Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

Fréttasafn
10. janúar 2023

Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

Fjarskiptastofa (FST) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu hf. á heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að koparheimtaugum og tengigrindum. Þær vörur sem umrædd verðskrá Mílu nær yfir tilheyra heildsölumarkaði fyrir staðaraðgang með fasttengingu sem er markaður nr. 3a samkvæmt tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2016.

Samkvæmt meðfylgjandi drögum að ákvörðun hyggst FST samþykkja kostnaðargreiningu Mílu með þeim breytingum sem gerðar voru við meðferð greiningarinnar hjá stofnuninni.

Drög þessi byggja á ákvörðun FST nr. 5/2021 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir staðaraðgang með fasttengingu (markaður 3a) og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur (markaður 3b).

Samkvæmt niðurstöðu í kostnaðargreiningu Mílu sem FST hyggst samþykkja mun gjald fyrir aðgang að koparheimtaugum verða 1.978 kr. á mánuði án vsk. og 1.553 kr. án vsk. á mánuði fyrir hverja 100 línu tengihausa í tengigrind. Þá falla niður stofngjöld vegna koparheimtauga. Um er að ræða 27% hækkun frá núverandi gjaldskrá fyrir mánaðargjöld, sem tók gildi 1. júní 2019. Að mati FST er þessi hækkun, þótt að hún sé töluverð, í eðlilegu samhengi við vísitöluhækkanir frá síðustu kostnaðargreiningu. Nánar er fjallað um niðurstöðu FST í kafla 5.9 í meðfylgjandi ákvörðunardrögum.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 24. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar FST hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun FST senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 9. febrúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)fjarskiptastofa.is). FST mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Samráðsskjal - Drög að ákvörðun um heildsöluverð koparheimtauga

Viðauki I - WACC fyrir árið 2021