Fréttasafn
26. nóvember 2002
Gagnaveitan sækir ein um rekstrarleyfi fyrir þráðlaus notendakerfi á örbyglju
Nánar
Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju Frestur til að skila inn umsóknum um rekstarleyfi fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju, skv. auglýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar 19. október 2002, rann út 18. nóvember s.l. Ein umsókn barst, frá Gagnaveitunni ehf. Búist er við að afgreiðslu málsins verði lokið um mánaðarmótin nóvember/desember.
19. október 2002
Auglýsing
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir fyrirhugaða úthlutun á rekstrarleyfum fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju. Með vísan til 10. gr. laga um fjarskipti nr. 107/1999 auglýsir Póst- og fjarskiptastofnun eftir umsóknum um leyfi til reksturs þráðlausra notendakerfa á örbylgju, nánar tiltekið í tíðnisviðunum 3,5 Gigaherz og 10 Gigaherz. Á hverju þjónustusvæði verða veitt 1-2 leyfi í 3,5 Gigaherz sviðinu og að hámarki 6 leyfi í 10 Gigaherz sviðinu. Umsóknarfrestur er til 18. nóvember 2002 og má afhenda umsóknir í afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar til kl. 16 þann dag. Með hverri umsókn skal fylgja greiðsla að upphæð kr. 50.000. Þráðlaus notendakerfi tengja miðstöð leyfishafa við notendur á ákveðnu svæði og þjóna svipuðu hlutverki og heimtaugar í koparstrengjum. Þjónusta sem veitt er notendum samanstendur af talþjónustu og gagnaflutningi með bitahraða a.m.k. sambærilegum og í samnetinu. Upplýsingar um útboðið og skilmála má fá í afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar, Smiðjuvegi 68-70, Kópavogi. Sömu upplýsingar er að finna hér fyrir neðan: Upplýsingar fyrir umsækjendur um rekstrarleyfi fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju. Útgefið í október 2002 vegna auglýsingar um umsóknir um leyfi. (skjal á pdf formi)
28. ágúst 2002
Landsíminn frestar hækkun á leigu fyrir heimtaug til 1.des.
Nánar
Fréttatilkynning frá Póst og fjarskiptastofnun. Efni: Verðbreytingar á heimtaugarleigu Landssíma Íslands. Í framhaldi af tilkynningu Landssíma Íslands um hækkun á leigu heimtaugar frá 26. júlí sl sem taka átti gildi 1. september nk, þá hefur Landssíminn ákveðið að fara að tilmælum Póst og fjarskiptastofnunar um að fresta hækkuninni að sinni. Ráðgert er að forsendur verðbreytinga heimtaugarleigunnar liggi fyrir eigi síðar en 1. desember nk. Tíminn fram til 1. desember verður notaður í áframhaldandi greiningu á kostnaði heimtaugarleigunnar samanber reglugerð 960/2001 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja. Vinna við kostnaðargreininguna verður jafnframt tengd vinnu við gerð viðmiðunartilboðs fyrir heimtaugarleigu. Ráðgert er að gerð viðmiðunartilboðsins ljúki einnig fyrir 1. desember nk. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst og fjarskiptastofnunar
7. júní 2002
Almennar samkeppnisreglur gilda um eignatengsl fjarskiptafyrirtækja
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag svarað erindi sem Ragnar Aðalsteinsson hrl. sendi stofnuninni f.h. Tals hf. varðandi meint eignatengsl milli Landssíma Íslands hf. og Íslandssíma hf. Því var haldið fram af hálfu Tals hf. að eignatengsl væru komin á milli Landssíma Íslands hf. og Íslandssíma hf. með því að Landsbanki Íslands hf. væri nú stærsti hluthafinn í Íslandssíma hf. og Landsbanki Íslands hf. væri í meirihlutaeigu íslenska ríkisins sem ætti Landssíma Íslands hf. að stærstum hluta. Þetta taldi Tal hf. í andstöðu við ákvæði leyfisbréfa félaganna og fór fram á að Póst- og fjarskiptastofnun gerði viðeigandi ráðstafanir. Póst- og fjarskiptastofnun leitaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá viðkomandi leyfishöfum. Það var