Fréttasafn
12. mars 2001
Úrskurður í máli Landsíma Íslands gegn Póst og fjarskiptastofnun
Nánar
Nr. 2/2000: Landssími Íslands hf. gegnPóst- og fjarskiptastofnun Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála kvað 2.mars 2001 upp úrskurð í ágreiningsmáli nr. 2/2000 Landssími Íslands hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun. Úrskurðarorð eru: "Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar frá 6. og 20. desember 2000 um breytingar á fastagjaldi fyrir talsíma eru felldar úr gildi. Ákvörðun PFS frá 27. mars 2000 skal standa óbreytt. Úrskurð þennan þarf að bera undir dómstóla innan sex mánuða frá því að aðilar fengu vitneskju um hann." Úrskurðurinn er birtur í heild á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.
14. febrúar 2001
Íslandssími ehf fær leyfi til að reka farsímaþjónustu og fjarskiptanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag veitt Íslandssíma GSM ehf. leyfi til að reka GSM 900 fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet. Leyfið er veitt til 10 ára. Fyrir leyfið skal greiða sérstakt leyfisgjald sem ákveðið var með lögum nr. 152/2000 og nemur kr. 16,6 milljónum. Leyfisgjaldið rennur til ríkissjóðs. Landssími Íslands hf. og Tal hf. greiddu árið 1997 samsvarandi upphæð fyrir leyfi sín. Íslandssími GSM ehf. fékk á síðasta ári leyfi til að reka DCS 1800 farsímakerfi og þjónustu sem opnuð verður almenningi eftir næstu mánaðarmót. Í nýja leyfinu eru sérstök ákvæði um útbreiðslu kerfis og þjónustu. Íslandssími GSM ehf. skal innan 4 ára hafa byggt dreifikerfi sem gerir honum kleift að þjóna a.m.k. 80% þjóðarinnar miðað við fastan búsetustað. Ekki er samt gerð krafa um að Íslandssími GSM ehf. bjóði bæði GSM 900 og DCS 1800 þjónustu á sama svæðinu. Til þjónustusvæðis leyfishafa verða innan 4 ára að teljast a.m.k. 15 sveitarfélög utan Reykjavíkur sem hafa 1000 íbúa eða fleiri. Allir íbúar í þessum sveitarfélögum skulu njóta sambærilegrar þjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti eftir umsóknum um eitt GSM 900 farsímaleyfi í ágúst 2000 og var umsóknarfrestur til 15. desember 2000. Aðeins ein gild umsókn barst.
8. janúar 2001
Upplýsingar vegna kvörtunar um jólapóst
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun telur rétt að upplýsa fjölmiðla um niðurstöðu athugunar stofnunarinnar vegna kvörtunar Ólafs Guðmundssonar yfir þjónustu Íslandspósts hf. þar eð kvörtun Ólafs hefur fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum. Ólafur Guðmundsson kvartaði yfir þremur atvikum, mistökum í afhendingu myntar sem hann pantaði hjá Íslandspósti hf., mistökum í afhendingu bögguls sem honum var sendur frá Sauðárkróki og skemmda á böggli sem Ólafur sendi með hraðflutningsþjónustu TNT til Bandaríkjanna. Póst- og fjarskiptastofnun óskaði eftir upplýsingum frá Íslandspósti hf. vegna þessara atvika en það skal tekið fram að hraðflutningsþjónusta fellur ekki undir lög um póstþjónustu og þar af leiðandi ekki undir verksvið stofnunarinnar. Íslandspóstur hf. hefur viðurkennt að mistök hafi leitt til þess að Ólafi Guðmundssyni hafi ekki verið tilkynnt um að mynt, sem hann pantaði og ætlaði að sækja sjálfur á afgreiðslu Íslandspósts, væri tilbúin til afhendingar. Í stað þess var hún send með ábyrgðarbréfi sem í fyrsta lagi hafði í för með sér aukakostnað fyrir Ólaf og í öðru lagi að í stað þess að geta nálgast hana 10. desember 2000 barst hún Ólafi fyrst 16. desember. Íslandspóstur hf. hefur tilkynnt að gjald fyrir ábyrgðarsendinguna verði endurgreitt. Endanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir um afhendingu böggulsins sem Ólafur Guðmundsson sendi í byrjun desember með hraðflutningsþjónustu TNT til Bandaríkjanna og hann telur að hafi ekki verið afhentur með eðlilegum hætti. Íslandspóstur hefur upplýst að málið sé enn í athugun. Böggull var póstlagður á Sauðárkróki 18. desember 2000 til Ólafs Guðmundssonar og sendur heim til hans í Kópavogi 20. desember 2000. Ólafur telur að ekki hafi verið hringt dyrabjöllu eða bankað á dyr en tilkynningu stungið inn um bréfarifu um böggulinn. Ekki voru á miðanum upplýsingar um hvar hægt væri að nálgast böggulinn. Ólafur fór næstu daga ítrekað á pósthúsið í Kópavogi en böggulinn fannst ekki þrátt fyrir margar símhringingar í póstmiðstöð Íslandspósts hf. Böggullinn fékkst að lokum afhentur á pósthúsinu 27. desember. Samkvæmt