Fréttasafn
31. mars 2005
Íslendingar virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um netöryggi
Nánar
Íslendingar og aðrar EFTA-þjóðir verða virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um net- og upplýsingaöryggi sem er að taka til starfa. Stofnunin ENISA (European Network and Information Security Agency) á að tryggja öryggi í netþjónustu og gagnaflutningum á evrópska efnahagssvæðinu, samræma lög og reglur og veita stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum sérfræðiráðgjöf. Að tillögu samgönguráðherra samþykkti íslenska ríkisstjórnin aðild að ENISA-stofnuninni í mars 2004, en þá lá fyrir formleg ákvörðun hjá framkvæmdastjórn ESB um að koma henni á fót. Í byrjun þessa árs tókust samningar um að EFTA-ríkin fengju fulltrúa í stjórn stofnunarinnar, en þau höfðu lagt mikla áherslu á að öðlast slíkan sess. Fulltrúar Íslands, Lichtenstein og Noregs sóttu nýlega fyrsta stjórnarfund ENISA, en afar brýnt er að EFTA-ríkin séu virkir þátttakendur í þessu samstarfi, fylgist náið með nýjungum og afli og miðli upplýsingum til hagsmunaaðila á markaði. Þetta er ekki síst knýjandi nauðsyn fyrir Íslendinga, sem samkvæmt alþjóðlegum könnunum standa flestum þjóðum framar í að nýta tölvu- og upplýsingatækni. Alþjóðlegt samstarf um net- og upplýsingaöryggi (UT-öryggi) er lykilatriði ef takast á að afstýra skemmdarverkum og tryggja áreiðanlega gagnaflutninga á Netinu, til hagsbóta fyrir neytendur, fyrirtæki og stofnanir. Á þessu ári verður megináherslan lögð á að skipuleggja starfsemi ENISA til frambúðar og mun sú vinna byggja á niðurstöðum ítarlegrar könnunar sem nýlega var gerð í stjórnsýslu allra ríkja á evrópska efnahagssvæðinu. Ráðnir verða 44 starfsmenn, flestir í apríl 2005, og er stefnt að því að starfsemin verði komin á fullt skrið síðla árs. Stofnunarinnar bíða viðamikil verkefni m.a. við að samræma stefnuna, en skoðanir aðildarríkja á því hvernig beri að forgangsraða verkefnum eru eðlilega afar ólíkar. Sjá frekari upplýsingar um ENISA Einnig veitir Hörður Halldórsson, Alþjóðadeild PFS upplýsingar í síma: 5101500
30. mars 2005
Kvaðir um alþjónustu takmörkunum háðar
Nánar
Fjarskiptalög nr. 81 frá árinu 2003 heimila ekki, líkt og fullyrt var í leiðara Morgunblaðsins 30. mars, að leggja megi á Landsímann eða önnur fjarskiptafyrirtæki útvíkkaðar kvaðir um að veita þjónustu umfram alþjónustu, t.d. þá að koma upp breiðbandstengingum í dreifbýli. Íslensk fjarskiptalög taka mið af alþjónustutilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB. Í henni er alþjónusta skilgreind sem sú lágmarksþjónustu sem stjórnvöldum er skylt að tryggja öllum þegnum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu. Þetta er gert með því að leggja kvaðir á fyrirtæki sem rekur fjarskiptanet- eða þjónustu. Þar sem tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB heimilar ekki aðrar kvaðir en þær sem þegar eru innleiddar í íslensk lög verður að leita annarra leiða en útvíkka alþjónunstukvaðir, vilji íslensk stjórnvöld bæta fjarskiptaþjónustu. Má þar t.d. benda á 23. grein fjarskiptalaga þar sem samgönguráðherra er heimilt að leggja í framkvæmdir, rekstur eða þjónustu sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, ef ætla má að fjarskiptaþjónustan skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða. Samkvæmt gildandi lögum telst alþjónusta vera talsímaþjónusta, almenningssímar, handvirk þjónusta og þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir. Einnig gagnaflutningsþjónusta með allt að 128 kbps hraða. Kvöðin um alþjónustu er nú lögð á Landssímann og er hún nánar skilgreind í rekstrarleyfi útgefnu í janúar 2002. Alþjónusta, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu, er veitt hérlendis, ef undan eru skildir um 70 sveitabæir sem ekki njóta 128 kbps tengihraða. Er nú verið að kanna með hvaða hætti bæta megi þar úr, en kostnaður við hverja tengingu getur numið á aðra milljón króna.