staðfest með upplýsingum frá Íslandssíma hf. að Landsbanki Íslands hf. er stærsti hluthafinn í félaginu. Bæði Landssími Íslands hf. og Íslandssími hf. mótmæltu því að Póst- og fjarskiptastofnun væri heimilt að beita fjarskiptafélög viðurlögum vegna athafna eigenda þeirra, sem fjarskiptafélögin sjálf gætu ekki haft áhrif á. Skilyrði leyfisbréfa um eignatengsl voru fyrst sett í leyfisbréf á árinu 1997. Á þeim tíma var talið að það þjónaði best samkeppnismarkmiðum fjarskiptalaga að búa svo um hnúta að eignatengsl væru bönnuð milli leyfishafa sem fengju úthlutun úr takmörkuðum tíðnisviðum. Leyfishafar hafa hingað til ekki véfengt heimildir stofnunarinnar til þess að setja skilyrði með þessum hætti. Nú þegar ný sjónarmið leyfishafa varðandi skilyrðin koma fram var ákveðið að skoða lagagrundvöll þeirra að nýju. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að heimildir sem stofnuninni eru fengnar í lögum um fjarskipti nr. 107/1999 væru ekki eins skýrar og ákjósanlegt væri hvað varðar afskipti af eigendum fjarskiptafyrirtækja. Jafnframt var litið til þess að þróun fjarskiptalöggjafar í Evrópu er í þá átt að afskipti eftirlitsstofnana á fjarskiptasviði af samkeppnismálum á fjarskiptamarkaði munu felast í markaðsgreiningu og mati á stöðu félaganna á markaði með tilliti til markaðsráðandi stöðu og verða lagðar sérstakar kvaðir á þá aðila sem metnir eru með markaðráðandi stöðu. Hvað varðar eignatengsl milli fjarskiptafyrirtækja, þá munu almennar samkeppnisreglur eiga við. Samkeppnisyfirvöld hér á landi geta í mörgum tilvikum gripið inn í ef bein eða óbein tengsl milli leyfishafa verða of sterk, sbr. t.d. 10. og 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Skv. nýrri tilskipun ESB um heimildir til fjarskiptareksturs, sem taka á gildi á næsta ári, er ekki gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækjum séu sett skilyrði í rekstrarleyfum varðandi eignaraðild. Það er því álit Póst- og fjarskiptastofnunar að nú, þegar sér fyrir endann á afskiptum stofnunarinnar af eignartengslum fjarskiptafyrirtækja sé ekki ástæða til þess að grípa til aðgerða vegna aðstæðna sem ráðast af aðgerðum hluthafa en ekki af aðgerðum leyfishafans sjálfs, enda hafa leyfishafar nú mótmælt lögmæti slíkra aðgerða og lagastoð þeirra er óskýr í núgildandi lögum. Því mun stofnunin breyta þeim ákvæðum rekstrarleyfa sem snerta eignaraðild, þannig að framvegis snúi þau aðeins að leyfishafanum sjálfum en ekki að eigendum hans. Póst- og fjarskiptastofnun 7. júní 2002
11. janúar 2002
Lína.Net hf. og Fjarski ehf. fá leyfi til að reka þráðlaus net
Nánar
Fréttatilkynning um úthlutun leyfa fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju. Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út tvö leyfi til reksturs þráðlausra notendakerfa á örbylgju. Leyfin voru veitt fyrirtækjunum Línu.Net hf. og Fjarska ehf. Auglýst var eftir umsóknum um leyfi til reksturs notendakerfa á 3,5 GHz og 10 GHz sviði í júní árið 2001. Tvær umsóknir bárust. Báðum umsækjendum var veitt leyfi til að reka notendakerfi og veita tal- og gagnaflutningsþjónustu á kerfunum. Lína.Net hf. fær heimild til að nota tíðnir á bilinu 3,400-3,450 / 3,500-3,550 GHz og nær leyfið til 5 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu auk Akureyrar. Fjarski ehf. fær heimild til að nota tíðnir á bilinu 3,473-3,500 GHz / 3,573-3,600 GHz og nær leyfið til 24 sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Heimildir til tíðninotkunar og þjónustusvæði eru ákveðin í samræmi við umsóknir fyrirtækjanna. Fyrir útgáfu leyfanna eru greidd leyfisgjöld skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs og gjald vegna kostnaðar við úthlutun, samtals kr. 420.000,- fyrir hvort leyfi.
