Fréttasafn
26. október 2005
Umræðuskjal um framtíðarnotkun NMT-450 tíðnisviðsins
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun hefur sett saman umræðuskjal með ýmsum upplýsingum og hugmyndum um notkun NMT-450 tíðnisviðsins Til að kanna áhuga markaðarins og sjónarmið hagsmunaaðila á notkun tíðnisviðsins verður óskað eftir athugasemdum og ábendingum um framtíðarnotkun þess. Sjá skjalið
25. október 2005
Framtíðarnotkun NMT-450 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir í dag á heimasíðu sinni umræðuskjal þar sem stofnunin leitar umsagnar markaðs- og hagsmunaaðila um framtíðarnotkun NMT-450 MHz tíðnisviðsins. NMT-kerfið, eins og það er nefnt í daglegu tali, hefur gegnt veigamiklu þjónustu- og öryggishlutverki fyrir sjófarendur og aðra sem staðsettir eru utan þjónustusvæðis GSM-kerfisins. Fyrirséð er að rekstri NMT-kerfisins verði hætt á næstu 2-3 árum og er því mikilvægt að huga að því sem tekur við. Stofnunin telur mikilvægt að við ákvarðanatöku um framtíðarnotkun verði markmið fjarskiptaáætlunar höfð að leiðarljósi, m.a. um langdræg stafræn farsímakerfi. Leitað er álits umsagnaraðila um hver sé æskilegur fjöldi rekstraraðila á tíðnisviðinu, fyrirkomulag uppbyggingar á farsímanetinu, heildsöluaðgang, þjónustu á netinu, kröfur um útbreiðslu, uppbyggingarhraða netsins, gjaldtöku af tíðnum og um markaðsleg áhrif slíks kerfis á önnur fjarskiptakerfi, t.d. 3ju kynslóð farsíma. Öllum er heimilt að senda inn álit, en sérstaklega verður leitað eftir athugasemdum skráðra fjarskiptafélaga, auk helstu hagsmunaaðila. PFS mun skoða allar athugasemdir sem berast og leggja að því loknu fram tillögur um notkun tíðnisviðsins, bjóða það út, bjóða það upp eða úthluta því eftir eðli þeirra athugasemda og ábendinga sem fram kunna að koma. Sérstök athygli er vakin á því að frestur til þess að skila inn umsögnum hefur verið framlengdur til 8. desember nk. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500 & 896-6953, Umræðuskjal (PDF)
11. október 2005
Nýtt skipurit hefur tekið gildi hjá Póst- og fjarskiptastofnun
Nánar
Nýtt skipurit hefur tekið gildi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Með því er leitast við að einfalda boðleiðir, gera stjórnun markvissari og stuðla að skilvirkari lausn verkefna. Meira
29. september 2005
Nýtt mælingarmastur tekið í notkun
Nánar
Nýlega var myndarlegt mastur reist á þaki höfuðstöðva PFS að Suðurlandsbraut 4. Með því er ætlunin að efla eftirlit með ljósvakanum, en samkvæmt lögum skal PFS stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins og tryggja að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar. Mastrið er góð viðbót við mælingarbíl PFS. Það er vel staðsett í miðri borginni og stendur tiltölulega hátt. Því má ætla að árangur af mælingum verði mun betri og að hægt verði að grípa inn fyrr en ella.
26. september 2005
Yfir 61.000 háhraðatengingar - nýtt tölfræðiyfirlit
Nánar
Nýtt tölfræðiyfirlit yfir íslenskan fjarskiptamarkað fram til júni 2005 er nú tiltækt á vefnum. Yfirlit yfir þróun á markaði er jafnan gert á hálfs árs fresti og byggir á upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum. Athygli vekur aukning háhraðatenginga milli ára, en þær eru nú komnar yfir 61.000. Þá hefur Síminn aukið hlut sinn á innanlandssímtölum í fastaneti. Sjá tölfræðiyfirlit fram til júní 2005.
21. september 2005
Fjögur norsk fjarskiptafyrirtæki útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk
Nánar
Norska Póst- og fjarskiptastofnunin hefur útnefnt fjögur fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan styrk á mörkuðum fyrir lúkningu símtala í farsímanetum (markaði 16). Þetta eru fyrirtækin Telenor ASA, NetComAS, Tele2Norge AS og Teletopia Mobile Communications AS. Á Telenor og NetCom er lögð á kvöð um verðþak á lúkningu símtala í eigin netum og er þeim gert að lækka verulega gjöld fyrir árslok 2006. Verðmunur á lúkningaþjónustu hjá þessum tveimur fyrirtækjum mun jafnframt minnka því farið er fram á að NetCom lækki gjaldskrá meira en Telenor. Forstjóri norsku Póst- og fjarskiptastofnunarinnar væntir þess að þessi ákvörðun komi neytendum til góða og að gjöld fyrir farsímanotkun muni lækka. Talið að sparnaður norskra neytenda geti numið meira en 400 milljónum norskra króna á ári að viðbættum virðisauka, eða um fjórum milljörðum íslenskra króna .
19. september 2005
Hagsmunaaðilar skila athugasemdum við greiningu PFS á tveimur mörkuðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur borist athugasemdir hagsmunaaðila við drögum stofnunarinar að greiningu á markaði fyrir aðgang og upphaf símatala í almennu farsímaneti og á markaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaðir 15 & 16). Drög að greiningu á þessum mörkuðum voru birt til samráðs 8. júlí s.l. Sjá samráðsgögn fyrir markað 15 Sjá samráðsgögn fyrir markað 16
18. september 2005
Tvö hundruð sjötíu og þrjú þúsund farsímar í notkun hér á landi
Nánar
Nær tvö hundruð sjötíu og þrjú þúsund GSM-farsímar eru í notkun hér á landi samkvæmt nýrri samantekt Póst- og fjarskiptastofnunar. Síminn er með 64,5 % allra farsímaáskrifenda og 66,4% þeirra sem eru með fyrirfram greidd símkort. 20.564 langdrægir NMT-farsímar eru í notkun og eru þeir allir í áskrift hjá Landsímanum. Sjá yfirlit um fjölda farsímanotenda