Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptatæki og búnaður

Innflutningur fjarskiptatækja

Fjarskiptastofa hefur markaðseftirlit með fjarskiptatækjum.

Skv. 30.gr og 27.gr laga nr 70/2022 er óheimilt að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur sem skilgreindar eru í lögunum og verður búnaðurinn að bera CE-merkingu því til staðfestingar.

Sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Fjarskiptastofu.

Fjarskiptabúnaður uppfyllir öll skilyrði til að vera settur á markað hér á landi, ef hann er í samræmi við kröfur sem gilda á EES-svæðinu. Framleiðendur fjarskiptabúnaðar bera ábyrgð á því að svo sé og skulu þeir merkja búnaðinn með CE-merkinu því til staðfestingar. Í gögnum með búnaðinum skal koma sérstaklega fram að CE-merkið sé til staðfestingar á því að hann sé í fullu samræmi við R&TTE tilskipunina.

Sjá upplýsingar um CE merkingu á vef Evrópusambandsins.

RED tilskipunin var innleidd að fullu á Íslandi í janúar 2007 með reglugerð nr. 90/2007 um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra.

Fjarskiptabúnaður sem ekki ber CE-merkið er ólöglegur hér á landi.

Um sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti gildir hið sama og að ofan, en auk þess geta gilt viðbótarreglur um merkingar, eftir því um hvers konar sendibúnað er að ræða.

Sendibúnaður fyrir þráðlaus fjarskipti:

a)      Sendar sem nota samræmd tíðnisvið, þar sem ekki þarf að sækja um leyfi til að eiga og nota viðkomandi tæki, t.d. GSM- og NMT- farsímar, CB-talstöðvar, fjarstýringar o.fl.:

Engar viðbótarkröfur eru gerðar. Tækin verða að vera CE-merkt.

b)      Sendar, sem nota sérúthlutaðar tíðnir, t.d. talstöðvar, útvarpssendar, fastasambönd o.fl.

Auk CE-merkisins skal vera svokallað “viðvörunarmerki” (!) á tækinu sjálfu eða í upplýsingum með tækinu. Merki þessu er ætlað að vekja athygli kaupandans á því að hugsanlega séu settar skorður við notkun þess, t.d. að sækja þurfi um tíðniúthlutun og/eða sérstakt leyfi til þess að nota tækið. Í upplýsingum með tækinu skal einnig koma fram hvort tækið sé ætlað til notkunar á Íslandi.

Framleiðendur fjarskiptabúnaðar eða fulltrúar þeirra með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu bera fulla ábyrgð á ofangreindum merkingum til staðfestingar á því að kröfum R&TTE tilskipunarinnar sé fullnægt. Ef svo er ekki færist þessi ábyrgð til þess sem setur búnaðinn á markað á Íslandi.

Sumarið 2016 var lét PFS gera markaðsúttekt á CE-merkingum fjarskiptatækja sem seld eru hér á landi:

Markaðsúttekt á CE-merkingum fjarskiptatækja 2016

**ATH:**
Fjarskiptabúnaður um borð í skipum og flugvélum, fjarskiptabúnaður fyrir flugumferðarstjórn svo og fjarskiptabúnaður sem radíóamatörar nota í samræmi við sérstakar reglur sem um þá gilda, fellur ekki undir R&TTE tilskipunina.

Endurvarpar

Allir GSM/3G/4G endurvarpar þurfa að bera CE-merkingu í samræmi við 65. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 svo unnt sé að flytja þá inn til landsins og markaðssetja hér á landi.

Samkvæmt lögum og reglum sem gilda um þráðlausan sendibúnað til fjarskipta, þ.m.t. GSM/3G/4G endurvarpa, þarf leyfi Fjarskiptastofu til að setja upp eða nota slíkan búnað.
(Sjá 62. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003**)

Þar sem tíðnum fyrir GSM/3G/4G hefur verið úthlutað á 800 MHz, 900 MHz, 1800 MHz og 2100 MHz til farsímafyrirtækja er að mati Fjarskiptastofu ekki heimilt að selja sendibúnað sem notar þær tíðnir, án þess að samþykki tíðnirétthafa liggi fyrir.

Ef leyfi fæst frá einum aðila er eingöngu heimilt að endurvarpa tíðnum sem sá aðili hefur fengið úthlutað.

Ekki er heimilt að selja breiðbandsbúnað sem endurvarpar öllum tíðnunum ef eingöngu liggur fyrir leyfi frá einum aðila.

Nánari upplýsingar um endurvarpa er hægt að fá hjá Fjarskiptastofu og/eða fjarskiptafyrirtækjunum.

PLB (Personal Location Beacons) neyðarsendar

PLB (Personal Location Beacons) eru einka-neyðarsendar sem vinna á 406 MHz tíðnisviðinu og eru vaktaðir af Cospas/Sarsat gervihnattakerfinu.  Ef neyðarboð berast frá PLB sendi sem skráður er á Íslandi er upplýsingum um það komið til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og Vaktstöðvar siglinga frá Cospas/Sarsat gervihnattakerfinu.

Sala á PLB er heimiluð til einstaklinga á Íslandi.  Sækja þarf um heimild fyrir starfrækslu búnaðarins til Fjarskiptastofu sem gefur út leyfisbréf og skráir upplýsingar um sendinn í sérstakan íslenskan gagnagrunn um PLB. Rafrænt umsóknareyðublað fyrir starfrækslu PLB má nálgast hér fyrir neðan. PLB senda má eingöngu nota í neyðartilfellum.

Fjarskiptastofa heldur utan um ofangreindan gagnagrunn yfir heimilaða PLB senda og birtir upplýsingar um þá á heimasíðu sinni. Að auki sendir stofnunin uppfærðan lista til Vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í hvert sinn sem breytingar verða.

Nýskráning
Eigandi PLB sendis ber ábyrgð á að sótt sé um starfræksluleyfi fyrir hann til Fjarskiptastofu, þó svo í flestum tilfellum sé það seljandi sem sæki um starfræksluleyfið fyrir eigandann. Eigandi eða seljandi sjá um að skrá upplýsingar í Cospas/Sarsat PLB-gagnagrunn.

Eigendaskipti
Ef PLB skiptir um eiganda ber að tilkynna það til Fjarskiptastofu sem gefur út nýtt leyfisbréf fyrir PLB á nýjan eiganda og breytir skráningu í gagnagrunni. Nota skal sama umsóknareyðublað og áður hefur verið nefnt og merkja sérstaklega ef umbreytingu  á fyrri skráningu er að ræða.

Tímabundið lán til annars en skráðs notanda
Ef PLB sendir er lánaður tímabundið skal tilkynna það til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu með þeim upplýsingum sem eiga tímabundið við (nafni og símanúmeri notanda, tengiliði og símanúmerum þeirra)

Ef PLB glatast eða eyðileggst
Ef PLB sendir glatast eða eyðileggst skal tilkynna það til Fjarskiptastofu.

Umsókn um leyfisbréf fyrir starfrækslu PLB neyðarsendis. (Rafrænt umsóknareyðublað)
(Athugið að sama eyðublað er notað fyrir nýskráningu og eigendaskipti. Haka þarf í viðeigandi reit)