15. október 2001
Númeraflutningur milli farsímaneta frestast
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun um að fresta gildistöku númeraflutnings milli farsímaneta til 1. júlí 2003. Númeraflutningur gefur áskrifendum talsíma möguleika á því að flytja með sér símanúmer sitt þegar þeir flytja sig milli fjarskiptafyrirtækja, milli landssvæða eða skipta um þjónustu. Númeraflutningur er talinn vera mikilvægur þáttur í því að auðvelda notendum að skipta um þjónustuveitanda og til þess að koma á virkri samkeppni. Póst- og fjarskiptastofnun setti 24. ágúst 2000 reglur um númeraflutning og eru helstu atriði þeirra eftirfarandi: 1. Frá 15. september 2000 er mögulegt fyrir símanotendur í fastanetum að flytja með sér símanúmer sín þegar þeir færa viðskipti sín frá einu símafyrirtæki til annars. 2. Frá 15. febrúar 2001 hafa notendur átt þess kost að flytja númer sín milli númerasvæða. Sama á að gilda skipti notandi um þjónustu hjá símafyrirtæki t.d. úr venjulegum talsíma í fastaneti í samnet. 3. Frá 1. júní 2001 áttu notendur í farsímanetum að eiga þess kost að flytja með sér númer sín þegar þeir skipta um þjónustuveitanda. Síðastliðið vor fékk Póst- og fjarskiptastofnun ábendingar frá farsímafyrirtækjum um að þau yrðu ekki tilbúin til þess að innleiða númeraflutning í farsímanetum í samræmi við fyrrnefnda dagsetningu. Að þessu tilefni var tæknihópi sem skipaður er fulltrúum starfandi farsímafyrirtækja falið að kanna mismunandi tæknilegar lausnir og hver væri raunhæf dagsetning fyrir númeraflutning milli farsímaneta. Í skýrslu hópsins sem samin var í september 2001 og rædd var á fundi Póst- og fjarskiptastofnunar með farsímafyrirtækjunum í byrjun þessa mánaðar kemur fram að framleiðendur símstöðva sem notaðar eru í farsímanetum hér á landi eru mislangt á veg komnir með hugbúnaðarlausnir fyrir númeraflutning. Auk þess eru vandamál í sambandi við fyrirfram greidd kort óleyst. Upplýsingar sem farsímafyrirtækin hafa aflað sér frá framleiðendum símstöðva benda til þess að endanlegar lausnir verði ekki fáanlegar fyrr en á 1. ársfjórðungi 2003 en þá er eftir að setja búnaðinn upp og prófa hann. Póst- og fjarskiptastofnun hefur kynnt sér stöðu númeraflutnings milli farsímaneta í öðrum löndum og hefur komist að raun um að slíkur flutningur er nú mögulegur í mörgum löndum Evrópu og fleiri munu slást í hópinn á þessu ári og hinu næsta. Í Bandaríkjunum var ákveðið að númeraflutningur milli farsímaneta skyldi hefjast í árslok 1998 en honum hefur tvívegis verið frestað, í seinna skiptið þangað til í nóvember 2002. Póst- og fjarskiptastofnun harmar að íslenskum farsímanotendum muni ekki gefast kostur á númeraflutningi milli farsímaneta að svo stöddu. Stofnunin mun reyna að tryggja að farsímafyrirtækin geri ráðstafanir svo að hægt verði að standa við hina nýju dagsetningu.
