Hoppa yfir valmynd

PFS ákveður fast mánaðargjald fyrir talsíma 1. apríl 2000

Fréttasafn
28. mars 2000

PFS ákveður fast mánaðargjald fyrir talsíma 1. apríl 2000

Póst- og fjarskiptastofnun er falið með ákvæði til bráðbirgða í lögum um fjarskipti að ákvarða fast mánaðargjald fyrir talsíma fyrir 1. apríl 2000. Gjaldið skal ákveðið með hliðsjón af kostnaðartölum sem Landssíma Íslands hf. er gert að leggja fram.
Tilgangurinn er að leiðrétta verð fyrir mismunandi þætti talsímaþjónustu svo að verðin séu hvert fyrir sig sem næst reiknuð út frá kostnaði en á liðnum árum hefur fastagjald fyrir síma verið niðurgreitt af hagnaði af öðrum þáttum símaþjónustu m.a. símtölum til útlanda. Nú þegar opnað hefur verið fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði geta millifærslur af þessu tagi verið hindrun í vegi eðlilegrar samkeppni og er leiðrétting á verðlagningu fyrir talsíma þess vegna hagsmunamál fyrir alla aðila markaðarins og almennt fyrir neytendur. Þegar fastagjald er hækkað og niðurgreiðsla á sér ekki lengur stað er rökrétt að önnur verð fyrir símaþjónustu lækki að sama skapi. Hliðstæð endurskoðun á verði fyrir talsímaþjónustu hefur átt sér stað í flestum löndum Vestur Evrópu.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með aðstoð ráðgjafa frá fyrirtækinu Deloitte & Touche yfirfarið kostnaðartölur Landssíma Íslands hf. og ákveðið að fast mánaðargjald fyrir talsíma skuli vera sem hér segir:

Frá 1. apríl 2000
 Fyrir heimilissíma kr. 820
 Fyrir atvinnusíma kr. 1.365

Frá 1.janúar 2001
  Fyrir heimilissíma kr. 1.111
  Fyrir atvinnusíma kr. 1.667
Virðisaukaskattur er innifalinn.

Fastagjald fyrir heimilissíma er nú kr. 533 á mánuði og fyrir atvinnusíma kr. 1.066 á mánuði.
Landssíma Íslands hf. verður heimilt að fella niður notkun sem hingað til hefur verið innifalin í fastagjaldi.
Póst- og fjarskiptastofnun beinir þeim eindregnu tilmælum til Landssíma Íslands hf. að hækkanir á föstu mánaðargjaldi og niðurfelling á innifalinni notkun í fastagjaldi verði gerð í áföngum fyrir aldraða og örorkulífeyrisþega.

Fréttatilkynning dags. 28. mars 2000.