15. mars 2005
Fjarskiptatækni vel nýtt á Íslandi
Nánar
Íslendingar eru í öðru sæti yfir þjóðir heims sem nýta vel nýja upplýsinga- og fjarskiptatækni. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) sem nær til 104 landa. Singapúr er í efsta sæti listans. Í fyrra voru Íslendingar í tíunda sæti listans, en hafa nú fært sig upp í annað sætið. Aðrar Norðurlandaþjóðir standa einnig vel að vígi. Finnar eru í þriðja sæti, Danir í því fjórða og Svíar í sjötta sæti. Skýrsluna Global Information Technology Report 2004-2005 má sækja á heimasíðu World Economic Forum
8. mars 2005
Athugasemdir 365-ljósvakamiðla
Nánar
Athugasemdir 365-ljósvakamiðla ehf. vegna fyrirhugaðs útboðs á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp,skv. DVB-T staðli. 365–ljósvakamiðlar fagna fyrirhuguðu útboði Póst og fjarskiptastofnunar á ofangreindu tíðnibandi. Eins og Póst og fjarskiptastofnun er kunnugt hafa 365–ljósvakamiðlar unnið að uppbyggingu á stafrænum sjónvarpssendingum s.l. mánuði. Enn sem komið er ná þær sendingar einungis til höfuðborgarsvæðisins, en markmið 365–ljósvakamiðla er að láta þessar sendingar ná til landsbyggðarinnar eins fljótt og auðið er. Forsenda þess er úthlutun á því tíðnibandi, sem stefnt er að bjóða út. 365–ljósvakamiðlar gera eftirfarandi athugasemdir við fyrirkomulag útboðsins. Fjöldi rása. 365–ljósvakamiðlar gera alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðan fjölda rása, sem á að bjóða út og að hver og einn geti einungis boðið í tvær rásir að hámarki. 365–ljósvakamiðlar dreifa í dag níu sjónvarpsstöðvum. Markmið 365–ljósvakamiðla er að fjölga sjónvarpsstöðvum talsvert á þessu ári. 365–ljósvakamiðlar munu stefna á að hefja útsendingar á a.m.k. tveimur sjónvarpsstöðvum nú fljótlega og stefnt er að því að fleiri bætist í hópinn á þessu ári eða í byrjun þess næsta, þannig að innan 18 mánaða hafi bæst í hóp sjónvarpsstöðva 365–ljósvakamiðla a.m.k. fimm til átta sjónvarpsstöðvar. Tvær rásir eru því engan vegin nægjanlegt framboð, enda varla nægjanlegt fyrir útsendingar 365-ljósvakamiðla eins og þær eru í dag. 365–ljósvakamiðlar munu óska eftir því að fá fjórum til fimm rásum úthlutað, svo það geti þjónustað viðskiptavini sína um allt land með sambærilegum hætti. Á þessum tímapunkti vill 365-ljósvakamiðlar skoða frekar hve heppilega tilteknar rásir í útboðinu henti til notkunar fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar (SFN) miðað við núverandi stöðu hliðrænna sjónvarpsútsendinga á SV-horni landsins. Með fyrrgreindum ástæðum treystir 365-ljósvakamiðlar sér ekki til að gefa tæmandi tæknilegt álit varðandi notkun á væntanlega útboðnum rásum. Endurvarp erlendra rása. 365–ljósvakamiðlar telja að breyta eigi þeirri reglu sem fyrst að ekki sé heimilt að nota þessar rásir til þess að senda út viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár erlendra sjónvarpsstöðva. Framkvæmd útboðs. 365-ljósvakamiðlar vilja vekja athygli á mótsögn í helstu þáttum sem munu ráða varðandi val á tilboðum þ.e. fullnýtingu á rásunum sem snúast um nýtingu fjölflétta (muxa) með ákveðnum fjölda dagskrá vs. geyma pláss fyrir þriðja aðila. Útbreiðslusvæði. 365–ljósvakamiðlar telja það of íþyngjandi kröfu að útbreiðslusvæði skuli ná til að lágmarki 98% heimila innan tveggja ára. 365–ljósvakamiðlar telja að eðlilegra væri að miða við 94% heimila innan þeirra tímamarka og 98% á fimm til sjö árum. Annað felur í sér of mikinn kostnað og er of íþyngjandi fyrir rekstur einkarekinna fjölmiðla. 