13. ágúst 2001
PFS sækir um aðild að ETSI-staðlastofnuninni
Nánar
Tilkynning frá Póst- og fjarskiptastofnun vegna aðildar að ETSI Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tilkynnir hér með að stofnunin hefur sótt um og öðlast fulla aðild að ETSI-staðlastofnuninni (European Telecommunications Standards Institute). Meginmarkmið ETSI er að útbúa og fá samþykkta staðla fyrir búnað sem framleiddur er til notkunar á fjarskiptamarkaðinum í Evrópu. Ástæða þess að PFS sótti um aðild að ETSI er sú að það gefur stofnuninni aukna möguleika á að fylgjast með stefnu og þróun fjarskiptamarkaðarins í Evrópu, en ETSI-staðlar gefa góða hugmynd um fjarskiptabúnað nánustu framtíðar. Samkvæmt fjarskiptalögum er eitt af hlutverkum PFS að vera stjórnvöldum ráðgefandi á sviði fjarskiptamála. Til þess að öðlast fulla aðild að ETSI þurfa stofnanir og fyrirtæki að vera „persónur að lögum" og vera staðsett í Evrópu. Meðlimir ETSI eru um 780 frá 52 löndum. Full aðild að ETSI veitir rétt til þátttöku í staðlastarfinu og hafa aðilar þar með rétt á að taka fullan þátt í aðalfundum, sérnefndum og undirnefndum ETSI og öllum atkvæðagreiðslum þar. Skrifstofur ETSI eru staðsettar í Sophia Antipolis í Frakklandi og er starfsemin ekki rekin í hagnaðarskyni heldur fjármögnuð með aðildargjöldum, og aðilar taka jafnframt stóran þátt í vinnunni. Sú vinna sem PFS tekur að sér sem aðili í ETSI nú í upphafi er að fylgjast með þeim upplýsingum um staðlavinnu sem ETSI sendir frá sér, taka þátt í staðlavinnu þegar þörf er fyrir og réttlætanlegt er og greiða atkvæði eftir að hafa ráðfært sig við hagsmunaaðila eða aðra eftir því sem við á. Þessi vinna fer fram á Netinu og hefur PFS aðgangsorð að gagnabanka ETSI. Á vefsíðu ETSI má sjá hvernig innleiðingu staðlanna í aðildarríkjunum miðar (http://www.etsi.org). Aðgangur að ETSI stöðlunum er öllum opinn sem og sá hluti vefsíðunnar sem sýnir hvaða staðall hefur verið innleiddur á hverjum stað. Það er síðan hlutverk opinberrar staðlastofnunnar í hverju landi fyrir sig að kynna staðlana og setja niðurstöður um hvaða staðlar hafa verið innleiddir í viðkomandi landi inn á vefsíðu ETSI. Nánari upplýsingar veitir Hörður Halldórsson (hordur@pta.is), forstöðumaður stefnumótunar og alþjóðamála hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
7. júní 2001
Útboð í sambandi við þráðlaus notendakerfi á örbylgju
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir eftir umsóknum um leyfi til reksturs þráðlausra notendakerfa á örbylgju, nánar tiltekið í tíðnisviðunum 3,4-3,6 Gigaherz og 10,15-10,3 Gigaherz. Veitt verða að hámarki 4 leyfi í 3,4-3,6 Gigaherz sviðinu og að hámarki 6 leyfi í 10,15-10,3 Gigaherz sviðinu. Umsóknarfrestur er til 30. júlí 2001 og má afhenda umsóknir í afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar til kl 16 þann dag. Með hverri umsókn skal fylgja greiðsla að upphæð kr. 50.000. Þráðlaus notendakerfi tengja miðstöð leyfishafa við notendur á ákveðnu svæði og þjóna svipuðu hlutverki eins og heimtaugar í koparstrengjum. Þjónusta sem veitt er notendum samanstendur af talþjónustu og gagnaflutningi með bitahraða sambærilegum og í samnetinu. Vegna aukins áhuga á þráðlausum notendakerfum í tíðnisviðinu 3,4-3,6 GHz er ekki öruggt að hægt verði framvegis að uppfylla allir óskir um úthlutun í þessu tíðnisviði. Upplýsingar um útboðið má fá í afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar, Smiðjuvegi 68-70 í Kópavogi. Sömu upplýsingar eru hér fyrir neðan Upplýsingar um þráðlaus notendakerfi á örbylgju. Útgefið í júní 2001 í sambandi við auglýsingu um umsóknir um leyfi. (pdf skjal) Sjóðstreymisblað (Excel skjal) Auglýsing um útboð vegna þráðlausra notendakerfa á örbylgju (pdf skjal) 11. janúar 2002: Fréttatilkynning um úthlutun leyfa fyrir þráðlaus notendakerfi á örbylgju.