Fréttasafn
14. apríl 2005
Netveitum skylt að upplýsa um erlent niðurhal
Nánar
Fyrir Alþingi liggur frumvarp samgönguráðherra um breytingar á lögum um fjarskipti. Lagt er til í frumvarpinu að inn komi ný grein sem er svohljóðandi: “Fjarskiptafyrirtæki sem býður internetþjónustu er skylt að gera áskrifendum sínum, þeim að kostnaðarlausu og ef þeir þess óska, sýnilegt hvenær þeir eru að greiða fyrir niðurhal erlendis frá.” Í skýringu með frumvarpinu segir: “Ákvæðið kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem veita internetþjónustu að gera sýnilegt fyrir neytandann, ef hann þess óskar, hvenær hann er að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Samkvæmt gjaldskrá flestra fjarskiptafyrirtækja sem bjóða internetþjónustu er áskrifendum gert að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Að öllu jöfnu ætti ekki að vera vandamál fyrir neytandann að vita hvenær hann er á erlendum síðum og að niðurhal af þeim sé skv. gjaldskrá fyrirtækisins. En nú er svo komið að um 15% af íslenskum heimasíðum eru vistuð erlendis án þess að hinn almenni neytandi geti merkt það sérstaklega. Þar sem neytandinn getur ekki séð hvenær hann er á erlendri síðu, en netþjónustan gjaldfærir hann í flestum tilvikum vegna niðurhals þaðan , þykir rétt að neytandanum sé gert þetta sýnilegt. Hér er fyrst og fremst um neytendavernd að ræða en þegar er til staðar hugbúnaður sem gerir þetta mögulegt.”
13. apríl 2005
Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - 2004
Nánar
Ör þróun á fjarskiptamarkaði endurspeglast í nýju tölfræðiyfirliti Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2004. Þar kemur fram að á annan tug netþjónustufyrirtækja eru starfrækt í landinu og að fimmtíu þúsund Íslendingar eru áskrifendur að háhraðatengingum (xDSL). Tvíkeppni ríkir hins vegar á símamarkaði. Landsími Íslands er með 74% markaðshlutdeild í innanlandssamtölum á fastaneti og 64,5% hlutdeild á GSM-farsímamarkaði miðað við fjölda viðskiptavina. Hlutdeild Símans á farsímamarkaði breyttist ekki frá 2002 til 2004 en hlutdeild í fastlínukerfinu minnkaði nokkuð. Símtölum í almenna símanetinu fækkar jafnt og þétt á meðan símtölum í farsímanetum fjölgar. Þá eru færri notendalínur settar upp í fastaneti Símans á sama tíma og ISDN grunntengingum fjölgar. Í tölfræðiyfirliti kemur einnig fram að Íslendingar sendu í fyrra yfir eitt hundrað og fimmtíu milljónir smáskilaboða í farsíma, eða yfir tvöfalt fleiri en fyrir fjórum árum. Sjá tölfræðiyfirlit fyrir árið 2004.
12. apríl 2005
Og fjarskiptum hf. skylt að gæta jafnræðis
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS ) hefur ákvarðað að Og fjarskiptum hf. (Og Vodafone) sé skylt sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á farsímamarkaði að gæta jafnræðis, sbr. 25. gr. fjarskiptalaga nr. 107/1999, að því er varðar svokallaða lúkningu símtala inn á farsímanet fyrirtækisins. Sú skylda nái m.a. til þess að sama gjald skal tekið óháð því úr hvaða neti símtalið er upprunið. Ber Og fjarskiptum að bókfæra sölu á lúkningu til fastanets fyrirtækisins á sama verði og til annarra fyrirtækja. Og fjarskiptum hf. er veittur 30 daga frestur frá dagsetningu ákvörðunar Póst-og fjarskiptastofnunar 11.apríl til að sýna fram á með fullnægjandi gögnum að fyrirtækið hafi látið af mismunun í verðlagningu á lúkningu í farsímaneti fyrirtækisins. Að öðrum kosti mun PFS grípa til viðeigandi ráðstafana skv. 3. mgr. 73. gr. laga nr. 81/2003. Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar á sér nokkra forsögu. Síminn krafðist þess í október 2003 að PFS beindi þeim fyrirmælum til Vodafone að láta af mismunun í verðlagningu. Vodafone gerði þá mótkröfu að kröfu Símans yrði hafnað. Greindu menn á um túlkun laga um skyldur fyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild að gæta jafnræðis. Vodafone hélt því fram að kvöð um jafnræði hefði ekki stofnast sjálfkrafa við ákvörðun PFS um að fyrirtækið hefði markaðsráðandi hlutdeild. Einnig að ekki fælist í 1. mgr. 25. gr. fjarskiptalaga 107/1999 skylda til að gæta jafnræðis í verði. Síminn hélt því hins vegar fram að skylda til jafnræðis hefði stofnast 15. júlí 2003 þegar Vodafone var úrskurðað með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og farsímaþjónustu. Það er álit Póst- og fjarskiptastofnunar að skyldur fyrirtækja um aðgang og samtengingar hvíli sjálfkrafa á fyrirtækum sem úrskurðuð hafa verið með umtalsverða markaðshlutdeild. Það er jafnframt álit PFS að einn mikilvægasti þátturinn í samningum um samtengingu sé verð. Það sé því ekki hægt að líta svo á að fyrirtæki gæti jafnræðis með tilliti til samtenginga sem þau bjóða, ef þau mismuni í þeim mikilvæga þætti sem verðið er. Sjá úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar
12. apríl 2005
Nýjar reglur um rekstur fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett nýjar reglur um almenna heimild til að reka fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu. Reglurnar eru nr. 345/2005 og voru birtar í stjórnartíðindum þann 6. apríl sl. Með lögum um fjarskipti nr. 81/2003 var afnumin með öllu skylda fjarskiptafyrirtækja til þess að sækja um sérstakt rekstrarleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Einnig varð nokkur breyting á þeim skilyrðum sem setja má fyrir almennri fjarskiptastarfsemi. Nýju reglurnar taka mið af þessum breytingum. Fjarskiptafyrirtæki sem þurfa á tíðni- og númeraúthlutunum að halda þurfa eftir sem áður að sækja um slíkt til stofnunarinnar og lúta sérstökum skilyrðum sem ekki koma fram í reglum um almenna heimild. Sjá nýju reglurnar
5. apríl 2005
Ný tímaáætlun fyrir markaðsgreiningu
Nánar
Ný tímaáætlun fyrir markaðsgreiningu Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert nýja áætlun um markaðsgreiningu. Tímasetningar hafa verið endurskoðaðar í ljósi fenginnar reynslu, en verkið hefur reynst mjög umfangsmikið og tímafrekt. Athygli er vakin á því að röð markaða hefur verið breytt nokkuð frá fyrri áætlun. Sjá nýja tímaáætlun fyrir greiningu á fjarskiptamarkaði.
1. apríl 2005
UHF-tíðnir fyrir stafrænt sjónvarp boðnar út
Nánar
Útboðsauglýsing UHF tíðnir fyrir stafrænt sjónvarp á landsvísu skv. DVB-T staðli - I. áfangi Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir með vísan til 9. og 11. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 eftir tilboðum í UHF rásir til stafrænna sjónvarpsútsendinga með DVB-T tækni. Með útboðinu er fyrirtækjum gert kleift að byggja upp stafrænt sjónvarpsdreifinet á landsvísu. Stefnt er að því að sem flestir landsmenn eigi innan tveggja ára kost á að taka á móti stafrænum sjónvarpssendingum með DVB-T tækni. Ekki verður boðið í gjald fyrir réttindi til tíðninotkunar. Aðrar þættir ráða vali milli bjóðenda, s.s. útbreiðsla sendinga og þjónusta við notendur. Að þessu sinni verður úthlutað allt að 10 rásum. Hver bjóðandi getur sótt um 2 rásir að hámarki. Þó má sækja um eina rás til viðbótar ef dreifa á háskerpusjónvarpi (HDTV) fyrir eina eða fleiri dagskrár, innan tveggja ára frá úthlutun tíðniréttinda. Gerð er krafa um lágmarksútbreiðslu: Að dreifinetið nái að lágmarki til 40 sveitarfélaga innan eins árs frá úthlutun réttinda. Að dreifinetið nái að lágmarki til 98% heimila í landinu innan tveggja ára. Nánari upplýsingar og skilmála er að finna í útboðslýsingu - (pdf-snið).Útboðslýsing í word-skjaliFylgiskjal 1Fylgiskjal 2Fylgiskjal 3Fylgiskjal 4Einnig má fá útboðslýsingu á skrifstofu stofnunarinnar.Tilboðsfrestur er til 17. maí 2005, kl. 11:00.
