Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða samráðs um lokun GSM og 3G þjónustu

Fréttasafn
23. nóvember 2022

Niðurstaða samráðs um lokun GSM og 3G þjónustu

Mynd með frétt

Í febrúar 2022 efndi Fjarskiptastofa til opins samráðs um áætlun um lokun GSM (2G) og 3G þjónustu. Tilgangur samráðsins var að tryggja notendum fjarskiptaþjónustu ákveðinn fyrirsegjanleika varðandi lokun kerfanna. Sú áætlun sem var kynnt í samráðinu var unnin í samvinnu Fjarskiptastofu og þeirra fjarskiptafyrirtækja sem reka almenn farnetskerfi hér á landi, þ.e. Nova, Síminn og Vodafone. Áætlunin fól í sér að unnið yrði að útfösun GSM og 3G á næstu árum og að GSM þjónustu verði alfarið lokað í árslok 2024 og 3G í árslok 2025.

Umsagnir um áætlunina bárust frá átta aðilum. Flestir þeirra óskuðu eftir að lokun GSM og 3G kerfanna yrði frestað um nokkur ár. Fjarskiptastofa fundaði með þeim umsagnaraðilum sem þess óskuðu. Fjarskiptastofa fundaði síðar með viðkomandi fjarskiptafélögum og kynnti þeim framkomnar athugasemdir.

Fjarskiptafyrirtækin telja útilokað að koma til móts við ýtrustu kröfur umsagnaraðila. Fyrirtækin telja sér ekki fært að fresta útfösun nema að því leyti að bæði GSM og 3G þjónustu verði hætt 2025. Þannig verði lokun GSM frestað um eitt ár frá fyrri áætlunum.

Að mati Fjarskiptastofu eru ekki til staðar lagaheimildir til þess að krefjast áframhaldandi reksturs á tilteknum farnetslausnum lengur en fjarskiptafyrirtækin telja hagkvæmt og/eða framkvæmanlegt, m.a. með tilliti til viðhalds og aðgangs að nauðsynlegum varahlutum.

Ákvörðun tímasetningar lokunar GSM og 3G þjónustu er alfarið fjarskiptafélaganna. Það er því þeirra ákvörðun að loka bæði GSM og 3G þjónustu í lok árs 2025, en á þeim tímapunkti verða tæp fjögur ár liðin frá því að áform um lokun voru kynnt opinberlega í samráði Fjarskiptastofu.

Fjarskiptastofa hvetur viðkomandi fjarskiptafyrirtæki til þess að vera í góðu sambandi við viðskiptavini sína um framhaldið, taka tillit til athugasemda þeirra og skoða sérstaklega áætlanir um lokun út frá staðsetningum og hugsanlega frekari frestun lokana á ákveðnum svæðum. Fjarskiptastofa mun sýna sveigjanleika varðandi tímasetningar sérstakra tíðniheimilda til útfösunar ef þörf verður á því.

Frekari upplýsingar um samráðið, umsagnir og niðurstöðu.