Hoppa yfir valmynd

Auðkenni ehf. hefur verið veitt fullgild staða til að starfa sem traustþjónustuveitandi á sviði rafrænna undirskrifta og rafrænna innsigla.

Fréttasafn
24. nóvember 2022

Auðkenni ehf. hefur verið veitt fullgild staða til að starfa sem traustþjónustuveitandi á sviði rafrænna undirskrifta og rafrænna innsigla.

Fjarskiptastofa hefur tekið ákvörðun nr. 11/2022 þar sem Auðkenni ehf. er veitt fullgild staða til að starfa sem traustþjónustuveitandi á sviði rafrænna undirskrifta og rafrænna innsigla. Ákvörðun þessi er fyrsta sinnar tegundar hér á landi en Auðkenni ehf. hefur verið skráð á traustlista frá gildistöku laga nr. 55/2019 á grundvelli sérstakrar lagaheimildar. Félagið hefur nú undirgengist og staðist ítarlegt mat á því hvort að framangreind þjónusta félagsins uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fullgildrar þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvörðun stofnunarinnar staðfestir þá niðurstöðu og veitir félaginu heimild til að vera skráð á traustlista Evrópusambandsins.

Fjarskiptastofa fer með eftirlit með lögum nr. 55/2019, um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Stofnunin hefur eftirlit með traustþjónustuveitendum sem hafa staðfestu á íslensku yfirráðasvæði í samræmi við framangreind lög og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 (eIDAS reglugerð).

Fjarskiptastofu hefur jafnframt verið falið að koma á, viðhalda og birta traustlista. Á traustlista skulu m.a. birtar upplýsingar um fullgilda traustþjónustuveitendur ásamt upplýsingum um fullgildu traustþjónustuna sem þeir veita. Þannig geta neytendur auðveldlega nálgast upplýsingar um hverjir hafa stöðu fullgildra traustþjónustuveitenda á Íslandi og lúta eftirliti Fjarskiptastofu. Í dag er Auðkenni ehf. eini traustþjónustuveitandinn sem öðlast hefur fullgilda stöðu af íslenskum stjórnvöldum og skráður er á íslenskan traustlista.

 

Íslenska traustlistann er hægt að sjá hér á vef Fjarskiptastofu.