Hoppa yfir valmynd

Ný tölfræðiskýrsla fyrir árið 2022 um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum

Fréttasafn
15. september 2023

Ný tölfræðiskýrsla fyrir árið 2022 um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum

Þann 15. september 2023 kom út skýrsla sem Fjarskiptastofa (FST) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er fjórtánda árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna er borin saman. 

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta. 

Mikil aukning varð á fjölda mínútna í farnetum hjá öllum löndunum miðað við höfðatölu á árunum 2020 og 2021 sem líklega má rekja til fjarvinnu vegna kórónuveirunnar þar sem margir íbúar landanna störfuðu að heiman. Á árinu 2022 fækkar hins vegar mínútum á farneti í öllum löndunum eftir að dregið hafði úr fjarvinnu eftir lok kórónuveirunnar. Gagnamagnsnotkun í farnetum heldur áfram að aukast hratt í öllum löndunum og er Ísland í öðru sæti af Norðurlöndunum á eftir Finnlandi en þeir bera  höfuð og herðar yfir hinar þjóðirnar.

Notkun á M2M hefur verið frekar lág hér á landi miðað við samanburðarþjóðirnar en er að aukast og því er ljóst að það er möguleiki á talsverðum vexti á þessum markaði hérlendis, m.a. með innleiðingu nýrra staðla fyrir M2M þjónustu hérlendis.

Notkun fastlínusíma heldur áfram að minnka í öllum löndunum bæði hvað varðar fjölda áskrifta og fjölda mínútna og þá aðallega hjá Íslendingum og Svíum.

Íslendingar skera sig úr í samanburði við aðrar þjóðir í skýrslunni þegar kemur að háhraðatengingum með auglýstan niðurhalshraða 30 Mbit/sek eða meira ef miðað er við per heimili. Sama á við um niðurhalshraða 100 Mbit/sek per heimili en Svíar koma þar næst á eftir Íslandi, Ísland er svo í sérflokki þegar kemur að háhraðainternettengingum með auglýstan niðurhalshraða 1 Gbps ef miðað er við per heimili.

Ísland er efst ásamt Noregi í samanburði við hin Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin í fjölda IPTV áskrifta ef miðað er við höfðatölu en þessum áskriftum hefur farið fækkandi hér á landi á síðastliðnum árum en fjölgað í öðrum löndum t.d. í Noregi og Svíþjóð.

Þegar kemur að útbreiðslu háhraðaneta með 30 Mbit/sek eða meira eru 99% íslenskra heimila tengd slíkum netum. Hvað varðar útbreiðslu háhraðaneta er í skýrslunni gerður greinarmunur á „homes connected“ og „homes passed“, tölurnar fyrir Ísland miða við skilgreininguna „homes connected“ sem þýðir að inntak heimtaugar netsins er frágengið fyrir innan útvegg. „Homes passed“ sem önnur lönd nota þýðir hins vegar að tenging er til staðar úti í götu og mögulegt að fá hana lagða inn í hús með skömmum fyrirvara. Tölur landanna eru þó sambærilegar því í báðum tilvikum er útbreiðsluverkefni lokið og heimili getur pantað þjónustu þar sem netið verður fulltengt inn á heimilið þegar pöntun berst. 

Samkvæmt ofangreindum skilgreiningum er Ísland og Noregur á toppnum með útbreiðslu til 99% heimila, Danmörk kemur þar næst á eftir með 98%. 

Danir eru í fyrsta sæti hvaða varðar fjárfestingar á árinu 2022 og Noregur í öðru sæti en aukning varð á fjárfestingum hér á landi eftir að dregið hafði úr þeim eftir miklar fjárfestingar árin á undan.

Sjá skýrsluna í heild (á ensku): Telecommunications Markets in the Nordic and Baltic Countries 2022.pdf

 
Tölfræðina má einnig skoða í gagnagrunni hennar sem geymdur er hjá systurstofnun FST í Svíþjóð, Post- og telestyrelsen. 

Á vef FST má einnig nálgast allar samanburðarskýrslurnar frá upphafi á einum stað.