Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa samþykkir heildsölugjaldskrá Mílu fyrir ljósbylgjur og samhliða breytingu á viðmiðunartilboði leigulína

Fréttasafn
09. febrúar 2024

Fjarskiptastofa samþykkir heildsölugjaldskrá Mílu fyrir ljósbylgjur og samhliða breytingu á viðmiðunartilboði leigulína

Með ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 1/2024 samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu hf. (Mílu) á heildsöluaðgangi að ljósbylgjum Mílu á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína. Með ákvörðuninni er einnig samþykkt breyting á viðmiðunartilboði Mílu fyrir leigulínur.

Ljósbylgja er samband í bylgjulengdarkerfi Mílu sem notar DWDM tækni. Boðið er upp á ljósbylgju á tilgreindum stöðum í stofnneti Mílu og eru fjórir gagnaflutningshraðar í boði 1, 10, 25 og 100 Gb/s og sex vegalengdarflokkar. Samkvæmt niðurstöðu í kostnaðargreiningu Mílu sem Fjarskiptastofa hefur nú samþykkt munu mánaðarverð vera á bilinu frá 44.494 kr. til 611.610 kr. eftir gagnaflutningshraða og vegalengd. Stofngjöld verða 96.386 kr.

Í meðfylgjandi ákvörðun er forsendum og aðferðum við greiningu á kostnaði lýst nánar. Í Viðauka I er lýsing á því hvernig vegið meðaltal fjármagnskostnaðar fyrir árið 2022 er ákvarðað. Hin nýja heildsölugjaldskrá Mílu tekur gildi þann 10. mars næstkomandi en Míla hefur þegar sent út tilkynningu um gildistökuna með tilskildum fyrirvara.

Frumdrög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir ljósbylgjur og breytingu á viðmiðunartilboði leigulína fór í innanlandssamráð sem stóð frá 24. nóvember til 27. desember 2023. Athugasemdir bárust frá Nova hf. (Nova). Fjarskiptastofa sendi athugasemdirnar til umsagnar hjá Mílu. Í viðauka II má finna athugasemdir Nova, andsvör Mílu og afstöðu Fjarskiptastofu. Í viðaukum III til V eru síðan tilgreindar þær breytingar sem gerðar voru á viðmiðunartilboði Mílu.

Þann 9. janúar sl. voru ákvörðunardrögin send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs. Samráðinu er lokið og hefur Fjarskiptastofa þegar móttekið álit ESA sem fylgir með í Viðauka VI við ákvörðun þessa. ESA gerði engar athugasemdir við ákvörðunardrögin en hvatti Fjarskiptastofu til að ráðast í nýja markaðsgreiningu á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína hið fyrsta.

Ákvörðun FST nr.1/2024 um kostnaðargreiningu og breytingu á viðmiðunartilboði fyrir ljósbylgjur
Viðauki I - Vegið meðaltal fjármagnskostnaðar
Viðauki II - Athugasemdir úr innanlandssamráði, andsvör Mílu og afstaða FST
Viðauki III - Breytingar á viðauka 1 í viðmiðunartilboði leigulína
Viðauki IV - Breytingar á viðauka 3 í viðmiðunartilboði leigulína
Viðauki V - Breytingar á viðauka 2a í viðmiðunartilboði leigulína
Viðauki VI - Álit ESA