Fréttasafn
25. apríl 2005
Netsímanotendum fjölgar ört
Nánar
Stöðugt fleiri notfæra sér netsímann. Könnun sem gerð var í Danmörku í apríl 2005 sýndi að a.m.k. 200.000 manns notfæra sér daglega netsímalausnir og að hátt í sjö hundruð þúsund Danir vænti þess að vera búnir að koma sér upp búnaði fyrir netsíma innan hálfs árs. Þá kemur fram í könnuninni að notendur netsíma eru flestir á aldrinum 15-39 ára, en þeir sem eru komnir yfir fertugt virðast ekki eins ginkeyptir fyrir netsímalausnum. Þrjár milljónir Dana þekkja vel til netsíma-hugbúnaðar og því búast yfirvöld við því að notendum muni fjölga til muna á næstu mánuðum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að nær fimm milljónir Japana noti netsíma, ein milljón Bandaríkjamanna, en einungis 200.000 Frakkar og fimmtíu þúsund Bretar. Engar takmarkanir eru á framboði á netsímalausnum á evrópska efnahagssvæðinu og krefst slík þjónustu engra leyfisveitinga. Sjá frekari upplýsingar um netsíma.
17. apríl 2005
Samþjónusta lykilhugtak í nýrri fjarskiptaáætlun
Nánar
Samþjónusta er lykilhugtak í nýrri fjarskiptaáætlun sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur kynnt. Hugtakið nær til nýrra íslenskra viðmiða umfram reglur Evrópusambandsins um lágmarks-fjarskiptaþjónustu sem skylt er að veita, svokallaða alþjónustu. Stefnan er að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga, aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu. Með séríslenskum viðmiðum er markmiðið að háhraðatenging verði komin inn á hvert heimili árið 2007, að menntakerfið verði háhraðavætt eigi síðar en 2008, að farsímasamband verði á öllum helstu stofnvegum og hálendinu eigi síðar en í árslok 2006 og að stafrænu sjónvarpi, þar með talið Ríkissjónvarpinu, verði dreift um allt land og miðin eigi síðar en 2007. Sjá nýja fjarskiptaáætlun (pdf-snið) 2 Mb
15. apríl 2005
Spurningar og svör vegna UHF útboðs
Nánar
Fyrirspurn móttekin þann 9. maí 2005X óskar hér með eftir að skilafrestur vegna ofangreinds útboðs verði framlengdur um 4 vikur. Ástæðan er að byggja þarf á umfangsmiklum tæknilegum forsendum, sem reynst hefur tafsamt að ná saman. Auk þess þarf erlendur ráðgjafi X lengri tíma til sinna athugana og telur ekki mögulegt að ljúka þeim innan tilskilins frests.Svar PFS 12. maí 2005Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnir að áður auglýstur tilboðsfrestur vegna útboðs á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp á landsvísu skv. DVB-T staðli, sem var til 17. maí nk., er hér með framlengur til 31. maí nk. kl. 11:00. Opnun tilboða mun fara fram á fundi sem hefst um leið og hinn framlengdi tilboðsfrestur er liðinn, hjá Póst- og fjarskiptastofnun, að Suðurlandsbraut 4, 2. hæð, sbr. lið 4.2. í útboðslýsingu.Leitast verður við að tilkynna bjóðendum hvort tilboði þeirra verður tekið eða hafnað á áður auglýstum tíma, 27. júní nk.* Vísað er í fyrri hluta 5.mgr. 6.14 gr:“Bjóðandi skal tilgreina, hvaða verndarhlutfall (protection ratio) gagnvart grannrásum með hliðrænu sjónvarpi hann notar við hönnun dreifikerfisins.” Spurt er1.1) “Getur verið þarna einskonar “Catch 22,” þ.e. að gert sé ráð fyrir að bjóðendur eigi að vita og taka tillit til þess sem aðrir eru gera eða íhuga að gera. Hvernig er hægt að ætlast til þess?”Svar PFSPFS telur að þetta atriði muni í raun aðeins eiga við höfuðborgarsvæðið, þar sem gert er ráð fyrir að úti á landi muni umsækjendur kjósa að senda út stafrænt á rásum, þar sem hliðrænt sjónvarp er ekki á aðliggjandi rás. Nægjanlegt svigrúm ætti að vera fyrir hendi til þess að svo geti orðið.