Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa efnir til samráðs um vefskil verðupplýsinga

Fréttasafn
11. janúar 2023

Fjarskiptastofa efnir til samráðs um vefskil verðupplýsinga

Mynd með frétt

Með 70. grein nýrra laga um fjarskipti, nr. 70/2022 er Fjarskiptastofu veitt heimild til að  framkvæma verðsamanburð á helstu verðum fjarskiptaþjónustu til neytenda eða að fela óháðum aðila að útbúa slíkan samanburð.

Í samræmi við lögin hefur FST útvistað verkefninu til vefsíðunnar Aurbjargar, sem hefur til þessa og á eigin vegum haldið úti samanburði á verðum farnetsþjónustu. Vefsíðan Aurbjörg er rekin af fyrirtækinu Two Birds ehf. í því markmiði að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða neytendur við ákvarðanir. Ýmis þjónusta Aurbjargar er veitt gegn áskriftargjaldi, en umræddur verðsamanburður verður öllum opin.

Í reglum nr. 1244/2022 sem settar voru þann 2. nóvember 2022 er í 4. gr reglnanna Fjarskiptastofu heimilað að krefja fjarskiptafyrirtæki til að afhenda verðskrárupplýsingar gegnum vefskil með samræmdu sniðmáti. Drög að reglunum voru auglýst til samráðs þann 6. október 2022. Samráð stóð yfir til 20. október 2022 en engar athugasemdir bárust.

Aurbjörg hefur nú gert drög að slíku sniðmáti vefskila og er það hér með birt til samráðs meðal hagsmunaaðila.

Þær gerðir þjónustu sem samanburður nær til eru almennar áskriftir sem neytendum standa til boða á hverjum tíma fyrir heimasíma, farsíma, internet og pakka þar sem margs konar þjónusta er seld gegn einu verði.

Hagsmunaaðilum gefst nú kostur á að fara yfir sniðmátið og koma með athugasemdir og tillögur til breytinga. Frestur til að senda inn athugasemdir er til 27. janúar n.k. Athugasemdir mega berast með tölvupósti á netfangið : gudmann@fjarskiptastofa.is