upplýsingum Íslandspósts segist bílstjórinn sem fór með böggulinn til Ólafs 20. desember hafa bæði hringt dyrabjöllu og bankað á dyr án þess að geta vakið á sér athygli. Hann hafi þá hringt í póstmiðstöðina og spurt hvað hann ætti að gera og fengið þau fyrirmæli að reyna ekki frekar en skilja eftir miða um böggulinn. Póst- og fjarskiptastofnun hefur spurt Íslandspóst hvort staðfest hafi verið af viðkomandi starfsmanni póstmiðstöðvarinnar að símtalið hafi átt sér stað og hefur verið fullvissuð um að svo hafi verið. Stofnunin telur sig ekki geta ályktað um það hvað valdið hafi þessum erfiðleikum að koma bögglinum til skila. Íslandspóstur hf. hefur gefið skýringar á því hvers vegna böggullinn er fyrst tilbúinn til afhendingar á pósthúsinu í Kópavogi 27. desember 2000. Þegar böggullinn kom tilbaka úr árangurslausri heimsendingu 20. desember eru gerð þau mistök að hann er settur með bögglum sem áttu eftir að fara í útkeyrslu. Þar liggur böggullinn þangað til kl. 16,46 þann 22. desember þegar hann er skráður í útkeyrslu á ný og það uppgötvast að útkeyrsla hafi þegar átt sér stað en án árangurs. Böggulinn er nú settur með öðrum bögglum sem fara áttu í pósthúsið í Kópavogi og er að lokum afhentur Ólafi þar 27. desember eins og fyrr segir. Þar sem pósthúsið í Kópavogi var lokað 23. desember skiptir það hér ekki öllu máli að böggullinn var ekki sendur þegar í stað í pósthúsið þegar mistökin uppgötvast eins og þó hefði verið eðlilegt. Íslandspóstur hefur harmað þessi mistök og sagst muni leita leiða til að þau endurtaki sig ekki. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þar að auki móttekið greinargerð Íslandspósts um dreifingu á jólapósti í desember 2000. Þar kemur fram að um 200 þús. bögglar hafi verið póstlagðir í desember þar af um helmingur síðustu vikuna fyrir jól en þetta hafi skapað álag umfram það sem áætlað hafi verið og haft í för með sér vandræði í dreifingu. Talið er að ekki hafi tekist að afhenda um 2,5% fyrir jól eða um 2.500 böggla. Á síðasta ári tók Íslandspóstur hf. upp það fyrirkomulag að heimsenda böggla og ábyrgðarbréf en áður voru viðtakendum sendir miðar um að vitja sendinganna á næsta pósthús. Póst- og fjarskiptastofnun hefur rætt hið nýja fyrirkomulag oftar en einu sinni við starfsmenn Íslandspósts og talið sýnt að erfiðleikar við afhendingu væru minni háttar. Kvörtun Ólafs og annarra sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum benda hins vegar til þess að sumt megi betur fara og vill Póst- og fjarskiptastofnun sérstaklega benda á nauðsyn þess að á miðum sem skildir eru eftir þegar viðtakandi er ekki heima komi greinilega fram hvar vitja megi sendingarinnar. Aðalvandamálið virðist hins vegar vera að póstmiðstöðin í Reykjavík réð ekki við það magn böggla sem barst vikuna fyrir jól. Álagið var að vísu meira en reiknað hafi verið með og stafar það líklega að hluta til af því að Þorláksmessu bar upp á laugardegi. Íslandspóstur hf. viðurkennir í greinargerð sinni að í álagi síðustu viku fyrir jól hafi margir flöskuhálsar komið fram í meðhöndlun böggla í póstmiðstöðinni í Reykjavík og einnig áberandi veikleiki í flokkun sendinga sem ekki tókst að afhenda við fyrstu heimsendingu. Póst- og fjarskiptastofnun telur að erfiðleikar við heimsendingar hafi hugsanlega þegar verið komnir fram vikuna þar á undan sbr. að ábyrgðarbréf til Ólafs Guðmundssonar er 4 daga í dreifingu innanbæjar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur með bréfi til Íslandspósts hf. dagsett í dag komið tveimur ábendingum á framfæri. Í fyrsta lagi kanni Íslandspóstur hf. hvernig bæta megi fyrirkomulag við flokkun böggla í póstmiðstöðinni til þess að koma í veg fyrir endurtekningu á þeim erfiðleikum sem komu upp fyrir síðustu jól. Í öðru lagi er bent á að Þorláksmessu beri á þessu ári upp á sunnudag og að það sé þess vegna nauðsynlegt að almenningi verði kynnt rækilega fyrirfram með hvaða hætti móttöku pósts og dreifingu verði háttað fyrir næstu jól. Með hliðsjón af væntingum landsmanna um góða póstþjónustu fer stofnunin þess á leit að Íslandspóstur íhugi möguleika þess að halda uppi starfsemi laugardaginn 22. desember og á Þorláksmessu 2001 enda er gefið til kynna í greinargerð Íslandspósts að þessi möguleiki verði tekin til athugunar. Póst- og fjarskiptastofnun telur ekki ástæðu til frekari aðgerða stofnunarinnar að sinni.