31. mars 2005
Íslendingar virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um netöryggi
Nánar
Íslendingar og aðrar EFTA-þjóðir verða virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um net- og upplýsingaöryggi sem er að taka til starfa. Stofnunin ENISA (European Network and Information Security Agency) á að tryggja öryggi í netþjónustu og gagnaflutningum á evrópska efnahagssvæðinu, samræma lög og reglur og veita stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum sérfræðiráðgjöf. Að tillögu samgönguráðherra samþykkti íslenska ríkisstjórnin aðild að ENISA-stofnuninni í mars 2004, en þá lá fyrir formleg ákvörðun hjá framkvæmdastjórn ESB um að koma henni á fót. Í byrjun þessa árs tókust samningar um að EFTA-ríkin fengju fulltrúa í stjórn stofnunarinnar, en þau höfðu lagt mikla áherslu á að öðlast slíkan sess. Fulltrúar Íslands, Lichtenstein og Noregs sóttu nýlega fyrsta stjórnarfund ENISA, en afar brýnt er að EFTA-ríkin séu virkir þátttakendur í þessu samstarfi, fylgist náið með nýjungum og afli og miðli upplýsingum til hagsmunaaðila á markaði. Þetta er ekki síst knýjandi nauðsyn fyrir Íslendinga, sem samkvæmt alþjóðlegum könnunum standa flestum þjóðum framar í að nýta tölvu- og upplýsingatækni. Alþjóðlegt samstarf um net- og upplýsingaöryggi (UT-öryggi) er lykilatriði ef takast á að afstýra skemmdarverkum og tryggja áreiðanlega gagnaflutninga á Netinu, til hagsbóta fyrir neytendur, fyrirtæki og stofnanir. Á þessu ári verður megináherslan lögð á að skipuleggja starfsemi ENISA til frambúðar og mun sú vinna byggja á niðurstöðum ítarlegrar könnunar sem nýlega var gerð í stjórnsýslu allra ríkja á evrópska efnahagssvæðinu. Ráðnir verða 44 starfsmenn, flestir í apríl 2005, og er stefnt að því að starfsemin verði komin á fullt skrið síðla árs. Stofnunarinnar bíða viðamikil verkefni m.a. við að samræma stefnuna, en skoðanir aðildarríkja á því hvernig beri að forgangsraða verkefnum eru eðlilega afar ólíkar. Sjá frekari upplýsingar um ENISA Einnig veitir Hörður Halldórsson, Alþjóðadeild PFS upplýsingar í síma: 5101500
30. mars 2005
Kvaðir um alþjónustu takmörkunum háðar
Nánar
Fjarskiptalög nr. 81 frá árinu 2003 heimila ekki, líkt og fullyrt var í leiðara Morgunblaðsins 30. mars, að leggja megi á Landsímann eða önnur fjarskiptafyrirtæki útvíkkaðar kvaðir um að veita þjónustu umfram alþjónustu, t.d. þá að koma upp breiðbandstengingum í dreifbýli. Íslensk fjarskiptalög taka mið af alþjónustutilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB. Í henni er alþjónusta skilgreind sem sú lágmarksþjónustu sem stjórnvöldum er skylt að tryggja öllum þegnum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu. Þetta er gert með því að leggja kvaðir á fyrirtæki sem rekur fjarskiptanet- eða þjónustu. Þar sem tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB heimilar ekki aðrar kvaðir en þær sem þegar eru innleiddar í íslensk lög verður að leita annarra leiða en útvíkka alþjónunstukvaðir, vilji íslensk stjórnvöld bæta fjarskiptaþjónustu. Má þar t.d. benda á 23. grein fjarskiptalaga þar sem samgönguráðherra er heimilt að leggja í framkvæmdir, rekstur eða þjónustu sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, ef ætla má að fjarskiptaþjónustan skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða. Samkvæmt gildandi lögum telst alþjónusta vera talsímaþjónusta, almenningssímar, handvirk þjónusta og þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir. Einnig gagnaflutningsþjónusta með allt að 128 kbps hraða. Kvöðin um alþjónustu er nú lögð á Landssímann og er hún nánar skilgreind í rekstrarleyfi útgefnu í janúar 2002. Alþjónusta, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu, er veitt hérlendis, ef undan eru skildir um 70 sveitabæir sem ekki njóta 128 kbps tengihraða. Er nú verið að kanna með hvaða hætti bæta megi þar úr, en kostnaður við hverja tengingu getur numið á aðra milljón króna.