

Frumdrög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að koparheimtaugum fór í innanlandssamráð sem stóð frá 10. janúar til 9. febrúar 2023. Athugasemdir bárust frá Símanum hf. og Sýn hf. Fjarskiptastofa sendi athugasemdirnar til umsagnar hjá Mílu. Athugasemdir Símans hf. og Sýnar hf. í heild sinni ásamt svörum Mílu hf. má finna í Viðauka II. Í Viðauka III hefur Fjarskiptastofa síðan tekið saman helstu sjónarmið Símans hf. og Sýnar hf. vegna ákvarðanadraga Fjarskiptastofu og þar eru jafnframt tilgreind svör Mílu hf. þar sem það á við og afstaða stofnunarinnar. Fjarskiptastofa telur að þær athugasemdir sem komu fram í innanlandssamráðinu kalli ekki á breytingar á fyrirhugaðri niðurstöðu Fjarskiptastofu um verðskrá fyrir aðgang að koparheimtaugum.

Þann 29. mars sl. voru ákvörðunardrögin send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs. Samráðinu lauk 2. maí sl. og hefur Fjarskiptastofa þegar móttekið álit ESA sem fylgir með í Viðauka VI við ákvörðun þessa. ESA gerði engar athugasemdir við ákvörðunardrögin. 

Ákvörðun heildsölugjaldskrá koparheimtauga til birtingar
Viðauki I WACC fyrir 2021
Viðauki II Athugasemdir úr samráði og svör Mílu
Viðauki III Helstu sjónarmið aðila í innanlandssamráði og afstaða Fjarskiptastofu
Viðauki IV Álit ESA