2. janúar 2001
Verklagsferill fyrir heimtaugaleigu og hýsingu
Nánar
Vinnuhópur, sem Póst- og fjarskiptastofnun kom á fót í ágúst 2000 með þátttöku fjarskiptafyrirtækja sem talin voru eiga hagsmuna að gæta, hefur náð samkomulagi um verklag fyrir heimtaugaleigu. Heimtaugar eru koparsímalínur sem tengja notendur við næstu símstöð. Slíkar línur hafa nær undantekningarlaust verið lagðar af Landssíma Íslands hf. Samkvæmt verklagsreglunum geta fjarskiptafyrirtæki sem ekki eiga hagkvæman kost á eigin heimtaugum leigt þær af Landssíma Íslands hf. annað hvort til að veita talsímaþjónustu eða gagnaflutningsþjónustu eins og ADSL. Jafnframt gera reglurnar ráð fyrir að Landssími Íslands hf. leigi fjarskiptafyrirtækjunum aðstöðu fyrir símabúnað þeirra í símstöðvum þar sem því verður við komið en að öðrum kosti koma fjarskiptafyrirtækin sér fyrir í nágrenni símstöðvar. Litið er á heimtaugaleigu sem mikilvægan áfanga í að koma á samkeppni á fjarskiptamarkaðinum og jafna aðstöðumun fyrirtækjanna. Reglur um heimtaugaleigu hafa verið í gildi í nokkrum löndum Vestur-Evrópu en munu taka gildi í flestum öðrum um þessi áramót. Símnotendur geta nú pantað talsímaþjónustu og/eða ADSL gagnaflutningsþjónustu hjá fleirum en einu fyrirtæki. Símnotendur gera samning við fjarskiptafyrirtæki um þjónustu sem þeir vilja þiggja hjá fyrirtækinu og það sendir umsókn um leigu á heimtaug símnotandans til Landssíma Íslands hf. Afhending heimtaugar skal eiga sér stað eigi síðar en 20 dögum eftir móttöku umsóknar fjarskiptafyrirtækisins. Undir verklagsreglurnar hafa skrifað Hringiðan ehf., Íslandssími hf. og Landssími Íslands hf. ásamt Póst- og fjarskiptastofnun. Öðrum fjarskiptafyrirtækjum er heimill aðgangur að samkomulaginu. Póst- og fjarskiptastofnun kann þakkir þeim fyrirtækjum sem tekið hafa þátt í störfum vinnuhópsins og lagt sitt af mörkum til að auka samkeppni á fjarskiptamarkaðinum.
20. desember 2000
Ekki verið að afturkalla gildandi rekstrarleyfi Tals hf.
