Fréttasafn
11. október 2004
Framlengdur frestur til að skila umsögnum um drög að reglum um skilyrt aðgangskerfi.
Nánar
Ákveðið hefur verið að framlengja frest til þess að skila umsögnum um drög að reglum um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp. Fresturinn er framlengdur til 15. október nk.
30. september 2004
Númeraflutningur mögulegur í farsímakerfum
Nánar
Frá og með 1. október 2004 verður mögulegt fyrir GSM farsímanotendur að skipta um farsímafyrirtæki og halda óbreyttu GSM símanúmeri. Breytingin nær bæði til þeirra sem hafa fyrirfram og eftirágreidda þjónustu. Til þess að skipta um farsímafyrirtæki þurfa notendur að hafa samband við það fyrirtæki sem þeir óska að eiga viðskipti við og gera samning með skriflegum eða rafrænum hætti. Viðkomandi fyrirtæki mun síðan sjá um að númerið verði flutt. Það er von Póst- og fjarskiptastofnunar að möguleikinn á að flytja GSM farsímanúmer á milli farsímafyrirtækja muni efla samkeppni á farsímamarkaði sem er neytendum til góða.
8. september 2004
Fjölmargar leiðir færar til stafrænnar sjónvarpsdreifingar
Nánar
Í tilefni af fréttaflutningi vegna úrskurðar Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vill Póst- og fjarskiptastofnun koma eftirfarandi atriðum á framfæri. Í fréttum Ríkissjónvarpsins og Morgunblaðsins var því haldið fram að Norðurljós búi nú yfir 16 af 21 rás til stafrænna sjónvarpsútsendinga. Mikilvægt er að hafa í huga að fjölmargar aðrar leiðir eru færar við dreifingu stafræns sjónvarps. Þar má nefna UHF/VHF tíðnir, KU-bandið, MWS-bandið, gervihnetti, kapal og breiðband. M.a. af þessari ástæðu telur Póst- og fjarskiptastofnun að ákvörðun stofnunarinnar á sínum tíma hafi ekki á nokkurn hátt takmarkað möguleika á samkeppni í dreifingu á stafrænu sjónvarpi. Þess ber að geta að úrskurður þessi snýst um svokallaðar MMDS tíðnir, en ekki um hefðbundnar sjónvarpstíðnir sem algengt er að nota til sjónvarpsútsendinga hér á landi þ.e. UHF/VHF tíðnir. Takmarkaður fjöldi UHF/VHF tíðna er sem stendur nothæfur til stafrænna sjónvarpsútsendinga og mun hluti þeirra verða auglýstur til umsóknar innan tíðar, en stofnunin taldi rétt að doka við með slíka auglýsingu á meðan viðræður hagsmunaaðila áttu sér stað um mögulegt samstarf í dreifingu stafræns sjónvarps. Póst- og fjarskiptastofnun hefði talið heppilegt að úrskurðarnefndin hefði getað tekið á efnisatriðum málsins, enda voru færð ítarleg rök fyrir því í greinargerð stofnunarinnar að ekki hafi verið talin ástæða til að bjóða út tíðnirnar. Í fyrsta lagi áttu útboðsreglur fjarskiptalaga á þeim tíma ekki við um sjónvarpstíðnir, í öðru lagi var nóg framboð af tíðnum og í þriðja lagi var ekki um nýja úthlutun að ræða. Hins vegar er nauðsynlegt að kærufrestir séu virtir svo að handhafar tíðnileyfa þurfi ekki að eiga á hættu að leyfi þeirra séu véfengd löngu eftir útgáfu þeirra. Því varð að gera ýtrustu kröfur varðandi formhlið kærunnar og úrskurðarnefndinni var rétt að hafna kröfunni þegar af þeirri ástæðu að hún var of seint fram komin. Kærufrestur er fjórar vikur, en í þessu tilfelli barst kæra ekki fyrr en u.þ.b. sex mánuðum eftir að kærendum var sannanlega kunnugt um ákvörðunina. Fjölmargar leiðir eru færar til að dreifa stafrænu sjónvarpi. Mögulegt er að nota fjölmörg tíðnisvið til stafrænna sjónvarpsútsendinga og þeirra á meðal er MMDS tíðnisviðið. Notkun MMDS rása er sértæk lausn sem aðeins er notuð í tveimur Evrópuríkjum, Íslandi og Írland. Íslenska útvarpsfélagið hf. hefur frá árinu 1993 haft heimild til að nota þetta tíðnisvið og hefur félagið fjárfest í umfangsmiklu dreifikerfi á SV horni landsins (Fjölvarpið). Póst- og fjarskiptastofnun heimilaði Íslenska útvarpsfélaginu að nota 16 rásir (128 MHz) áfram um nokkurra ára skeið, en ekki var um nýja úthlutun að ræða. Samkvæmt alþjóðlegum samþykktum er tíðnisvið þetta ætlað fyrir þriðju kynslóð farsíma í framtíðinni og því rennur notkunarréttur Íslenska útvarpsfélagsins út eftir tæp fimm ár hvað varðar helming rásanna en eftir sjö ár fyrir hinn helminginn. Tvær MMDS rásir eru lausar í dag, en engar umsóknir liggja fyrir um heimild til að nýta þær til stafrænna útsendinga. Önnur tíðnisvið sem nota má til dreifingar stafræns sjónvarps með þráðlausum sendum á jörðu niðri eru t.d.: KU bandið 10,7- 12,5 GHz. Tíðnisvið þetta er alls 1800 MHz. Af því hefur Síminn fengið heimild til að nota allt að 400 MHz, en fyrirtækið hefur ekki nýtt þá heimild. Íslandsmiðill hf. hefur sömuleiðis heimild til notkunar á allt að 400 MHz og hefur fyrirtækið þegar byggt upp dreifikerfi á Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri. 1000 MHz eru laus til umsóknar. Tíðnisvið fyrir margmiðlun (MWS) 40,5-43,5 GHz.Tíðnisviðið er alls 3000 MHz og er allt laust til umsóknar. Hægt er að fara ýmsar aðrar leiðir við dreifingu á stafrænu sjónvarpi. Þar ber fyrst að nefna gervihnattasendingar sem er algengasta dreifingarleiðin fyrir stafrænt sjónvarp innan ESB. Næst algengust eru kapalkerfi. Síminn hefur rekið stafræna sjónvarpsþjónustu á Breiðbandinu í nokkur ár og hyggst nú ná til flestra landsmanna í gegnum ADSL. Af þessari upptalningu má vera ljóst að Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki á nokkurn hátt takmarkað möguleika á samkeppni í dreifingu á stafrænu sjónvarpi. Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á úrskurð nefndarinnar nr. 5/2004 og greinargerð Póst- og fjarskiptastofnunar sem birt eru á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar,
15. júlí 2004
Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um frumkostnaðargreiningu í fjarskiptanetum Og fjarskipta hf.