Á höfuðborgarsvæðinu verður hins vegar að gera ráð fyrir stafrænum útsendingum á rásum, þar sem hliðrænt sjónvarp er á aðliggjandi rás.4. og 5.mgr. 6.14 gr. útboðslýsingarinnar hljóða svo í heild sinni:“Sýna skal fram á með útreikningum skv. viðurkenndum aðferðum að áætlaðir sendistaðir, útgeislað afl og stefnuvirkni loftnets á hverjum sendistað, valdi ekki skaðlegum truflunum á núverandi sjónvarpsútsendingum með hliðrænni tækni.Bjóðandi skal tilgreina, hvaða verndarhlutfall (protection ratio) gagnvart grannrásum með hliðrænu sjónvarpi hann notar við hönnun dreifinetsins. Rökstyðja verður valið með tilvísun í rannsóknir og mælingar, sem gerðar hafa verið í þessu skyni og birtar, t.d. af ITU eða EBU (European Broadcast Union).”Með tilvísun til ofangreindra skilyrða í útboðslýsingu telur PFS einsýnt að vernd núverandi hliðrænna útsendinga sé tryggð með fullnægjandi hætti, enda geti bjóðendur sýnt fram á að ofangreindar kröfur séu uppfylltar.Að sjálfsögðu mun PFS við mat á tilboðum sannreyna með viðeigandi hætti hvort svo sé. *1.2) “Þarf ekki Póst- og fjarskiptastofnun að segja hvaða verndarhlutfall hún ein getur ákveðið að nota við úthlutanir til ólíkra aðila?”Svar PFSEkki verður fallist á að nauðsynlegt sé að PFS ákveði fyrirfram hvert verndarhlutfallið skuli vera.Telja verður fullnægjandi að bjóðendur tilgreini og rökstyðji, sbr. 4. og 5.mgr. 6.14 gr. útboðsins, hvaða verndarhlutfall hann notar við hönnun dreifikerfisins.Vísað er að öðru leyti til skýringa undir lið 1.1*1.3) “Ef Póst- og fjarskiptastofnun varpar af sér ábyrgðinni, hver ber þá ábyrgð á afleiðingunum?Svar PFSEkki verður fallist á að PFS varpi af sér ábyrgð.Vísað er til skýringa undir liðum 1.1 og 1.2 hér að ofan. Sjá útboðslýsingu á UHF-rásum
15. apríl 2005
Símanum skylt að afgreiða flutningsbeiðnir Og fjarskipta vegna ADSL-þjónustu
Nánar
Landssíma Íslands hf. ber að afgreiða beiðnir sem sendar voru heildsölu fyrirtækisins þann 14. og 16. desember 2004, og varða flutning á fyrrum viðskiptavinum Margmiðlunar hf, úr ADSL-þjónustu hjá Landssíma Íslands hf. yfir í ADSL-þjónustu hjá Og fjarskiptum hf. Afgreiðsla umræddra pantanna skal fara fram í samræmi við viðmiðunartilboð Landssíma Íslands hf. um opinn aðgang að heimtaugum. Sjá úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar í heild sinni.
14. apríl 2005
Netveitum skylt að upplýsa um erlent niðurhal
Nánar
Fyrir Alþingi liggur frumvarp samgönguráðherra um breytingar á lögum um fjarskipti. Lagt er til í frumvarpinu að inn komi ný grein sem er svohljóðandi: “Fjarskiptafyrirtæki sem býður internetþjónustu er skylt að gera áskrifendum sínum, þeim að kostnaðarlausu og ef þeir þess óska, sýnilegt hvenær þeir eru að greiða fyrir niðurhal erlendis frá.” Í skýringu með frumvarpinu segir: “Ákvæðið kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem veita internetþjónustu að gera sýnilegt fyrir neytandann, ef hann þess óskar, hvenær hann er að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Samkvæmt gjaldskrá flestra fjarskiptafyrirtækja sem bjóða internetþjónustu er áskrifendum gert að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Að öllu jöfnu ætti ekki að vera vandamál fyrir neytandann að vita hvenær hann er á erlendum síðum og að niðurhal af þeim sé skv. gjaldskrá fyrirtækisins. En nú er svo komið að um 15% af íslenskum heimasíðum eru vistuð erlendis án þess að hinn almenni neytandi geti merkt það sérstaklega. Þar sem neytandinn getur ekki séð hvenær hann er á erlendri síðu, en netþjónustan gjaldfærir hann í flestum tilvikum vegna niðurhals þaðan , þykir rétt að neytandanum sé gert þetta sýnilegt. Hér er fyrst og fremst um neytendavernd að ræða en þegar er til staðar hugbúnaður sem gerir þetta mögulegt.”
