Hoppa yfir valmynd

Farsímanotendur Tals hf. skráðir í símaskrá

Fréttasafn
19. ágúst 1998

Farsímanotendur Tals hf. skráðir í símaskrá

19. ágúst 1998
Fréttatilkynning
 
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt Landssíma Íslands hf. að fyrirtækinu sé heimilt að skrá í símaskrá Landssímans áskrifendur í GSM farsímakerfi Tals hf. Það skilyrði er sett að áskrifendur Tals hf leggi fram skriflega beiðni um skráningu.  Tölvunefnd hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun að hún geri ekki athugasemd við þessa afgreiðslu.
Landssíma Íslands ber að taka gjald fyrir skráninguna sams konar og er tekið fyrir aukalínur í símaskrána enda sé það í samræmi við tilkostnað.
Vegna umfjöllunar um þetta mál í fjölmiðlum telur Póst- og fjarskiptastofnun rétt að upplýsa að Tali hf ber samkvæmt ákvæði í leyfisbréfi sínu að tryggja að öllum fyrirspurnum um símanúmer í GSM þjónustu Tals hf sé svarað allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Einnig skal tryggja að áskrifendur Tals hf eigi aðgang að upplýsingaþjónustu í öðrum fjarskiptanetum og að áskrifendur þeirra eigi aðgang að upplýsingaþjónustu Tals hf.