Nánar
Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar vegna erindis Landssíma Íslands hf. um frumkostnaðargreiningu í fjarskiptanetum Og fjarskipta hf. Landssími Íslands krafist þess þann 17. nóvember sl. að Póst- og fjarskiptastofnun hlutaðist þegar í stað til um að Og Vodafone gerði frumkostnaðargreiningu á samtengigjöldum sínum. Til vara krafðist Síminn þess að sá munur sem nú er á samtengigjöldum í farsímanetum verði minnkaður verulega. Samtengigjald er það gjald sem símafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtölum fyrir önnur símafyrirtæki í neti sínu. Frumkostnaðargreining barst frá Og Vodafone í júní sl. ásamt rökstuðningi fyrir þeim gjöldum sem fyrirtækið tekur fyrir lúkningu símtala í farsímaneti sínu. Póst- og fjarskiptastofnun gerði athugasemdir við frumdrög þessi sem Og Vodafone féllst á. Það er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að Og Vodafone hafi sýnt fram á að sá sögulegi kostnaðargrunnur, sem gjaldskrá fyrirtækisins er miðuð við geti staðist að teknu tilliti til þeirrar aðferðarfræði sem notuð var við að greina kostnaðinn. Stofnunin gerir þar af leiðandi ekki athugasemdir við núgildandi gjaldskrá fyrirtækisins. Jafnframt áskilur stofnunin sér rétt til þess að endurskoða ákvörðun þessa í kjölfar niðurstöðu markaðsgreiningar sem nú stendur yfir á grundvelli nýrra fjarskiptalaga og leggja á nýjar kvaðir eða ákveða aðrar kostnaðargreiningaraðferðir við mat á samtengigjöldum.
15. júní 2004
Póst- og fjarskiptastofnun flytur í nýtt húsnæði.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun flytur í nýtt húsnæði Miðvikudaginn 16. júní flytur Póst- og fjarskiptastofnun í nýtt húsnæði að Suðurlandsbraut 4 á 2. hæð. Stofnunin hefur verið til húsa að Smiðjuvegi 68-70 frá stofnun árið 1997. Nýja húsnæðið hentar betur starfsemi stofnunarinnar auk þess sem stofnunin er nú staðsett nær þeim aðilum sem hún á hvað mest samskipti auk þess sem aðkoma mun batna til muna m.a. fyrir fatlaða.Að öðru leyti verða ekki breytingar á starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar. Meðfylgjandi er mynd af Hrafnkeli V. Gíslasyni forstjóra stofnunarinnar og Bjarna Pálssyni forstjóra Keflavíkurverktaka við undirritun á leigusamningi vegna Suðurlandsbrautar 4.
18. maí 2004
Drög að tilmælum ESA um viðeigandi vöru og þjónustu markaði
Nánar
Drög að tilmælum ESA um viðeigandi vöru og þjónustu markaði eru í samráðsferli og er öllum gefin kostur á að koma með athugasemdir við drögin eigi síðar en 23. júní 2004. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.eftasurv.int/information/pressreleases/2004pr/dbaFile5198.html
17. maí 2004
Númeraflutningur í farsímakerfum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að frá og með 1. október næstkomandi geti notendur skipt um þjónustuveitanda í farsímaþjónustu án þess að þurfa að skipta um númer eins og verið hefur hingað til. Sú takmörkun að þurfa að fá nýtt númer þegar skipt er um þjónustuveitanda er samkeppnishindrun auk þess sem breytingar á númeri fylgir oft kostnaður sérstaklega hjá fyrirtækjum. Í þeim löndum þar sem opnað hefur verið fyrir þennan möguleika hefur samkeppni aukist í kjölfarið og má búast við svipuðum viðbrögðum hér á landi. Númeraflutningur í fastanetsþjónustu hefur verið mögulegur frá september 2000 og geta notendur flutt númer sín með sér bæði þegar skipt eru um þjónustuveitanda og ef notendur flytja aðsetur sitt á milli svæða eða landshluta.
29. apríl 2004
Verkefnaáætlun um greiningu á fjarskiptamarkaði
Nánar
sjá verkefnaáætlun um greiningu á fjarskiptamarkaði