Hoppa yfir valmynd

PFS gerir ekki athugasemdir við gjaldskrárhækkun Landsímans

Fréttasafn
07. september 1998

PFS gerir ekki athugasemdir við gjaldskrárhækkun Landsímans

Í síðasta mánuði tilkynnti Landssími Íslands hf um hækkun á gjöldum fyrir símtöl í upplýsinganúmerin 114 fyrir erlend númer og 118 fyrir innlend númer. Meðalhækkun var talin nema 15% fyrir símtöl í 114 og 24% fyrir 118. Af þessu tilefni óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir upplýsingum um tekjur og útgjöld af þessari þjónustu. Þá hefur stofnunin safnað upplýsingum um gjöld fyrir samsvarandi þjónustu í nokkrum nágrannalöndum til þess að hægt væri að gera samanburð við íslensku gjaldskrána.

Á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að gera ekki athugasemd við gjaldskrárhækkunina. Þar eð tölurnar benda til þess að þrátt fyrir hækkunina verði enn nokkur hallarekstur af upplýsingaþjónustunni beinir stofnunin því til Landssímans að láta henni í té eftir næstu áramót tölur um afkomu þjónustunnar á síðustu mánuðum ársins. Verði enn um halla á þjónustunni að ræða mun verða óskað eftir ráðstöfunum af hálfu Landssímans til að jafna út rekstrartapið, t.d. með hagræðingu, svo að ekki verði framhald á niðurgreiðslu á þessari þjónustu, sem skerðir möguleika annarra aðila að keppa við Landssímann á þessu sviði. Póst- og fjarskiptastofnun væntir þess að lækkaðar niðurgreiðslur á upplýsingaþjónustunni sem síðasta gjaldskrárhækkun leiddi af sér skili sér til notenda í formi lægri gjalda fyrir aðra þjónustu.

Gjöld fyrir sambærilega þjónustu í næstu löndum við okkur, þ.e. Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Noregi og Svíþjóð eru sem hér segir í íslenskum krónum að meðtöldum virðisaukaskatti en hann er ekki jafnhár í öllum löndunum.

 

 

Innlend númer

Erlend númer

Bretland

41,93

(upplýsingar um 2 númer)

95,79

(upplýsingar um 2 númer)

Danmörk

38,22 byrjunargjald og

73.80 á mínútu (daggjald) númer

sama gjald og fyrir innlend

Írland

34.73 fyrir hvert uppkall

(upplýsingar um 3 númer) númer

sama gjald og fyrir innlend

Noregur

3,63 byrjunargjald og

81,69 á mínútu

3,63 byrjunargjald og

99,84 á mínútu

Svíþjóð

26.63 byrjunargjald og

99.84 á mínútu (daggjald)

53.25 byrjunargjald og

142.00 á mínútu (daggjald)

Á Írlandi eru fjögur fyrstu símtöl á hverju 2. mánaða tímabili innifalin í föstu afnotagjaldi fyrir síma.

Ef gert er ráð fyrir að hvert símtal í upplýsingaþjónustuna til að fá eitt símanúmer taki 30 sek verður samanburður milli Íslands og hinna landanna eftirfarandi:

 

 

Innlend númer

Erlend númer

Bretland

41,93

95,79

Danmörk

75.12

75,12

Írland

34,73

34,73

Ísland

29,88

22,41

Noregur

44,48

53,55

Svíþjóð

76,55

124,25

 

Samkvæmt gildandi lagaákvæðum getur Póst- og fjarskiptastofnun sett þak á gjaldskrá fyrir upplýsingaþjónustuna, ef hún er ekki í samræmi við gjaldskrá nágrannalandanna. Taflan sýnir að ekki er þörf fyrir aðgerðir af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Fréttatilkynning 7. september 1998