Hoppa yfir valmynd

NCC-IS / Eyvör

Fjarskiptastofa leiðir nú hæfnisetur í netöryggi - NCC-IS /Eyvöru

Fjarskiptastofa hefur nú tekið við forystu fyrir Eyvöru,  hæfnisetri í netöryggi á Íslandi, og fagnar þeim breytingum sem kynntar voru á fundi innviðaráðherra með stjórn, stýrihópi og fagráði Eyvarar á mánudaginn. Meðal helstu breytinga er skipun nýrrar stjórnar, undirritun uppfærðra úthlutunarreglna fyrir netöryggisstyrki og ákvörðun um að hæfnisetrið heyri formlega undir Fjarskiptastofu.

Fjarskiptastofa telur þetta eðlilegt og jákvætt framhald í þróun netöryggismála á Íslandi. Með því að sameina krafta stofnunarinnar og Eyvöru skapast tækifæri til að styrkja getu samfélagsins til að bregðast við í sífellt flóknara netöryggisumhverfi.

Eyvör, hæfnisetur í netöryggi (NCC-IS), er hluti af evrópsku netöryggisneti á vegum ECCC (European Cybersecurity Competence Centre). Setrið er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Fjarskiptastofu, Rannís, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Auðnu og hefur það að markmiði að efla hæfni, rannsóknir og nýsköpun á sviði netöryggis. Hafa þessir aðilar hlotið beina styrki frá Evrópusambandinu til að efla getu háskólanna á sviði netöryggis, þekkingaruppbyggingu á netöryggi í íslensku samfélagi, stuðla að auknu samtali stjórnvalda og atvinnulífs sem og auka norrænt samstarf á þessu sviði.

Markmið Eyvarar er þannig bæði að styrkja rannsóknir, menntun og fræðslu á sviði netöryggis, sem og að auðvelda aðgengi íslenskra aðila að alþjóðlegum sóknarfærum. Meðal verkefna hennar er rekstur netöryggisstyrkja sem veittir eru til verkefna sem stuðla að aukinni hæfni og getu á þessu sviði.

Fjarskiptastofa leiðir nú starfsemi Eyvarar og hefur það hlutverk að samhæfa aðgerðir og stuðla að öflugri netöryggismenningu á Íslandi. Hefur hæfnisetrið Eyvör þegar hafið úthlutun styrkja til verkefna sem efla netöryggi.

Ný stjórn Eyvarar, skipuð til tveggja ára, er eftirfarandi:

  • Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu (formaður)
  • Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu
  • Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti samfélagssviðs HR
  • Sigurður Magnús Garðarsson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
  • Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís


Fjarskiptastofa hlakkar til að leiða áframhaldandi uppbyggingu Eyvarar og efla netöryggisvitund, getu og nýsköpun í íslensku samfélagi.

Hlekkir á ýmislegt efni tengt NCC-IS