Hoppa yfir valmynd

Samráð um viðmiðunartilboð Mílu fyrir aðstöðuleigu

Fréttasafn
28. september 2022

Samráð um viðmiðunartilboð Mílu fyrir aðstöðuleigu

Mynd með frétt

Fjarskiptastofu hefur borist uppfært viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu. Í því máli sem hér er til umfjöllunar eru skilmálar viðmiðunartilboðsins til meðferðar, aðrir en þeir er snúa að verðum sem ákvörðuð eru af Fjarskiptastofu. 

Fjarskiptastofa hefur ekki lagt endanlegt mat á viðmiðunartilboðið í heild sinni en leggur til breytingu um að fyrirvari á verðbreytingum fari úr 30 dögum í 60 daga til samræmis við önnur viðmiðunartilboð Mílu. Stofnunin áskilur sér þó rétt til þess að gera breytingatillögur síðar við meðferð málsins. Komi til þess verður haft sérstakt samráð um breytingartillögur Fjarskiptastofu.

Helstu breytingarnar varða öryggis- verklags- og umgengnisreglur, rafræna umsóknarferlið á þjónustuvef Mílu og rafræna undirskrift. Einnig er settur inn texti varðandi þyngd á loftnetum, loftnetsmögnurum og meðfylgjandi búnaði. Þá eru orðalagsbreytingar víða í viðmiðunartilboðinu og er m.a. nafninu á því breytt í „Viðmiðunartilboð fyrir aðstöðuleigu“.

Til samanburðar má sjá gildandi viðmiðunartilboð um aðgang að hýsingu á vef Mílu:  https://www.mila.is/vorur/samningar/
Hér með eru fjarskiptafyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sér efni viðmiðunartilboðsins og er þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við skilmála þess, sbr. 24. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 19. október nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)fjarskiptastofa.is). Fjarskiptastofa mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjölin:
Viðmiðunartilboð aðstöðuleiga (grunnskjal)
Viðauki 1 - Grunnþjónusta
Viðauki 2 - Verðskrá
Viðauki 3 - Verklags- og öryggisreglur
Viðauki 4 - Tækjarými Mílu
Viðauki 5 - Umsókn og afgreiðsla
Viðauki 6 - Umgengnisreglur