Hoppa yfir valmynd

Nova brotlegt gegn reglum um númeraflutning – áætlun um úrbætur og samkomulag um verklag

Fréttasafn
22. desember 2023

Nova brotlegt gegn reglum um númeraflutning – áætlun um úrbætur og samkomulag um verklag

Fjarskiptastofa hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2023. Ákvörðunin varðar kvartanir þriggja einstaklinga vegna rétthafabreytinga er höfðu verið framkvæmdar af Nova hf. (hér eftir Nova) án samþykkis rétthafa.

Um númera og þjónustuflutninga gilda reglur nr. 1112/2022. Ákvæði 10. og 11. gr. reglnanna fjalla um rétthafabreytingar og þjónustusamninga við rétthafa en á fjarskiptamarkaði er framkvæmdin almennt sú að skýr greinarmunur er gerður á greiðanda og rétthafa númers. Samkvæmt 10. gr. er fjarskiptafyrirtækjum ekki heimilt að skrá annan endanotanda sem rétthafa númers, nema rafrænt eða skriflegt samþykki þess rétthafa sem afsalar sér númerinu liggi fyrir.

Á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga er Nova veitti Fjarskiptastofu við úrlausn málsins varð Fjarskiptastofu ljóst að verklag Nova vegna greiðenda og/eða rétthafabreytinga uppfyllti ekki skilyrði 10. gr. reglna nr. 1112/2022, hvað varðar skyldu fjarskiptafyrirtækja til þess að afla ótvíræðs og sannanlegs samþykkis rétthafa fyrir rétthafabreytingu. Þar sem að Fjarskiptastofa hefur áður haft til meðferðar sambærileg mál er varða ófullægjandi framkvæmd Nova við rétthafabreytingar taldi stofnunin óhjákvæmilegt að leggja stjórnvaldssekt á félagið. Hins vegar á grundvelli viðurkenningar Nova á brotinu, samstarfsvilja Nova í málinu, áætlun félagsins um úrbætur á verkferlum um rétthafabreytingar og bætur til aðila þessa máls, taldi Fjarskiptastofa hæfilegt að lækka fjárhæð boðaðrar sektar um helming.

Til viðbótar gerði Fjarskiptastofa samkomulag við Nova samhliða ákvörðuninni. Samkomulagið felur í sér að ef sambærileg mál koma upp á gildistíma samkomulagsins skuldbindur Nova sig til að gera ráðstafanir til að leysa úr þeim með farsælum hætti fyrir neytendur. Samkomulagið er birt sem viðauki við ákvörðunina.

Ákvörðun FST nr. 12/2023 Rétthafabreytingar Nova hf. (pdf)