365-ljósvakamiðlar telja að of hátt markmið í þessu geti staðið í vegi fyrir annarri uppbyggingu 365-ljósvakamiðla. Þá telja 365–ljósvakamiðlar óeðlilegt að nota tiltekinn fjölda sveitarfélaga sem sérstaka mælieiningu í þessu samhengi, enda er það yfirlýst stefna stjórnvalda að fækka sveitarfélögum frá því sem er í dag. Vegna þess verður að telja það óeðlilegt að miða útbreiðslu m.a. við fjölda sveitarfélaga. Með þeim hætti hafa ákvarðanir stjórnvalda og vilji íbúa í sveitarfélögum bein áhrif á uppbyggingu dreifingarkerfis fyrir stafrænt sjónvarp, án þess að þeim sé ætlað það. Í gagni Póst og fjarskiptastofnunar kemur fram í tl. 5 að leyfishafa verði heimilt að uppfylla útbreiðslukröfur á tilteknum svæðum með annarri stafrænni tækni en DVB-T á UHF tíðnisviði, t.d. xDSL, ljósleiðara eða um gervihnött, enda verði sýnt fram á að veitt verði sambærileg þjónusta. 365 – ljósvakamiðlar telja að það myndi horfa til hins betra ef þetta væri skilgreint betur m.a. með því að tiltaka hvaða lágmarkskröfur þurfi að gera svo þetta verði sambærilegt 365-ljósvakamiðlar óska eftir frekari uppl. um tilgreindan lágmarkssviðstyrk í útboðsgögnum þ.e. hvernig 56 dB V/m er fengin út sem viðmiðunartala fyrir stafræna móttöku viðtækja/afruglara (STB). Varðandi nýtingu rása þá er miðað við 5 dagskrár fyrir hverja rás. Hvað með fjölda dagskráa í háskerpusjónvarpi (HDTV)? Að öðru leyti lýsa 365–ljósvakamiðlar yfir ánægju sinni með þessa vinnu, samhliða því sem sú ósk er sett fram að vinnunni við útboðið verði hraðað sem mest. 365–ljósvakamiðlar munu geta hafið tilraunasendingar með þessari tækni innan tveggja mánaða, en telja verður að ekkert annað fyrirtæki á þessum markaði hér á landi geti hafið slíkar útsendingar svo fljótt. Virðingarfyllst, Kristján M. Grétarsson.
8. mars 2005
Tvær athugasemdir vegna útboðs á UHF-rásum
Nánar
Ríkisútvarpið og 365-ljósvakamiðlar ehf. hafa skilað inn athugasemdum vegna fyrirhugaðs útboðs á 10 UHF rásum fyrir stafrænt sjónvarp, en frestur til þess rann út 1. mars. Hér má lesa þær athugasemdir sem bárust: Frá Ríkisútvarpi Frá 365-ljósvakamiðlum
8. mars 2005
Athugasemdir RÚV
Nánar
Athugasemdir Ríkisútvarpsins við drög að auglýsingu um fyrirhugað útboð á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp skv. DVB-T staðli. Töluliðir hér á eftir vísa til sömu töluliða í drögunum. 1. Markmið útboðs Meðan hugtakið “sem flestir landsmenn” er ekki skilgreint, eru 2 árin í lagi, sem æskilegt markmið, en útbreiðsluhraðann í 6. grein teljum við full brattann. 2. Rásir sem verða í boði Við notkun rásanna ættu DVB-T útsendingar að hafa forgang 1, en hins vegar ættu aðrar gagnaútsendingar að vera heimilar með víkjandi hætti (forgangur 2). Þetta kemur t.d. dreifðum byggðum í Noregi til góða, sem hafa ekki aðra möguleika á háhraðatengingu. Tiltaka ætti hvaða verndar úthlutaði rásalistinn kemur til með að njóta af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar, þ.e. hvaða “protection ratio” P&f fer eftir í sínum úthlutunum. Ekki eru VHF rásir nefndar, en þær geta hentað sums staðar betur en UHF rásir og unnt er að gera kröfur um að aðgangskassar geti tekið á móti þeim. 3. Framkvæmd útboðs Við úthlutun ætti ennfremur að taka tillit til að Ríkisútvarpið hefur skyldur við almenning í landinu umfram aðra skv. útvarpslögum, hvort sem um er að ræða á svæðum sem standa undir sér markaðslega eða ekki. Vegna skyldna Ríkisútvarpsins umfram aðra til að koma dagskrám sínum til alls landsins og næstu miða, hvort sem það stendur undir sér markaðslega eða