Nánar
Með fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum í gær skýrði Póst- og fjarskiptastofnun frá umsóknum sem bárust eftir að auglýst var eftir umsóknum í þriðja farsímaleyfið í 900 MHz tíðnisviðinu. Umsóknarfrestur rann út 15. desember 2000 og bárust tvær umsóknir sem vísuðu til auglýsingarinnar, frá Íslandssíma ehf. og Tal hf. Tekið var sérstaklega fram í fréttatilkynningunni í gær að tvö leyfi hefðu áður verið veitt fyrir GSM farsímarekstri í 900 MHz tíðnisviðinu og að leyfishafar væru Landssími Íslands hf. og Tal hf. Þetta virðist hafa valdið þeim misskilningi hjá sumum að verið væri að afturkalla gildandi rekstrarleyfi Tals hf. Póst- og fjarskiptastofnun telur þess vegna rétt að staðfesta að rekstrarleyfi Tals hf. fyrir GSM farsíma í 900 MHz tíðnisviðinu sem upphaflega var gefið út 23. júlí 1997 er í fullu gildi og rennur ekki út fyrr en 31. desember 2007.
19. desember 2000
Umsókn Tals hf. um rekstrarleyfi fyrir GSM farsímaneti og þjónustu á 900 MHz hafnað
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti hinn 31. ágúst 2000 eftir umsóknum um rekstrarleyfi fyrir GSM farsímaneti og þjónustu í 900 MHz tíðnisviðinu. Umsóknarfrestur rann út 15. desember 2000 og bárust stofnuninni tvær umsóknir, frá Íslandssíma GSM ehf. og Tali hf. Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag tekið ákvörðun um að hafna umsókn Tals hf. vegna þess að gögn sem skila á samkvæmt útboðslýsingu fylgdu ekki umsókn félagsins. Tvö leyfi hafa áður verið veitt fyrir GSM farsímarekstri í 900 MHz tíðnisviðinu og eru leyfishafar Landssími Íslands hf. og Tal hf. Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar munu á næstunni fara yfir þau gögn sem fylgdu umsókn Íslandssíma GSM ehf. og taka afstöðu til þess hvort þau eru fullnægjandi. Áætlað er að þessari vinnun verði lokið fljótlega eftir áramót. Að lokinni þessari málsmeðferð verður gefið út leyfisbréf ef umsóknin telst fullnægjandi. FRÉTTATILKYNNING19.12.2000.
9. október 2000
Íslenskir bókstafir í textaskilaboðum farsíma
Nánar
Notkun íslenskra bókstafa í textaskilaboðum GSM-símkerfa í augsýn Eins og fram hefur komið í umræðum að undanförnu hefur hingað til ekki verið hægt að nota séríslenska bókstafi í textaskilaboðum GSM-símkerfa. Því ákvað Fagráð í upplýsingatækni að fela fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar í ráðinu að rannsaka hvað stæði í vegi fyrir því. Könnunin beindist að tveimur aðferðum sem eru notaðar til að koma texta um GSM-kerfi. Annars vegar SMS-þjónustunni, sem er mikið notuð í dag og gerir notendum mögulegt að senda texta á milli GSM-síma eða frá tölvu sem tengd er við Netið til GSM-síma, og hinsvegar þeirri aðferð sem í daglegu máli er kölluð WAP og gerir kleift að skoða sérútbúnar WAP-heimasíður þar sem m.a. má lesa texta. Við öflun gagna var haft samband við þá aðila sem reka GSM-kerfi á Íslandi í dag, þ.e. Landssímann hf. og Tal hf. Einnig var haft samband við innflytjendur og þjónustuaðila GSM-síma hérlendis sem og nokkra framleiðendur. Niðurstaða könnunarinnar er sú að lausn sé í sjónmáli við sendingar skilaboða með séríslenskum stöfum innanlands. Tæknin sem til þarf er þegar til staðar en til að hún muni nýtast þurfa bæði að koma til nýir GSM-símar, sem eru að koma á íslenskan markað um þessar mundir, og einnig mun verða nauðsynlegt að gera breytingar á SMS-búnaði í GSM-farsímakerfunum þannig að hann verði ekki flöskuháls við notkun séríslensku bókstafanna. Ekki er hægt að fullyrða sem stendur hvenær möguleiki mun gefast á því að senda séríslenska bókstafi milli landa. Varðandi lestur á WAP-heimasíðum má nefna að nú þegar eru fáanlegir GSM-símar hér á landi sem birta alla séríslenska stafi.
31. ágúst 2000
Umsókn um rekstrarleyfi fyrir farsíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir eftir umsóknum um þriðja rekstrarleyfið til að starfrækja farsímanet og þjónustu samkvæmt GSM staðli í 900 MHz tíðnisviðinu. Gögn verða afhent á skrifstofu stofnunarinnar Smiðjuvegi 68-70 í Kópavogi gegn gjaldi að upphæð kr. 50,000,00.Skrifstofan er opin daglega frá kl 8.30 til 16.30Frestur til að leggja inn umsóknir er til 15. desember 2000.