13. apríl 2005
Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - 2004
Nánar
Ör þróun á fjarskiptamarkaði endurspeglast í nýju tölfræðiyfirliti Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2004. Þar kemur fram að á annan tug netþjónustufyrirtækja eru starfrækt í landinu og að fimmtíu þúsund Íslendingar eru áskrifendur að háhraðatengingum (xDSL). Tvíkeppni ríkir hins vegar á símamarkaði. Landsími Íslands er með 74% markaðshlutdeild í innanlandssamtölum á fastaneti og 64,5% hlutdeild á GSM-farsímamarkaði miðað við fjölda viðskiptavina. Hlutdeild Símans á farsímamarkaði breyttist ekki frá 2002 til 2004 en hlutdeild í fastlínukerfinu minnkaði nokkuð. Símtölum í almenna símanetinu fækkar jafnt og þétt á meðan símtölum í farsímanetum fjölgar. Þá eru færri notendalínur settar upp í fastaneti Símans á sama tíma og ISDN grunntengingum fjölgar. Í tölfræðiyfirliti kemur einnig fram að Íslendingar sendu í fyrra yfir eitt hundrað og fimmtíu milljónir smáskilaboða í farsíma, eða yfir tvöfalt fleiri en fyrir fjórum árum. Sjá tölfræðiyfirlit fyrir árið 2004.
12. apríl 2005
Og fjarskiptum hf. skylt að gæta jafnræðis
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS ) hefur ákvarðað að Og fjarskiptum hf. (Og Vodafone) sé skylt sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á farsímamarkaði að gæta jafnræðis, sbr. 25. gr. fjarskiptalaga nr. 107/1999, að því er varðar svokallaða lúkningu símtala inn á farsímanet fyrirtækisins. Sú skylda nái m.a. til þess að sama gjald skal tekið óháð því úr hvaða neti símtalið er upprunið. Ber Og fjarskiptum að bókfæra sölu á lúkningu til fastanets fyrirtækisins á sama verði og til annarra fyrirtækja. Og fjarskiptum hf. er veittur 30 daga frestur frá dagsetningu ákvörðunar Póst-og fjarskiptastofnunar 11.apríl til að sýna fram á með fullnægjandi gögnum að fyrirtækið hafi látið af mismunun í verðlagningu á lúkningu í farsímaneti fyrirtækisins. Að öðrum kosti mun PFS grípa til viðeigandi ráðstafana skv. 3. mgr. 73. gr. laga nr. 81/2003. Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar á sér nokkra forsögu. Síminn krafðist þess í október 2003 að PFS beindi þeim fyrirmælum til Vodafone að láta af mismunun í verðlagningu. Vodafone gerði þá mótkröfu að kröfu Símans yrði hafnað. Greindu menn á um túlkun laga um skyldur fyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild að gæta jafnræðis. Vodafone hélt því fram að kvöð um jafnræði hefði ekki stofnast sjálfkrafa við ákvörðun PFS um að fyrirtækið hefði markaðsráðandi hlutdeild. Einnig að ekki fælist í 1. mgr. 25. gr. fjarskiptalaga 107/1999 skylda til að gæta jafnræðis í verði. Síminn hélt því hins vegar fram að skylda til jafnræðis hefði stofnast 15. júlí 2003 þegar Vodafone var úrskurðað með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og farsímaþjónustu. Það er álit Póst- og fjarskiptastofnunar að skyldur fyrirtækja um aðgang og samtengingar hvíli sjálfkrafa á fyrirtækum sem úrskurðuð hafa verið með umtalsverða markaðshlutdeild. Það er jafnframt álit PFS að einn mikilvægasti þátturinn í samningum um samtengingu sé verð. Það sé því ekki hægt að líta svo á að fyrirtæki gæti jafnræðis með tilliti til samtenginga sem þau bjóða, ef þau mismuni í þeim mikilvæga þætti sem verðið er. Sjá úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar
12. apríl 2005
Nýjar reglur um rekstur fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett nýjar reglur um almenna heimild til að reka fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu. Reglurnar eru nr. 345/2005 og voru birtar í stjórnartíðindum þann 6. apríl sl. Með lögum um fjarskipti nr. 81/2003 var afnumin með öllu skylda fjarskiptafyrirtækja til þess að sækja um sérstakt rekstrarleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Einnig varð nokkur breyting á þeim skilyrðum sem setja má fyrir almennri fjarskiptastarfsemi. Nýju reglurnar taka mið af þessum breytingum. Fjarskiptafyrirtæki sem þurfa á tíðni- og númeraúthlutunum að halda þurfa eftir sem áður að sækja um slíkt til stofnunarinnar og lúta sérstökum skilyrðum sem ekki koma fram í reglum um almenna heimild. Sjá nýju reglurnar