ekki, telur Ríkisútvarpið nauðsynlegt að vanda til hönnunar stafræns dreifikerfis, til að halda stofnkostnaði og framtíðar rekstrarkostnaði í lágmarki. Því teljum við fyrirhugaðan 6 vikna tilboðsfrest of skamman og viljum frá ráðrúm til tilraunasendinga áður en endanleg hönnun dreifingarinnar er afráðin. Annað hvort mætti lengja tilboðsfrestinn eða heimila að leggja fram drög að hönnun, þótt lokahönnun kæmi síðar. Til að flýta málinu vísum við til umsóknar okkar um slíkar tilraunasendingar dags. 4. maí 2004, sem ekki hefur verið svarað. Við förum þess hér með á leit, að fá jákvætt svar, eða til vara UHF rás 22 til þessara tilrauna. 5. Útbreiðslusvæði Til að geta gert tímaáætlanir þurfa nánast að liggja fyrir samningar eða tilboð frá framleiðendum um afhendingartíma. 6 vikur er full knappur tími til þess, sbr. t.d. útboðsskyldur RÚV sem opinberrar stofnunar. Venjulegast er að með lágmarkssviðsstyrk sé átt við miðgildis sviðsstyrk (median field strength) í 10m hæð yfir jörð, miðgildi í merkingunni 50% staða yfir og 50% staða undir sviðsstyrksgildinu. Tilgreina þarf hvort P&f á við þetta eða eitthvað annað. Einnig er í erlendum viðmiðum, ekki notaður sami viðmiðunarstyrkur fyrir neðri og efri hluta UHF sviðsins. Eitt viðmið sem við höfum sér er t.d. 52 dB/uV/m í bandi IV og 56 dB/uV/m í bandi V. Enn fremur kann viðmiðunarstyrkur að vera háður vali á mótunartegund, sem ætti að endurspeglast í lágmarkssviðsstyrk. 6. Útbreiðsluhraði Lágmarkskröfur um uppbyggingarhraða samkvæmt drögunum eru mjög strangar. DVB-T kerfi á þessu tíðnisviði hefur ekki verið byggt fyrr á Íslandi og ef bygging þess hæfist utan SV-lands (frá Akranesi til Suðurnesja) eru bæði mörkin of ströng. Lagt er til að bæði mörkin verði aukin um tvö ár. Fh. Ríkisútvarpsins, Eyjólfur Valdimarsson, forstöðumaður þróunarsviðs
7. mars 2005
Evrópufundur um fjarskipti í Reykjavík í sumar
Nánar
Evrópska samstarfsnefndin um fjarskipti (European Communications Committe) fundar í í Reykjavík dagana 20-24 júní. Búist er við að fulltrúar 40 ríkja og hagsmunahópa sitji fundinn og að erlendir gestir verði um 80 talsins. Eitt meginverkefni fundarins er að samræma notkun einstakra tíðnisviða í Evrópu og setja reglur sem tryggja einn innri markað í Evrópu, bæði fyrir fjarskiptatæki og þjónustu. Niðurstöður fjölmargra vinnuhópa á hinum ýmsu sviðum verða kynntar og ræddar og þess freistað að ná sem víðtækustu samkomulagi um niðurstöður. 46 ríki eiga aðild að samstarfsvettvangi evrópskra stjórnvalda á sviði fjarskipta og einskorðast hann ekki við Evrópusambandsríki og þau ríki sem eiga aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið.
28. febrúar 2005
Yfirlýsing um VoIP
Nánar
Eftirlitsstofnanir á evrópska efnahagssvæðinu hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um aðkomu eftirlitsstofnana að VoIP eða talsambandi yfir Internetið. Í yfirlýsingunni kemur fram að eftirlitsstofnanirnar fagna tilkomu þessarar nýju tækni. Þær ætla að sameinast í að vinna tækninni brautargengi á evrópska fjarskiptamarkaðinum og skapa umhverfi þar sem þjónustan getur blómstrað og jafnframt tryggja neytendum nægilega vernd. ERG (European Regulatory Group) er nýstofnaður formlegur vettvangur eftirlitsstofnana þjóða Evrópusambandsins. Sérstakur vinnuhópur um málefni VoIP vann drög að þessari yfirlýsingu sem nú hefur verið gerð opinber. Ársæll Baldursson hefur verið fulltrúi Póst og fjarskiptastofnunar í þeim vinnuhóp. Sameiginleg yfirlýsing ERG um aðkomu eftirlitsstofnana að VoIP. (pdf)